Fara í efni

Safna- og menningarmálanefnd

108. fundur 18. október 2019 kl. 17:15 - 20:10 í fundarsal á 3. hæð
Nefndarmenn
  • Greta María Árnadóttir aðalmaður
  • Jakob Björgvin Jakobsson formaður
  • Anna Melsteð aðalmaður
  • Ragnheiður Valdimarsdóttir (RV) varamaður
Starfsmenn
  • Hjördís Pálsdóttir forstöðumaður norska hússins bsh
  • Nanna Guðmundsdóttir forstöðumaður amtsbókasafns
Fundargerð ritaði: Jakob Björgvin Jakobsson formaður
Dagskrá

1.Breiðafjarðarstofa við Árnabryggju

Málsnúmer 1808014Vakta málsnúmer

Fyrir safna- og menningarmálanefnd er lagt fram erindi í tengslum við áform um uppbyggingu svæðis í kringum Árnabryggju sem lagt var fram til kynningar á 590. fundi bæjarráðs. Svæðið sem um ræðir nær frá Mylluhöfða meðfram fjöruborðinu til austurs langleiðina á móts við svokallað Sæmundarpakkhús við Hafnargötu. Fram kom í erindinu að Sólveig Berg, hjá Yrki arkitektum ehf., væri að vinna að tillögu að útliti og fyrirkomulagi.

Á 604. fundi bæjaráðs var svo lögð fram tillaga frá Yrki arkitektum að Breiðfirsku bátasafni í Stykkishólmi sem fengið heitið: Breiðafjarðarstofa. Tillagan sýnir safnbyggingu við Árnabryggju sem myndar umgjörð um skipið Egil. Á efri hæð hússins verður aðalinngangur á sýninguna, sjálfvirk miðasala og aðgengisstýrt. Er þar einnig gert ráð fyrir skrifstofum, fundarherbergi, salerni og aðstöða fyrir starfsmenn. Í skrifstofurýmið mætti m.a. fá inn heilsárslegjendur. Sýningarsalurinn er á neðri hæð hússins, til norðurs, og verður kalt og rakt rými til að tryggja varðveilsu skipsins.
Lagt fram til kynningar.

2.Starfsemi Eldfjallasafnsins - Uppgjör ársins 2018

Málsnúmer 1905065Vakta málsnúmer

Á 108. fundi safna- og menningarmálanefndar kom Hjördís Pálsdóttir, safnstjóri, til fundar við nefndina og gerði grein fyrir ársskýrslu um starfsemi Eldfjallasafnsins 2018, þar sem m.a. var farið yfir starfsemi safnsins, sögu þess, nýjungar, markaðsstarf og framtíðarsýn.Safna- og menningarmálanefnd óskaði á sama fundi eftir upplýsingum um rekstur og niðurstöðu safnsins árið 2018.

Fyrir safna- og menningarmálanefnd er lagt fram uppgjör Eldfjallasafns vegna árisns 2018.
Lagt fram til kynningar.

3.Sögu og menningararfur í Stykkishólmi/Menningartengd ferðaþjónusta

Málsnúmer 1905057Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað bæjarstjóra um eflingu átthagafræðslu (þ.m.t. sögu og menningararfs) og menningartengdrar ferðaþjónustu í Stykkishólmi, en nokkrir dagskrárliðir eru til umfjöllunar á fundinum sem tengjast minnisblaði bæjarstjóra.

Í minnisblaðinu kemur fram að efling átthagafræðslu er ein af aðgerðum í menningarstefnu Vesturlands, bæði hvað varðar eflingu átthagafræðslu í leik- og grunnskólum sem og þróun kennsluefnis í átthagafræðslu fyrir alla aldurshópa. Í þessum anda er vert að huga að því að efla átthagafræðslu fyrir íbúa Stykkishólmsbæjar þannig að hún verði aukin með aðgengilegu fræðsluefni og merkingum m.a. um minjar og sögu, byggingarlist, náttúrufar og kennileiti í bæjarlandinu, en þó einkum við göngustíga, gömul hús og á útivistarsvæðum. Gera má jafnframt ráð fyrir því að fræðslan verði á íslensku og ensku og því nýtist í tengslum við menningartengda ferðaþjónustu, en menningartengd ferðaþjónusta nær yfir ýmiss konar afþreyingu í ferðaþjónustu sem byggist á sögu og menningu. Hafa ber jafnframt í huga stýringu á ferðmönnum í þessu sambandi.

Á sama tíma er vert að virkja einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki í þessu sambandi í von um frumkvæði þeirra í þessu sambandi, sem mun án efa bæta og fegra bæjarumhverfið, eftir atvikum í samstarfi við Stykkishólmsbæ, og þannig hvetja til frumkvæðis þeirra við að gera hærra undir höfði með sýnilegum hætti þeirri söguarfleifð sem hér er í Stykkishólmi.

Lagður er fram hugmyndalisti að menningartengum viðburðum þar sem meðal annars eru hugmyndir sem tengjast menningartengdri ferðaþjónustu. Þá eru lagðar fram tillögur að verkefnum sem hægt er að leggja áherslu á, svo sem skilti við gömlu húsin og staði, átthagafræðslu ungmenna, örnefni og fornminjar í Stykkishólmi og söguskilti

Í þessu sambandi eru lagðir jafnframt fram gamlir upplýsingabæklingar m.a. um gömlu húsin í Stykkishólmi, en í því sambandi mun bæjarstjóri kynna hugmyndir um að koma þessum eða svipuðum upplýsingum fram með rafrænum hætti auk þess að setja upp skilti fyrir framan gömlu húsin í bænum með upplýsingum um þau.

Hefur bæjarstjóri óskað eftir afstöðu safna- og menningamálanefndar um fyrirliggjandi hugmyndir um eflingu átthagafræðslu, þ.m.t. að koma á framfæri sögu og menningararfs til íbúa og gesta, og menningartengdrar ferðaþjónustu í Stykkishólmi.
Formaður safna- og menningarmálanefndar fer yfir tilgang minnisblaðsins, en uppruna minnisblaðsins má rekja til ábendinga frá íbúa og minnispunkta bæjarstjóra í kjölfar umræðna og samtala við íbúa um hin ýmsu málefni síðasta vetur. Tilgangur minnisblaðsins er m.a. að vekja athygli nefndarmanna á þeim tækifærum sem standa til boða hér í Stykkishólmi, m.a. í menningarmálum, og þá að hvetja til umræðu og frumkvæðis í þessum efnum. Nú þegar liggja fyrir safna- og menningarmálanefnd nokkur mál sem byggja á umræddu minnisblaði, beint eða óbeint, t.d. lagningu göngustíga ásamt fræðsluskiltum við Búðanes og Hjallatanga þar sem unnið verður með þjóðminjaverndarsvæði á svæðinu, upplýsingaskilti um The Secret Life of Walter Mitty og upplýsinga- og fræðsluskilti um veðurathuganir í Stykkishólmi fyrir framan núverandi veðurathuganarstöð. Þá liggja jafnframt fyrir undir þessum lið hugmyndir að öðrum verkefnum sem hægt er að leggja áherslu á, svo sem skilti við sum gömlu húsanna og aðra staði, svo sem við örnefni og/eða fornminjar í Stykkishólmi sem og önnur söguskilti. Allt eru þetta verkefni sem hægt er jafnframt að leggja til grundvallar við styrkumsóknir bæjarins.

Safna- og menningarmálanefnd tekur minnisblaðið til umfjöllunar og er sammála um að vinna áfram að þessu verkefni, skipuleggja það og ákveða markmið þess og umfang. Samþykkt að vísa málinu til frekari vinnslu í nefndinni.

4.Búðanes og Hjallatangi - göngustígar og skilti

Málsnúmer 1904035Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri óskar eftir afstöðu safna- og menningamálananefndar hvað varðar lagningu göngustíga og skilta við Búðanes og Hjallatanga þar sem unnið verði með þjóðminjaverndarsvæði og sögu Stykkishólms í samráði við Minjastofnun Íslands. Óskað var jafnframt eftir afstöðu umhverfis- og náttúruverndarnefndar um verkefnið sem á 53. fundi sínum tók vel í hugmyndina og gerði ekki athugasemd við að gerðir yrðu göngustígar og sett skilti á umræddu svæði. Jafnframt lagði umhverfis- og náttúruverndarnefnd til við bæjarstjórn að bæjarstjóra verði falið að vinna málið áfram.

Lögð eru fyrir safna- og menningarmálanefnd gögn og upplýsingar um þjóðminjaverndarsvæði í Stykkishólmsbæ, ásamt öðrum gögnum tengdu verkefninu, þ.m.t. drög að greinargerð í þessu sambandi.
Safna- og menningarmálanefnd tekur undir með afgreiðslu umhverfis- og náttúruverndarnefndar.

5.Norska Húsið - Söfnunar og sýningarstefna fyrir árið 2020

Málsnúmer 1905061Vakta málsnúmer

Á 108. fundi safna- og menningarmálanefndar kom Hjördís Pálsdóttir, safnstjóri, til fundar við safna- og menningarmálanefnd og fór yfir faglegan rekstur Norska Hússins, byggðasafns og ársskýrslu safnsins 2018. Safna- og menningarmálanefnd óskaði eftir á sama fundi að forstöðumaður safna leggi fram greinagerð og geri grein fyrir stefnumótun safnsins, þ.m.t. söfnunar og sýningarstefnu árið 2020, og eru drög að henni lögð fram.
Hjördís Pálsdóttir, forstöðumaður Norska Hússins, kemur til fundar við nefndina og gerir grein fyrir drögum að söfnunar og sýningarstefnu árið 2020.

Safna- og menningarmálanefnd þakkar Hjördísi fyrir framlögð drög að söfnunar- og sýningarstefnu og yfirferð hennar yfir fyrirliggjandi drög. Safna- og menningarmálanefnd samþykkir að fara betur yfir safna- og sýningarstefnu 2020-2025 á næsta fundi nefndarinnar.

6.Starfsemi safna í Stykkishólmsbæ árið 2020

Málsnúmer 1909024Vakta málsnúmer

Á 108. fundi safna- og menningarmálanefndar kom Hjördís Pálsdóttir, forstöðumaður safna, til fundar við nefndina og gerði grein fyrir starfsemi Eldfjallasafns og Vatnasafns í Stykkishólmsbæ á árinu 2019 og stöðu starfseminnar fyrir haustið 2019. Á sama fundi óskaði nefndin eftir að Hjördís kæmi til funds við nefndina aftur og gerði grein fyrir stefnumótun fyrir söfnin fyrir næsta ár.
Hjördís Pálsdóttir, forstöðumaður safna, kemur til fundar við nefndina og gerir grein fyrir vinnu sinni í þessu sambandi frá síðasta fundi. Í máli Hjördísar kom fram að hún sé ekki tilbúin með fullunna stefnumótun fyrir árið 2020, en vilji fá afstöðu, tillögur og hugmyndir frá safna- og menningarmálanefnd til þess að vinna áfram með.

Safna- og menningarmálanefnd samþykkir að vísa málinu til frekari vinnslu í nefndinni, en Hjördís mun leggja drög að áherslum safnanna fyrir nefndina þegar þau liggja fyrir sem væntanlega verður fljótlega eftir áramót. Þau áherslumál sem nefnd voru varðandi starfsemi safnanna á árinu 2020 voru m.a. loftlagsmál, fyrirlestrar og aukið samstarf safnanna við skólastofnanir og vísindasamfélagið.

7.Upplýsingaskilti um Walter Mitty á hafnarsvæði

Málsnúmer 1905066Vakta málsnúmer

Fjölmargir ferðamenn gera sér ferð í Stykkishólm til þess að sjá tökustað kvikmyndarinnar The Secret Life of Walter Mitty í bænum og er þar þyrluatriði myndarinnar sérstaklega vinsælt. Ljóst að fjölmargir gestir sýna því áhuga að sjá umhverfið úr myndinni með eigin augum.

Fyrir liggur því sú hugmynd að setja upp upplýsingaskilti um kvikmyndina um The Secret Life of Walter Mitty sem tekin var upp m.a. á hafnarsvæðinu í Stykkishólmi og staðsetja það á horninu hjá grassvæði sem staðsett er hinum meginn við gamla apótekið.

Óskar bæjarstjóri eftir afstöðu safna- og menningarmálanefndar til þessarar hugmyndar.
Safna- og menningarmálanefnd tekur vel í þessa hugmynd og staðsetningu á svæðinu til móts við Gamla-Apótekið (t.d. suðvestan megin) og mælir með því að málið verði unnið áfram og jafnframt í því sambandi að huga að öðrum kvikmyndum, auglýsingum eða sjónvarpsþáttum.
Dagskrárliður 8 var tekin fyrir sem fyrsta mál á dagskrá fundarins kl. 17:15. Nanna Guðmundsdóttir, forstöðumaður Amtsbókasafnsins í Stykkishólmi, sat fundinn undir þessum lið.

8.Ljósmyndasafn Stykkishólms - Staða safnsins og framtíðarsýn

Málsnúmer 1905011Vakta málsnúmer

Á 108. fundi safna- og menningarmálanefndar var lögð fram greinargerð Sigurlínu Sigurbjörnsdóttur þar sem saga Ljósmyndasafns Stykkishólms er dregin saman, gerð grein fyrir skráningu og frágangi ljósmynda í gegnum tíðina og að lokum er samandregið yfirlit yfir stöðu safnsins í dag og fyrirliggjandi verkefni. Á fundinum var farið yfir greinagerðina og óskaði nefndin eftir því að formaður Amtsbókasafns tæki saman greinagerð um framtíð safnsins og skoði þá möguleika sem standa safninu til boða.

Fyrir safna- og menningarmálanefnd er lögð fram greinagerð forstöðumanns Amtsbókasafns um ljósmyndasafn, framtíð og möguleika.
Forstöðumaður Amtsbókasafnsins í Stykkishólmi kom til fundar við safna- og menningarmálanefnd og gerði grein fyrir greinagerð sinni og þeirri vinnu sem hún hefur innt af hendi frá síðasta fundi nefndarinnar.

Safna- og menningarmálanefnd þakkar forstöðumanni fyrir greinargerð sína og yfirferð.

Safna- og menningarmálanefnd telur rétt að óska eftir tilboðum frá Jóhanni Ísberg í samræmi við greinargerð forstöðumanns og jafnframt að kanna kostnað hjá hýsingaraðila bæjarins varðandi kostnað við hýsingu á Ljósmyndasafninu. Þá kom fram sú tillaga á fundinum, sem tekin verður til frekari umræðu á næsta fundi nefndarinnar, að leggja til við bæjarstjórn að skipa þriggja manna starfshóp um framtíð safnsins og hlutverk þess. Forstöðumaður Amtsbókasafns, forstöðumaður safna og Anna Melsteð lýstu á fundinum m.a. yfir áhuga á því að starfa í hópnum.
Nanna Guðmundsdóttir, forstöðumaður Amtsbókasafnsins í Stykkishólmi vék af fundi kl. 17:45.

9.Hafmeyjan - Varðveisla, endurgerð, staðsetning

Málsnúmer 1905063Vakta málsnúmer

Formaður safna- og menningamálanefndar gerir grein fyrir hugmyndum sem eru uppi um að setja á ný upp styttuna af Hafmeyjunni sem var hluti af gosbrunni sem áður var í Kvenfélagsgarðinum. Þá eru lagðar eru fram ljósmyndir af Hafmeyjunni, sem er nú í geymslu í stúkunni við íþróttavöll Stykkishólms.
Safna- og menningarmálanefnd tekur vel í það að málið verði unnið áfram og tekið aftur til umfjöllunar í nefndinni þegar frekari upplýsingar og gögn liggja fyrir, en leggur áherslu á að afla þurfi kostnaðarmats við lagfæringu styttunnar. Jafnframt telur nefndin að afla mætti frekari upplýsinga og gagna um fyrrum staðsetningu hennar og eignarhald, sögu verksins og hugmyndir að staðsetningu hennar í Hólmgarðinum frá Kvenfélaginu Hringnum Stykkishólmi.

10.Stýrihópur um myndun framtíðarsýnar fyrir bæjarhátíðir í Stykkishólmi

Málsnúmer 1901038Vakta málsnúmer

Lögð fram skýrsla stýrihóps um myndun framtíðarsýnar fyrir bæjarhátíðir í Stykkishólmi, en á 603. fundi bæjarráðs vísaði bæjarráð skýrslunni til umsagnar í safna- og menningarmálanefnd. Forsaga málsins er sú að bæjarstjórn skipaði í janúar 2019 stýrihóp til að móta stefnu um bæjarhátíðir í Stykkishólmi og aðkomu bæjarins að þeim. Helsta hlutverk hópsins var að kanna viðhorf bæjarbúa til slíkra hátíða, meta samfélagsleg áhrif þeirra, efnahagslegan ávinning og þá arfleifð sem þær skila samfélaginu. Auk þess að gera tillögu að framtíðarfyrirkomulagi/framtíðarstefnu slíkra hátíða, greina og móta markmið þeirra og útfæra aðkomu bæjarins að þeim.
Safna- og menningarmálanefnd frestar málinu til næsta fundar.

11.Veðurskilti í tilefni af viðurkenningu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar

Málsnúmer 1905064Vakta málsnúmer

Veðurathuganarstöðinni í Stykkishólmi var 17. maí sl. veitt viðurkenning fyrir samfellda mælisögu í yfir 100 ár, en í haust verða 174 ár síðan veðurathuganir hófust í Stykkishólmi sem gerir stöðina í Stykkishólmi elstu veðurathugnarstöðina á Íslandi. Fulltrúar frá Veðurstofu Ísland fluttu erindi í tilefni af þessum tímamótum og var viðurkenningarskjöldur Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar afhjúpaður í Norska húsinu þar sem veðurathuganir hófust hér í Stykkishólmi.

Formaður fer yfir hugmyndir að upplýsinga- og fræðsluskilti um veðurathuganir í Stykkishólmi fyrir framan núverandi veðurathuganarstöð hér í Stykkishólmi til þess að vekja athygli íbúa og gesta á þessari sögu hér í Stykkishólmi, til viðbótar því sem gert er í og við Norska húsið og á höfninni.
Safna- og menningarmálanefnd tekur vel í þessa hugmynd, mælir með því að málið verði unnið áfram og leggur til að leitað verði samstarfs við Veðurstofu Íslands.

12.Menningarstefna Stykkishólmsbæjar

Málsnúmer 1610018Vakta málsnúmer

Menningarstefna Stykkishólmsbæjar frá árinu 2016 er lögð fram, en samkvæmt Menningarstefnu Stykkishólmsbæjar skal safna- og menningarmálanefnd ár hvert endurskoða stefnuna.
Safna- og menningarmálanefnd samþykkir að taka stefnuna fyrir á næsta fundi nefndarinnar.

13.Gestakort Stykkishólmsbæjar - Lykillinn að Hólminum

Málsnúmer 1905006Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri hefur óskað eftir að fá að koma til fundar við nefndina til þess að gera grein fyrir hugmynd að Gestakorti Stykkishólmsbæjar.

Um er að ræða hugmyndir að útvíkkun á safnakorti þannig að það nái einnig til annarrar þjónustu á vegum Stykkishólmsbæjar, t.d. sundlaugar og jafnvel tjaldsvæði í samvinnu við Mostra. Gestakort gæti jafnframt boðið upp á samstarf við Eflingu Stykkishólms eða atvinnurekendur í Stykkishólmi um afslátt á kjörum.

Hugmynd þessi var kynnt á 1. fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar Stykkishólmsbæjar fyrr á þessu ári, sem tók vel í hugmyndir að gestakorti Stykkishólmsbæjar og hvatti til þess að hugmyndin verði full unnin og fari í reynslu sem fyrst.
Safna- og menningarmálanefnd tekur vel í hugmynd að gestakorti Stykkishólmsbæjar og hvetur til þess að hugmyndin verði unnin áfram, enda sé tilgangur hugmyndarinnar m.a. sá að gestir sem sækja Stykkishólm nýti sér þá þjónustu sem er í boði í Stykkishólmi í ríkara mæli.

14.Norðurljósin, menningarhátíð í Stykkishólmi (Norðurljósahátíð) árið 2020

Málsnúmer 1910024Vakta málsnúmer

Norðurljósin, menningarhátíð í Stykkishólmi, var fyrst haldin í Stykkishólmi í nóvember árið 2010 og hefur verið haldin annað hvert ár síðan, en hátíðin var sett á fót á vegum safna- og menningarmálanefndar Stykkishólmsbæjar eftir að bæjarstjórn tók ákvörðun um að fela nefndinni að stuðla að menningarhátíð í Stykkishólmi.

Norðurljósahátíðin var haldin síðast árið 2018 þar sem bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar fól safna- og menningarmálanefnd að sjá að skipuleggja hátíðina, en Þórunn Sigþórsdóttir var framkvæmdastjóri Norðurljósahátíðar árið 2018 líkt og áður. Hátíðin tókst mjög vel og var þátttaka mjög góð, þrátt fyrir að frekar skemmur tími hafi gefist til undirbúnings hátíðarinnar, en við undirbúning hátíðar sem þessar er mikilvægt að huga að undirbúningi með góðum fyrirvara svo vel takist til.

Fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar fyrir árið 2020 liggur ekki fyrir, en gera má ráð fyrir því að drög að fjárhagsáætlun vegna menningartengdra mála ásamt gjaldskrá verði til umræðu á næsta fundi safna- og menningarmálanefndar. Hins vegar, ef engin stefnubreyting verður í þessum málum af hálfu bæjarstjórnar, má reikna með að hátíðin verði haldin á næsta ári og því vert fyrir safna- og mennignarmálanefnd að huga að fyrstu skrefum sem hafa þarf í huga við undirbúning hátíðarinnar, með fyrirvara um umfjöllun bæjarstjórnar í þessum efnum, og þá að afla upplýsinga um skipulag og framkvæmd hátíðanna á liðnum árum, sér í lagi vegna ársins 2018.

Með vísan til framanritaðs leggur formaður dagskrárlið þennan fyrir safna- og menningarmálanefnd til umfjöllunar.
Safna- og menningarmálanefnd óskar eftir skýrslu um Norðurljósahátíðina árið 2018, liggi hún fyrir, og minnir bæjarstjórn á hátíðina í tengslum við fjárhagsáætlunargerð og að undanfarin ár hefur nefnd starfað í tengslum við hátíðina sem skipuð hefur verið starfsfólki safna, tónlistaskóla og Amtsbókasafns ásamt fulltrúa frá safna- og menningarmálanefnd.

Fundi slitið - kl. 20:10.

Getum við bætt efni síðunnar?