Fara í efni

Skipulagsnefnd

13. fundur 16. ágúst 2023 kl. 16:30 - 18:30 í fundarsal á 3. hæð
Nefndarmenn
  • Gunnar Ásgeirsson (GÁ) aðalmaður
  • Gretar D. Pálsson aðalmaður
  • Steindór Hjaltalín Þorsteinsson aðalmaður
  • Hilmar Hallvarðsson aðalmaður
  • Gretar Daníel Pálsson (GDP) aðalmaður
  • Kári Geir Jensson aðalmaður
  • Hilmar Hallvarðsson (HH) aðalmaður
  • Anna Ingibjörg Hallgrímsdóttir varamaður
  • Anna Hallgrímsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Kristín Þorleifsdóttir skipulagsfulltrúi
  • Sigurður Grétar Jónasson starfsmaður tæknisviðs
Fundargerð ritaði: Kristín Þorleifsdóttir skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Aðalgata 16 - beiðni um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2307005Vakta málsnúmer

Þ.B. Borg sækir um að vinna breytingu á deiliskipulagi miðbæjar frá 2003 m.s.br. frá 2017 vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar við Aðalgötu 16.



Lóðin er á deiliskipulögðu svæði. í gildi eru almennir skilmálar frá 2003 og 2017 og sérskilmálar fyrir lóðina frá 2017 en þá voru eftirfarandi breytingar gerðar: lóðarmörk færð til, lóð stækkuð um 19 m2 (úr 626 m2 í 643 m2 (skráð 641,9 m3 skv. lóðarblaði frá 2019)), stígur meðfram brekkunni færður á milli Aðalgötu 14 og 16, bílskúrsreit snúið og heimilaðar tvær íbúðir í húsinu.



Breytingin sem nú er sótt um felur í sér: a) stækkun á byggingarreit fyrir íbúðarhús úr 112 m2 í 141,1 m2, b) niðurfelling á 24 m2 byggingarreit fyrir bílskúr og c) breytingu á lóð úr einbýlishúsalóð á tveimur hæðum í parhúsalóð með aðkeyrslu að húsinu á sitthvorum enda. Heildar grunnflötur byggingarreits (húss og bílskúrs) stækkar því úr 136,0 m2 í 141,1 m2 eða um 5,1 m2. Með skipulagsbreytingunni yrði mesta mögulega stærð hvorrar íbúðar 141,1 m2 eða samtals 282,2 m2 fyrir báðar íbúðirnar. Nýtingarhlutfallið yrði 0,45 í stað 0,42 skv. gildandi skipulagi.



Skipulagsnefnd tekur fyrir sitt leyti jákvætt í að gerðar verði breytingar á gildandi deiliskipulagi frá 2017 sem feli í sér lítilsháttar stækkun á byggingarreit og niðurfellingu á byggingarreit fyrir bílskúr. Nefndin leggur til að samtímis verði einnig skoðað hvort mögulegt sé að færa lóðina nær Aðalgötu 14 og færa stíginn aftur meðfram brekkunni eins hann var upphaflega sýndur á deiliskipulagi frá 2003.

Nefndin minnir á að breytingin verði í samræmi við almenna skipulagsskilmála aðalskipulags og deiliskipulags þ.e. að nýbyggingar skuli halda við og styrkja fallega ásýnd gamla bæjarkjarnans (Plássins) með formum, hlutföllum, hrynjandi og efnisvali; að gætt verði að samræmi milli bygginga, götu, götumynda og útisvæða; og að hugað verði að mikilvægi sjónarhorna og sjónlína að og frá Plássinu.

2.Sæmundarreitur 8 - sólskáli - fyrirspurn

Málsnúmer 2306044Vakta málsnúmer

Jón Ragnar Daðason sækir um að byggja 18,2 m2 sólskála við Sæmundarreit 8 (áður Sæmundarreitur 5) í Stykkishólmi.



Húsið var reist árið 1906 og stóð áður við Laugaveg 27b í Reykjavík og nýtur friðunar vegna aldurs sbr. lög um menningarminjar nr. 80/2012. Í því felst að óheimilt er að raska húsinu, spilla því eða breyta, rífa eða flytja úr stað, nema með leyfi Minjastofnunar (flutningsleyfi veitt árið 2015). Meðfylgjandi er álit minjavarðar Vesturlands dags. 22.06.2023 þar sem hann heimilar byggingu sólskála skv. teikningum dags. 25.4.2023 og minnir á 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 varðandi viðbrögð komi fornleifar í ljós við framkvæmdir.



í gildi er deiliskipulag frá 2016 með breytingu frá 2020. Samkvæmt lið 1.5 í greinargerðinni er heimilt að byggja svalir, skyggni/skjólþök og minniháttar útbyggingar utan byggingarreita. Nýbyggingar og viðbyggingar skulu vera innan byggingarreita og/eða fótspors núverandi byggingar. Lóðin er 515 m2 með hámarksnýtingarhlutfall 0,5 eða 257,5 m2.
Þar sem sólskáli telst viðbygging, sem skv. gildandi deiliskipulagi frá 2016 m.s.br., skal vera innan byggingarreits, telur skipulagsnefnd að gera þurfi óverulega breytingu á deiliskipulagi í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Grenndarkynna skal breytingartillöguna fyrir lóðarhöfum Sæmundarreits 4, 6 og 8a í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Þingskálanes - fyrirspurn um aðkomuleið eftir Langási

Málsnúmer 2308002Vakta málsnúmer

Landeigendur Þingskálaness (L-218239) óska eftir afstöðu sveitarstjórnar varðandi breytingu á skilgreiningu á aðkomuvegi eftir Langási um Sauraskóg að Þingskálanesi úr almennum vegi í héraðsveg. Eigendur Þingskálaness benda á að breyting á skilgreiningu muni ekki eingöngu þjóna þeirra eigin hagsmunum heldur einnig öðrum jörðum/skikum sem og útivistafólki.



Með fyrirspurninni leggja landeigendur fram bréf frá Skógræktinni (Skógrækt rískisins) dags. 01.09.2021 og Skógræktarfélagi Stykkishólms dags. 10.10.2018.



Skv. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007 m.s.br. laga nr. 14/2015 eru héraðsvegir "vegir sem liggja að býlum, starfrækslu atvinnufyrirtækja, kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis, eru ákveðnir í staðfestu skipulagi og taldir upp í vegaskrá. Landeigandi skal þó kosta og vera veghaldari síðustu 50 m að framangreindum stöðum ef vegur endar þar. Jafnframt er heimilt að taka í tölu héraðsvega vegi að sumarbústaðahverfum sem tengja að minnsta kosti 30 bústaði við þjóðveg." Vegagerðin er veghaldari héraðsvega og sinna almennu viðhaldi en sveitarfélögin sinna vetrarþjónustu. Samkvæmt 3. gr. laganna er "býli" íbúðarhúsnæði þar sem föst búseta er og skráð lögheimili.
Skipulagsnefnd telur ekki mögulegt, að svo stöddu, að breyta einkavegi, sem liggur eftir Langási í Sauraskógi að Þingskálanesi, í héraðsveg. Hafi landeigendur, í samstarfi við aðra landeigendur þ.m.t. Skógræktina, í hyggju að byggja veginn upp á sinn kostnað og fá honum breytt í héraðsveg, er mögulegt að sækja um kostnaðarþátttöku til Vegagerðarinnar. Áður en mögulegt er að breyta skilgreiningu vegarins og hefja framkvæmdir, þarf að liggja fyrir samþykkt deiliskipulag sem sýnir vegstæðið og gerir ráð fyrir lögbýli á Þingskálanesi sbr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007 m.s.br. Liggi fyrir samþykkt deiliskipulag, sér sveitarfélagið því ekkert til fyrirstöðu að eigendur Þingskálaness flytji þangað lögheimili sitt.

Skipulagsnefnd leggur áherslu á mikilvægi þess að framtíðaruppbygging í landi Saura, þ.m.t. deiliskipulag fyrir Birkilund (í vinnslu), Vigraholt (í vinnslu), Þingskálaness og Hamra, verði unnin með heildarhagsmuni alls svæðisins í huga þ.m.t. náttúru- og minjavernd, útivistarsvæði og skógrækt, frístundalóðir og frístundabyggðir og jafnvel íbúðarbyggð.

4.Birkilundur 47 - fyrirspurn um deiliskipulag

Málsnúmer 2308007Vakta málsnúmer

Stefán S. Skúlason og Herdís Þórisdóttir, eigendur Birkilunds 47, íbúðarhúsalóðar í Sauraskógi, óska eftir að sveitarfélagið greiði hlut þeirra í kostnaði við gerð deiliskipulags sem nýstofnað félag lóðarhafa í Birkilundi vinnur nú að og tekur til bæði frístundahúsalóða og íbúðarlóða.



Deiliskipulagstillagan er unnin á grunni deiliskipulagstillögu frá 2006 (Landlínur) sem var árituð af þáverandi oddvita og skipulags- og byggingarfulltrúa en tók aldrei lögformlega gildi. Tillagan frá 2006 og önnur stimpluð tillaga frá 2003 (Teiknistofunni Eik), hafa í einhverjum tilvikum fylgt þinglýstum kaupsamningum og lýsa lóðarhafar því yfir að það hafi komið þeim á óvart að deiliskipulagið hafi lögformlega ekki tekið gildi.



Skv. Aðalskipulagi Helgafellssveitar 2012-2024 er Birkilundur 47 á svæði sem skilgreint er sem íbúðarbyggð (9,6 ha). Samkvæmt deiliskipulagstillögunni frá 2006 eru 13 íbúðarhúsalóðir á skipulagssvæðinu og eru 11 þeirra byggðar.
Vísað er til afgreiðslu skipulagnefndar vegna máls nr. 2209002 "Birkilundur - Nýtt deiliskipulag". Sjá lið 10.

5.Birkilundur 49 - fyrirspurn um deiliskipulag

Málsnúmer 2308014Vakta málsnúmer

Gunnar Þór Kjartansson og Kristín Pálsdóttir, eigendur Birkilunds 49, íbúðarhúsalóðar í Sauraskógi, óska eftir að sveitarfélagið greiði hlut þeirra í kostnaði við gerð deiliskipulags sem nýstofnað félag lóðarhafa í Birkilundi vinnur nú að og tekur til bæði frístundahúsalóða og íbúðarlóða.



Deiliskipulagstillagan sem nú er í vinnslu er unnin á grunni deiliskipulagstillögu frá 2006 (Landlínur) sem var árituð af þáverandi oddvita og skipulags- og byggingarfulltrúa en tók aldrei lögformlega gildi. Tillagan frá 2006 og önnur stimpluð tillaga frá 2003 (Teiknistofunni Eik), hafa í einhverjum tilvikum fylgt þinglýstum kaupsamningum og lýsa lóðarhafar því yfir að það hafi komið þeim á óvart að deiliskipulagið hafi lögformlega ekki tekið gildi.



Skv. Aðalskipulagi Helgafellssveitar 2012-2024 er Birkilundur 49 á svæði sem skilgreint er sem íbúðarbyggð (9,6 ha). Samkvæmt deiliskipulagstillögunni frá 2006 eru 13 íbúðarhúsalóðir á skipulagssvæðinu og eru 11 þeirra byggðar.
Vísað er til afgreiðslu skipulagnefndar vegna máls nr. 2209002 "Birkilundur - Nýtt deiliskipulag". Sjá lið 10.

6.Landsskipulagsstefna 2015-2026 endurskoðuð

Málsnúmer 2307009Vakta málsnúmer

Viðauki við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 var lagður fram á Alþingi vorið 2021 en náði ekki fram að ganga. Með nýrri skipan stjórnarráðsins færðust skipulagsmál undir nýtt embætti innviðaráðherra en heyrðu áður undir umhverfis- og auðlindaráðherra.



Nú hefur innviðaráðherra ákveðið að hefja vinnu við endurskoðun Landsskipulagsstefnu 2015-2026. Skipulagsstofnun vill því vekja athygli aðila á samráðsvettvangi á breytingum sem gerðar voru á skipulagslögum nr. 123/2010 með nýjum lögum um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála. Breytingarnar snerta m.a. gildistíma stefnunnar og ferlið við gerð landsskipulagsstefnu.



Í nýjum lögum er kveðið á um skipun sérstaks húsnæðis- og skipulagsráðs sem vinnur, í samstarfi við Skipulagsstofnun, tillögu að landsskipulagsstefnu ásamt aðgerðaáætlun í samræmi við áherslur ráðherra. Ráðgjafarnefnd, skipuð af ráðherra, verður húsnæðis- og skipulagsráði og Skipulagsstofnun til ráðgjafar og samráðs við gerð tillögunnar eftir sem áður.



Í lögunum er jafnframt kveðið á um að landsskipulagsstefna skuli unnin til fimmtán ára, í stað tólf ára áður. Þá er þar einnig að finna nýmæli um aðgerðaáætlun sem lögð skal fram samhliða framlagningu tillögu að landsskipulagsstefnu og hefur að geyma aðgerðir sem ráðast skal í á fyrstu fimm árum gildistíma landsskipulagsstefnu.



Stefnan verður unnin eftir sporbaug stefnumótunar hjá stjórnarráðinu, þ.e. unnið verður stöðumat sem sett er fram í svokallaðri grænbók og drög að stefnu sem sett er fram í hvítbók. Að því loknu leggur innviðaráðherra fram tillögu að þingsályktun um endurskoðaða landsskipulagsstefnu.

Gert er ráð fyrir að grænbók og hvítbók verði kynnt á samráðsgátt stjórnvalda innan tíðar.
Lagt fram til kynningar.

7.Skjöldur - umsókn um stöðuleyfi fyrir 14 smáhýsum

Málsnúmer 2308009Vakta málsnúmer

Þórarinn Sighvatsson sækir um stöðuleyfi fyrir fjórtán 25,5 m2 smáhýsum á Skildi, í nálægð við núverandi byggingar, til 12 mánaða eða frá 1. október 2023 til 1. október 2024.
Skipulagsnefnd samþykkir að veita stöðuleyfi fyrir 13 smáhýsi á landi Skjaldar. Leggur nefndin áherslu á að snyrtilega verði gengið frá þeim og þess tryggilega gætt að hætta stafi ekki af þeim. Áður en húsin verða flutt og þeim komið fyrir skal landeigandi hafa samráð við byggingarfulltrúa.

8.Skjöldur - beiðni um að vinna deiliskipulag

Málsnúmer 2308010Vakta málsnúmer

Þórarinn Sighvatsson sækir um, f.h. Trébala ehf., heimild til þess að vinna nýtt deiliskipulag á Skildi (L-136960) þar sem gert verður ráð fyrir ferðatengdri þjónustu þ.m.t. gistingu.



Samhliða deiliskipulagsvinnunni verði gerð breyting á Aðalskipulagi Helgafellssveitar 2012-2024 kalli deiliskipulagið á slíka breytingu.



Landeigandi Skjaldar stefnir á uppbyggingu ferðaþjónustu á hluta af landi sínu u.þ.b. 3 ha svæði norðan við veginn upp að Skildi. Í fyrsta áfanga uppbyggingarinnar er gert ráð fyrir 14 smáhýsum ásamt þjónustuhúsi fyrir þvottahús o.fl. Landeigandi hefur einnig áhuga að kanna vilja sveitarfélagsins fyrir ferðaþjónustutengda íbúðarbyggð á svæðinu (starfsmannaíbúðir).



Samkvæmt Aðalskipulagi Helgafellssveitar 2012-2024 er áætluð uppbygging ferðaþjónustu í kringum félagsheimilið Skjöld. Svæðið er skilgreint sem landbúnaðarland. Í dag er þar tjaldstæði og aðstaða í félagsheimilinu hentar vel í ferðaþjónustu.
Skipulagsnefnd tekur fyrir sitt leyti jákvætt í að unnið verði deiliskipulag vegna ferðaþjónustu í landi Skjaldar. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagið nái yfir stærra svæði þ.m.t. félagsheimilið, tjaldstæðið, réttina, skógræktarsvæðið og Tungu (L-2300050).

9.Fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar

Málsnúmer 2006031Vakta málsnúmer

Lögð er fram til kynningar fundargerð 29. afgreiðslufundar byggingarfulltrúa.
Lagt fram til kynningar

10.Birkilundur - Nýtt deiliskipulag

Málsnúmer 2209002Vakta málsnúmer

Lagt fram til afgreiðslu beiðni nýstofnaðs félags lóðarhafa í Birkilundi um að hefja vinnu við gerð nýs deiliskipulags í samræmi við 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulagsnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að félag lóðarhafa í íbúðar- og frístundabyggðinni Birkilundi í Sauraskógi ljúki vinnu við gerð nýs deiliskipulags á grunni deiliskipulagstillögu frá 2006. Nefndin fer fram á málsmeðferð í samræmi við 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þegar unnar eru deiliskipulagáætlanir fyrir frístundabyggð á landi í einkaeign, hvílir kostnaður við skipulagsgerðina almennt á landeigendum eða lóðarhöfum þegar það á við. Hinsvegar, þar sem nú er ljóst að sveitarfélagið lauk ekki deiliskipulagsferlinu á lögformlegan hátt á sínum tíma, telur nefndin rétt að vísa mögulegri kostnaðarþátttöku bæjarsjóðs til afgreiðslu í bæjarráði. Nefndin felur skipulagsfulltrúa að óska eftir kostnaðaráætlun vegna deiliskipulagsvinnunnar sem lögð verður fyrir bæjarráð.

Verði breytingar gerðar á deiliskipulagstillögunni umfram það sem fram kemur í tillögunni frá 2006 og raunteikningu bygginga sem fyrir eru, leggst sá umframkostnaður á félag lóðarhafa að undanskildum mögulegum afleiðingum vegna lagabreytinga og/eða breytinga í skilmálum í gildandi Aðalskipulagi Helgafellssveitar 2012-2024, sem gerðar hafa verið eftir að deiliskipulagstillagan frá 2006 var unnin.

Fundi slitið - kl. 18:30.

Getum við bætt efni síðunnar?