Fara í efni

Sóknarfæri í tengslum við störf án staðsetningar

Málsnúmer 2005055

Vakta málsnúmer

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd - 3. fundur - 22.05.2020

Formaður nefndarinnar lagði fram minnisblað um störf án staðsetningar og áform ríkisstjórnarinnar í þeim efnum, sbr. kafla um byggðamál í stjórnarsáttmála hennar.

Ríkisstjórnin hefur falið ráðuneytum og stofnunum þeirra að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnti í byrjun þessa árs áætlun sína um þetta efni.
Mikilvægt er að bæjarstjórn Stykkishólms móti hið fyrsta tillögur til einstakra ráðherra um kosti þess að staðsetja störf ráðuneyta og opinberra stofnana í Stykkishólmi. Í Stykkishólmi er til staðar laust skrifstofurými, m.a. hjá opinberum stofnunum, sem henta vel og eru hagkvæm í rekstri. Nefndin lýsir sig reiðubúna að koma að mótun tillagna.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd - 4. fundur - 10.09.2020

Með vísan til 5. og 6. tl. fundargerðar nefndarinnar frá 22. maí sl., er lagt fram minnisblað um stofnun félags um rekstur frumkvöðla- og skrifstofuseturs í Stykkishólmi sem 8 fyrirtæki tengd Stykkishólmi standa að. Stefnt er að félagið taki á leigu og endurleigi skrifstofuaðstöðu sem auðveldi fólki að búa og starfa í Stykkishólmi þó að höfuðstöðvar atvinnurekandans séu staðsettar annars staðar.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd fagnar frumkvæði fyrirtækja í Stykkishólmi um stofnun félags um rekstur frumkvöðla- og skrifstofuseturs. Jafnframt hvetur nefndin Stykkishólmsbæ til að láta útbúa kynningarefni á rafrænu formi, um þá fjölskylduvæna þjónustu sem er í boði, framboð á afþreyingu, vistvænt umhverfi og fleira sem gerir Stykkishólm að eftirsóttum stað til að búa og starfa.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd - 5. fundur - 30.11.2020

Formaður atvinnu- og nýsköpunarnefndar gerir grein fyrir stofnun félagsins Suðureyjar ehf. um rekstur frumkvöðla- og skrifstofuseturs í Stykkishólmi. Átta fyrirtæki í Stykkishólmi eða með tengingu við Stykkishólm standa að félaginu. Stefnt er að félagið taki á leigu og endurleigi skrifstofuaðstöðu til að auðvelda fólki að búa og starfa í Stykkishólmi þó að höfuðstöðvar atvinnurekandans séu staðsettar annars staðar. Félagið fékk nýlega 625 þús.kr. styrk úr Uppbyggingasjóði Vesturlands og hefur sótt um verkefnastyrk til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis.
Lagt fram til kynningar.

Bæjarstjórn - 402. fundur - 30.09.2021

Lögð fram nýútkomin skýrsla þriggja ráðuneyta um störf án staðsetningar, staða og framtíðarhorfur. Í skýrslunni eru settar fram tillögur sem miða að því að fjölga auglýsingum ríkisstarfa án staðsetningar á næstu árum. Mjög misjafnt er hve ráðuneyti og stofnanir ríkisins telja mörg störf innan sinna vébanda geta unnist án tiltekinnar staðsetningar.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd fagnaði, á 8. fundi sínum, skýrslunni og telur hana mikilvæga í þeirri viðleitni að fleiri störf ríkisins verði skilgreind að geta unnist án tiltekinnar staðsetningar. Nefndin hvatti íbúa Stykkishólms að sækja um áhugaverð störf hjá ríkinu sem eru auglýst eru án staðsetningar á Starfatorg.is. Jafnframt hvatti nefndin bæjarstjórn Stykkishólms að sækja fleiri opinber störf til Stykkishólms.

Bæjarráð tók, á 631. fundi sínum, undir ályktun atvinnu- og nýsköpunarnefndar og vísaði málinu til bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar tekur undir ályktun atvinnu- og nýsköpunarnefndar.

Bæjarstjórn minnir jafnframt á að í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 kemur fram að markmiðið sé að fyrir árslok 2021 skulu 5% auglýstra starfa á vegum ríkisins vera án staðsetningar og í árslok 2024 skulu 10% auglýstra starfa vera án staðsetningar. Bæjarstjórn lýsir vonbrigðum sýnum með hversu langt er í land að þau markmið sem sett voru náist. Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar leggur þunga áherslu á að ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins skilgreini og auglýsi störf án staðsetningar.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar telur ennfremur að ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins hlutist til um að bjóða þeim starfsmönnum, sem vinna í skilgreindum störfum án staðsetningar, það val að færa störf sín á landsbyggðina.
Getum við bætt efni síðunnar?