Fara í efni

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd

4. fundur 10. september 2020 kl. 16:30 í fundarsal á 3. hæð
Nefndarmenn
  • Magda Kulinska aðalmaður
  • Halldór Árnason formaður
  • Kári Hilmarsson aðalmaður
  • Unnur María Rafnsdóttir varaformaður
Starfsmenn
  • Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Halldór Árnason formaður
Dagskrá

1.Sjávarútvegsdagurinn 2020

Málsnúmer 2009020Vakta málsnúmer

Dagskrá sjávarútvegsdagsins 2020 lögð fram.
Lagt fram til kynningar.

2.Horfur í atvinnulífi í Stykkishólmi næstu mánuði

Málsnúmer 2009021Vakta málsnúmer

Formaður atvinnu- og nýsköpunarnefndar gerði grein fyrir stöðu fyrirtækja í Stykkishólmi næstu mánuði á grundvelli athugunar bæjarskrifstofu Stykkishólms. Þrengingar eru í ferðaþjónustu vegna COVID19, en gæti farið að rofa til með vorinu. Starfsemi í sjávarútvegi hefur dregist saman að undanförnu vegna þrengri útflutningsmarkaða sem skýrist af áhrifum COVIS19. Á móti vegur að staðan í byggingariðnaði er mjög góð og opinber þjónusta og önnur þjónusta er í góðu jafnvægi.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd hvetur íbúa Stykkishólms að beina viðskiptum sínum til fyrirtækja í Stykkishólmi eftir því sem unnt er og stuðla þannig að því að verja störf sem kunna að vera í hættu.

3.Veiðistjórn grásleppu og fyrirkomulag hrognkelsaveiða

Málsnúmer 2005020Vakta málsnúmer

Fyrir atvinnu- og nýsköpunarnefnd er lögð fram drög að breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu o.fl.). Í drögunum er m.a. lagt til að ráðherra sé með reglugerð heimilt, að ákveða staðbundin veiðisvæði við grásleppuveiðar, þannig að aðeins geti þar stundað veiðar bátar sem skráðir séu frá byggðarlagi við hlutaðeigandi veiðisvæði og útgerð bátsins eigi þar heimilisfesti. Setja skal skipum aflahlutdeild í aflamarki og krókaaflamarki í grásleppu. Þá er í drögunum gert ráð fyrir að aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin á grundvelli veiðireynslu sem fengin hefur verið á leyfi sem skráð er á skipið. Við mat á veiðireynslu skal miða við þrjú bestu veiðitímabil viðkomandi skips frá og með árinu 2013 til og með árinu 2018. Þau skip ein eiga kost á að fá úthlutað aflahlutdeild sem höfðu rétt til leyfis til grásleppuveiða. Í drögunum er lagt til að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, megi aldrei nema hærra hlutfalli af heildaraflahlutdeild í grásleppu en 2%.

Einnig er lögð fram ályktun SSV um endurskoðun á fyrirkomulagi hrognkelsaveiða.

Valentínus Guðnason, fulltrúi Snæfells, félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi, í nefnd Landssambands smábátaeigenda um grásleppuveiðar, mætir til fundarins.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd fagnar því ákvæði í drögum að breytingu á lögum um fiskveiðar þar sem lagt er til að ráðherra geti með reglugerð ákveðið staðbundin veiðisvæði við grásleppuveiðar, þannig að aðeins geti þar stundað veiðar bátar sem skráðir séu frá byggðarlagi við hlutaðeigandi veiðisvæði og útgerð bátsins eigi þar heimilisfesti. Nefndin fagnar einnig því ákvæði í fyrrnefndum drögum þar sem kveðið er á um að setja skuli skipum aflahlutdeild í aflamarki og krókaaflamarki í grásleppu á grundvelli veiðireynslu. Þá fagnar nefndin að í drögunum er lagt til að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, megi aldrei nema hærra hlutfalli af heildaraflahlutdeild í grásleppu en 2%.

Loks fagnar nefndin ályktun SSV um endurskoðun á fyrirkomulagi hrognkelsaveiða.

4.Brottfall heimildar ráðherra til úthlutunar á skel- og rækjubótum

Málsnúmer 2009022Vakta málsnúmer

Í 8. gr. laga nr. 116/2016 um stjórn fiskveiða er tiltekið að taka skuli frá 5,3% aflamagns fyrir úthlutun aflamarks til aflahlutdeildarhafa. Þessu frátekna aflamagni skal ráðstafað til ýmissa þarfa, m.a. til að mæta óvæntum áföllum.

Í apríl 2019 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp til að endurskoða meðferð og ráðstöfun þessara aflaheimilda. Starfshópurinn skilaði skýrslu til ráðherra þann 18. febrúar 2020 þar sem m.a. er lagt til að gert verði upp við handhafa skel- og rækjubóta og þær aflaheimildir renni í varasjóð til að bregðast við óvæntum áföllum í sjávarbyggðum.

Fyrir atvinnu- og nýsköpunarnefnd er lögð fram drög að frumvarpi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem snertir atvinnu- og byggðakvóta o.fl. Þar er m.a. lagt til að heimild ráðherra til að ráðstafa tilteknu aflamagni í skel- og rækjubætur falli brott en að það aflamagn renni í varasjóð vegna óvæntra áfalla. Lagt er til að þetta verði gert í skrefum á tveggja ára tímabili til að veita handhöfum skel- og rækjubóta tíma til aðlögunar.

Formaður nefndarinnar gerir grein fyrir því tjóni sem fyrirtæki á svæðinu sem fengið hafa þessar bætur verða fyrir, verði frumvarpsdrögin óbreytt að lögum. Þessi fyrirtæki hafa árlega fengið bætur í formi aflaheimilda til að milda tjón sem varð þegar heimildir þeirra til skelfiskveiða urðu að engu við eyðingu skelfiskstofnsins.
Það blasir við að um er að ræða mikilvægt hagsmunamál fyrir atvinnulífið og fyrirtækin öll sem reka útgerð og fiskvinnslu og nýta þær aflaheimildir sem hafa fylgt skelbótunum. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd lýsir fullkominni andstöðu gagnvart þeim áformum sem felast í frumvarpinu sem með litlum fyrirvara gerir ráð fyrir að svipta útgerðirnar aflaheimildum og þar með skerða verulega rekstrargrundvöll fyrirtækjanna. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd hvetur bæjarstjórn til þess að beina ályktunum sínum til þingmanna kjördæmisins og sjávarútvegsráðherra um að falla frá þeim áformum sem frumvarpið felur í sér. Tryggja verður til frambúðar þann veiðirétt sem hefur fylgt skelbótunum og festa þær varanlega sem heimildir þeirra skipa sem í dag nýta sér kvótann sem fylgir skelbótunum og var á sínum tíma byggður upp af heimildum sem skipin höfðu í skelkvóta.

5.Störf án staðsetningar - Félag um rekstur frumkvöðla- og skrifstofuseturs

Málsnúmer 2005055Vakta málsnúmer

Með vísan til 5. og 6. tl. fundargerðar nefndarinnar frá 22. maí sl., er lagt fram minnisblað um stofnun félags um rekstur frumkvöðla- og skrifstofuseturs í Stykkishólmi sem 8 fyrirtæki tengd Stykkishólmi standa að. Stefnt er að félagið taki á leigu og endurleigi skrifstofuaðstöðu sem auðveldi fólki að búa og starfa í Stykkishólmi þó að höfuðstöðvar atvinnurekandans séu staðsettar annars staðar.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd fagnar frumkvæði fyrirtækja í Stykkishólmi um stofnun félags um rekstur frumkvöðla- og skrifstofuseturs. Jafnframt hvetur nefndin Stykkishólmsbæ til að láta útbúa kynningarefni á rafrænu formi, um þá fjölskylduvæna þjónustu sem er í boði, framboð á afþreyingu, vistvænt umhverfi og fleira sem gerir Stykkishólm að eftirsóttum stað til að búa og starfa.

6.Kynningarfundur í Stykkishólmi um frumkvöðlastarfsemi

Málsnúmer 2004022Vakta málsnúmer

Með vísan til 5. og 6. tl. fundargerðar nefndarinnar frá 22. maí sl. er rætt um að atvinnu- og nýsköpunarnefnd í samstarfi við bæjarstjórn beitti sér fyrir opnum kynningarfundi um frumkvöðlastarfsemi og hvað þurfi til svo að slík starfsemi geti borið ávöxt.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd er reiðubúin í samráði við bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar að efna til opins kynningarfundar um frumkvöðlastarfsemi. Stefnt verði að því að fundurinn verði haldinn í október 2020.

7.Nýsköpun atvinnulífs á Vesturlandi

Málsnúmer 2009023Vakta málsnúmer

Lagt var fram minnisblað SSV um nýsköpun atvinnulífs á Vesturlandi. Í minnisblaðinu er lagt til að skipaður verði vinnuhópur til þess að móta stefnu um eflingu nýsköpunar atvinnulífs á Vesturlandi. Í hópnum verði fulltrúar frá atvinnulífi, menntastofnunum, sveitarfélögum og frumkvöðlar.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd hvetur bæjarstjórn Stykkishólms og fulltrúa fyrirtækja í Stykkishólmi að taka þátt í að móta stefnu um eflingu nýsköpunar atvinnulífs á Vesturlandi.

8.Áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands

Málsnúmer 2009024Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað SSV um stöðu áhersluverkefna Sóknaráætlunar Vesturlands á árinu 2020.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd hvetur frumkvöðla og fyrirtæki í Stykkishólmi að sækja um stuðning í Sóknaráætlun Vesturlands og nýta sér stuðning atvinnuráðgjafa SSV til að útbúa umsókn.

9.Athugasemdir við bókun nefndarinnar um leikskólamál frá 22. maí 2020

Málsnúmer 2004029Vakta málsnúmer

Lagðar fram athugasemdir leikskólastjórnenda um bókun Atvinnu- og nýsköpunarnefndar Stykkishólmsbæjar vegna sumarlokunar í Leikskólanum í Stykkishólmi, sbr. fund nefndarinnar 22. maí 2020.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd þakkar athugasemdir leikskólastjórnenda og vill taka fram að í bókun frá 22. maí 2020 var nefndin ekki að taka afstöðu eða gagnrýna fagleg störf leikskólans og leikskólastjórnenda enda er það ekki hlutverk nefndarinnar.

10.Matvælasjóður - opið fyrir umsóknir

Málsnúmer 2009031Vakta málsnúmer

Nýstofnaður Matvælasjóður hefur opnað fyrir umsóknir og er umsóknarfrestur til 21. september nk. Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Markmið sjóðsins er að ná til verkefna á öllum stigum, allt frá hugmyndum til markaðssetningar og hagnýtra rannsókna. Sjóðnum er einnig heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum. Ráðstöfunarfé Matvælasjóðs samanstendur af fjárveitingu af fjárlögum hverju sinni og öðrum tekjum eftir því sem þeim er til að dreifa.

Frekari upplýsingar er að finna á: https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/matvaeli-og-matvaelaoryggi/matvaelasjodur/
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd hvetur fyrirtæki og einstaklinga í Stykkishólmi til að sækja um styrk í Matvælasjóð fyrir 21. september nk.

Athygli er vakin á að atvinnuráðgjafar SSV eru reiðubúnir til að aðstoða við að útbúa umsóknir og fylla út eyðublöð, en einnig er hægt að afla upplýsinga um sjóðinn hjá Ragnhildi Sigurðardóttur, framkvæmdarstjóra Svæðisgarðsins Snæfellsness.

Fundi slitið.

Getum við bætt efni síðunnar?