Fara í efni

Staða skólastjóra grunnskóla og tónlistaskóla Stykkishólmsbæjar

Málsnúmer 2102042

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 396. fundur - 25.02.2021

Lögð fram tillaga að skipulagsbreytingum sem felur í sér breytingu á stjórnun með samrekstri grunnskóla og tónlistaskóla í ljósi þess að skólastjóri Tónlistaskóla Stykkishólms hefur óskað eftir að láta af störfum. Markmið skipulagsbreytinganna er fyrst og fremst að auka mátt tónlistar í sveitarfélaginu með því að auka svigrúm til faglegrar stjórnunar og ríkari kennsluskyldu sem byggi undir gæði náms og möguleika til kennslu. Þá eru þær í samræmi við skólastefnu eins og nánari grein er gerð fyrir í tillögunni.
Lögð fram tillaga bæjarstjóra og skólastjóra Grunnskólans í Stykkishólmi um samrekstur grunn- og tónlistarskóla, ásamt umsögn skóla- og fræðslunefndar:

Lagt er til að Grunnskólinn í Stykkishólmi og Tónlistarskóli Stykkishólms verði samreknir í samræmi við heimild í 4. mgr. 45. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 frá og með skólaárinu 2021-22. Leitað hefur verið umsagnar fræðslu- og skólanefndar um tillöguna.

Starf skólastjóra Grunnskólans í Stykkishólmi breytist og fer skólastjóri framvegis með skólastjórn grunnskóla og tónlistarskóla bæjarins. Bæjarstjóra er falið að ganga frá breytingu á starfi í samræmi við kjarasamning. Breytingin tekur gildi við upphaf nýs skólaárs.

Nýtt starf aðstoðarskólastjóra verður við skólana frá upphafi skólaársins 2021-22. Aðstoðarskólastjóri er staðgengill skólastjóra.

Starf deildarstjóra grunnskóla er lagt niður við lok skólaársins 2020-21. Bæjarstjóra og skólastjóra er falið að ganga frá starfslokum eftir því sem við á við starfandi deildarstjóra.

Starf skólastjóra Tónlistarskóla Stykkishólms er lagt niður við lok skólaársins 2020-21. Skólastjóri hefur óskað lausnar frá störfum og bæjarstjóra er falið að ganga frá starfslokum í samræmi við ákvæði kjarasamnings.

Skólastjóri grunnskólans mun annast ráðningar starfsmanna í samræmi við fyrirliggjandi gögn, en að skipa mætti hæfninefnd skipuð oddvitum allra lista skólastjóra til ráðgjafar í ráðningarferlinu hvað varðar aðstoðarskólastjóra, sem vinni hæfnimat á umsóknum og vinni tillögu að ráðningu sem skólastjóri tekur afstöðu til.

Bæjarstjóra er falið að uppfæra skipurit bæjarins til samræmis við samþykkt þessa. Þá er skólastjóra falið að uppfæra stjórnskipulag skólans og innri reglur til samræmis við samþykktina í samræmi við ákvæði grunnskólalaga nr. 91/2008 og laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985.

Bæjarráð Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar - 7. fundur - 19.01.2023

Sigríður Þorgrímsdóttir frá Attentus kom inn á fund í gegnum Teams.
Skólastjóri Grunnskólans í Stykkishólmi hefur sagt starfi sinu lausu. Vegna þess er þörf á að hefja undirbúning ráðningar í starf skólastjóra.

Ráðning skólastjóra og starfsfólks í leik- og grunnskóla fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga og nánari fyrirmælum í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins. Með vísan til 56. gr. sveitarstjórnarlaga og 50. gr. reglna um stjórn sveitarfélagsins kemur það í hlut sveitarstjórnar að ráða skólastjóra grunnskólans.

Lögð er fram áætlun um ráðninguna. Áætlunin gerir ráð fyrir að sveitarstjórn taki ákvörðun um ráðningu en að forseti bæjarstjórnar og bæjarstjóra sé í sameiningu í samvinnu við hæfninefnd sem skipuð er aðalmönnum í bæjarráði falinn undirbúningur ákvörðunar með aðstoð ráðgjafa frá Attentus.
Bæjarráð samþykkir að forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra sé í sameiningu falið að annast undirbúning ráðningar skólastjóra Grunnskólans í Stykkishólmi, í samvinnu við hæfninefnd sem skipuð verður aðalmönnum í bæjarráði, í samræmi við framlagða áætlun og gera tillögu að ráðningu til bæjarstjórnar. Lagt til við bæjarstjórn að staðfesta ákvöðunina.
Sigríður vék af fundi.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar - 9. fundur - 26.01.2023

Skólastjóri samrekins grunnskóla og tónlistaskóla hefur sagt starfi sinu lausu. Vegna þess er þörf á að hefja undirbúning ráðningar í starf skólastjóra.

Ráðning skólastjóra og starfsfólks í leik- og grunnskóla fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga og nánari fyrirmælum í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins. Með vísan til 56. gr. sveitarstjórnarlaga og 50. gr. reglna um stjórn sveitarfélagsins kemur það í hlut bæjarstjórnar að ráða skólastjóra grunnskólans.

Lögð er fram drög að bókun ásamt áætlun um ráðninguna. Áætlunin gerir ráð fyrir að bæjarstjórn taki ákvörðun um ráðningu en að forseti bæjarstjórnar og bæjarstjóra sé í sameiningu, í samvinnu við hæfninefnd, sem skipuð er aðalmönnum í bæjarráði, falinn undirbúningur ákvörðunar með aðstoð ráðgjafa frá Attentus.

Bæjarráð samþykkti á 7. fundi sínum, að forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra sé í sameiningu falið að annast undirbúning ráðningar skólastjóra Grunnskólans í Stykkishólmi og tónlistaskóla, í samvinnu við hæfninefnd sem skipuð verður aðalmönnum í bæjarráði, í samræmi við framlagða áætlun og gera tillögu að ráðningu til bæjarstjórnar.

Afgreiðsla bæjarráðs er lögð fram til staðfestingar í bæjarstjórn.
Forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra er í sameiningu falið að annast undirbúning ráðningar skólastjóra samrekins Grunn- og tónlistarskóla í Stykkishólmi, í samvinnu við hæfninefnd sem skipuð verður aðalmönnum í bæjarráði, í samræmi við framlagða áætlun og gera tillögu að ráðningu til bæjarstjórnar.

Bæjarráð - 10. fundur - 27.03.2023

Á 9. fundi bæjarstjórnar samþykkti bæjarstjórn að skipa hæfninefnd, í tengslum við ráðningu skólastjóra, og að hún skuli skipuð aðalmönnum í bæjarráði í samræmi framlagða áætlun. Í ljósi þess að einn umsækjenda er kjörinn fulltrúi í bæjarstjórn, er lagt til skipan hæfninefndar verði endurskoðuð, og þar með áætlun um ráðninguna, til að tryggja betur jafnræði, hlutleysi og fagleg vinnubrögð í ráðningaferlinu.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að skipa eftirtalda aðila í hæfninefnd:

Eyþór Benediktsson
Sigrún Þórsteinsdóttir
Sigurlína Sigurbjörnsdóttir

Bæjarstjórn - 11. fundur - 30.03.2023

Ragnar Ingi Sigurðsson vék af fundi.
Á 9. fundi bæjarstjórnar samþykkti bæjarstjórn að skipa hæfninefnd, í tengslum við ráðningu skólastjóra, og að hún skuli skipuð aðalmönnum í bæjarráði í samræmi framlagða áætlun. Í ljósi þess að einn umsækjenda er kjörinn fulltrúi í bæjarstjórn, er lagt til að skipan hæfninefndar verði endurskoðuð, og þar með áætlun um ráðninguna, til að tryggja betur jafnræði og hlutleysi hæfninefndar gagnvart öllum umsækjendum og þar með fagleg vinnubrögð í ráðningarferlinu.

Bæjarráð lagði á 10. fundi sínum til við bæjarstjórn að skipa eftirtalda aðila í hæfninefnd:

Eyþór Benediktsson
Sigrún Þórsteinsdóttir
Sigurlína Sigurbjörnsdóttir
Bæjarstjórn samþykkir tillögu bæjarráðs að skipun í hæfninefnd og að áætlun um ráðninguna verði uppfærð til samræmis við það.

Til máls tóku:HH,RMR og JBSJ
Ragnar Ingi kom aftur inn á fundinn.

Bæjarstjórn - 14. fundur - 11.05.2023

Lögð fram tillaga að ráðningu skólastjóra Grunnskólans í Stykkishólmi og Tónlistarskóla Stykkishólms sem byggð er á niðurstöðu hæfninefndar og ráðgjafa Attentus.
Bæjarstjórn samþykkir að ráða að Heimi Eyvindarson í starf skólastjóra Grunnskólans í Stykkishólmi og Tónlistarskóla Stykkishólms í samræmi við niðurstöðu hæfninefndar og ráðgjafa Attentus.

Skóla- og fræðslunefnd - 7. fundur - 23.05.2023

Á 14. fundi bæjarstjórnar Stykkishólms, þann 11. maí, samþykkti bæjarstjórn að ráða Heimi Eyvindarson í stöðu skólastjóra Grunnskólans í Stykkishólmi og Tónlistarskóla Stykkishólms. Ákvörðun bæjarstjórnar er byggð á niðurstöðu ráðgjafa Attentus og hæfninefndar sem taldi Heimi mæta best þeim kröfum sem gerðar voru í auglýsingu um starfið.
Lagt fram til kynningar.
Getum við bætt efni síðunnar?