Fara í efni

Uppbygging Víkurhverfis - Fráveita

Málsnúmer 2301011

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar - 7. fundur - 19.01.2023

Lagt fram minnisblað Verkís um hönnun á fráveitukerfi fyrir nýtt Víkurhverfi í Stykkishólmi og þá valkosti sem fyrir liggja.
Bæjarráð samþykkir með tveimur atkvæðum Hrafnhildar Hallvarðdóttur og Steinunnar Ingibjargar Magnúsdóttur valkost 1 fyrir fráveitukerfi hverfisins.

Haukur Garðarson sat hjá við afgreiðslu málsins.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar - 9. fundur - 26.01.2023

Lagt fram minnisblað Verkís um hönnun á fráveitukerfi fyrir nýtt Víkurhverfi í Stykkishólmi og þá valkosti sem fyrir liggja.

Bæjarráð samþykkti á 7. fundi sínum valkost 1 fyrir fráveitukerfi hverfisins og er afgreiðsla bæjarráðs lögð fram til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs með fjórum atkvæðum og þrír sátu hjá.

Til máls tóku: HH,JBSJ og EF

Bókun bæjarfulltrúa Í-listans:
Undirrituð fagna því að unnið sé að kostnaðarmati á Víkurhverfi. Til að fá sem besta mynd þarf einnig að fá kostnaðarmat fyrir gatnagerð. Þegar allur kostnaður við fullnaðarfrágang á hverfinu liggur fyrir er hægt að meta kostnað við fyrsta áfanga þess og hvernig framkvæmdum verði háttað og á hve löngum tíma. Það er enn skoðun okkar að ekki sé tímabært að hefja framkvæmdir á þessu ári með tilliti til fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, vaxtastigs, verðbólgu og aðstæðna í þjóðfélaginu.

Íbúalistinn
Ragnheiður Harpa Sveinsdóttir
Kristján Hildibrandsson
Erla Friðriksdóttir

Bæjarráð - 9. fundur - 21.03.2023

Lögð fram gögn í tengslum við fyrirhugað útboð á gatnagerð í Víkurhverfi (1. áfangi).
Samþykkt að vísa þessu til næsta bæjarráðsfundar.

Bæjarráð - 10. fundur - 27.03.2023

Lögð fram útboðs- og verklýsing, ásamt öðrum gögnum, í tengslum við fyrirhugað útboð á gatnagerð og lögnum í Víkurhverfi (1. áfangi).
Bæjarráð leggur til með tveimur atkvæðum gegn einu, við bæjarstjórn að bæjarstjóra verði falið að bjóða verkið út svo fljótt sem auðið er í samræmi við fyrirliggjandi gögn.

Bæjarstjórn - 11. fundur - 30.03.2023

Lögð fram útboðs- og verklýsing, ásamt öðrum gögnum, í tengslum við fyrirhugað útboð á gatnagerð og lögnum í Víkurhverfi (1. áfangi).

Bæjarráð lagði á 10. fundi sínum til við bæjarstjórn að bæjarstjóra verði falið að bjóða verkið út svo fljótt sem auðið er í samræmi við fyrirliggjandi gögn.
Bæjarstjórn samþykkir með fjórum atkvæðum H-lista gegn þremur atkvæðum Í-lista tillögu bæjarráðs um að bæjarstjóra verði falið að bjóða verkið út svo fljótt sem auðið er í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Í

Til máls tóku:HH,ÞE,RMR og HG

Tekið var fundarhlé

Bókun.

Undirrituð efast um að tímabært sé að fara í gatnagerð í Víkurhverfi miðað við fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og þeim aðstæðum sem eru í þjóðfélaginu um þessar mundir.

Í þenslu og mikilli verðbólgu, eins og nú er, ætti að draga úr framkvæmdum og lágmarka lántökur þar til ástand batnar. Með framlögum úr jöfnunarsjóð vegna sameiningar Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar er einstakt tækifæri til að vera með viðunandi fjárfestingar og á sama tíma borga niður skuldir og þar með auka veltufé og minnka lántökuþörf í fjárfestingum í framtíðinni.

Einnig teljum við að auka ætti framboð á atvinnulóðum áður en farið er að auka framboð á íbúðalóðum. Uppbygging á atvinnulóðum tekur tíma og á meðan á uppbyggingu þeirra stendur er hægt að byggja upp íbúðalóðir.

Íbúalistinn
Haukur Garðarsson
Ragnar Ragnarsson
Heiðrún Höskuldsdóttir

Bókun.


Bókun bæjarfulltrúa H-listans:
H-listinn telur að þörf sé á fjölbreyttum lóðum og auka þurfi sérstaklega framboð á minni íbúðarkostum enda mikilvægt að til staðar séu fjölbreyttir og áhugaverðir íbúðarkostir í sveitarfélaginu.

Við teljum mikilvægt að í sveitarfélaginu sé fjölbreytt húsnæði fyrir ólíka hópa samfélagsins og er uppbygging í Víkurhverfi liður í þeim áherslum.

Með fyrirhugaðri uppbyggingu í Víkurhverfi vill H-listinn jafnframt að sveitarfélagið leggi sitt af mörkum í samræmi við undirritaðan rammasamning milli ríkis og sveitarfélaga um að auka framboð íbúða á árunum 2023-2032, en tilgangur samningsins er að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins til skemmri og lengri tíma og stuðla að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði á næstu tíu árum. Megin aðgerðir sveitarfélaga er samkvæmt samningnum að tryggja nægt lóðaframboð.

Uppbygging í Víkurhverfi er einnig liður í vinnu sveitarfélagsins sem miðar að uppbyggingu á nýju félagslegu húsnæði og samstarfi við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög um uppbyggingu innan sveitarfélagsins. Þá liggur fyrir að bæjarstjórn hefur samþykkt húsnæðisáætlun fyrir sveitarfélagið og er uppbyggingin nauðsynleg til þess að mæta þeirri þörf sem þar kemur fram. Í því sambandi er minnt er á að samkvæmt rammasamningi milli ríkis og sveitarfélaga var það grundvallarforsenda hans að sveitarfélög taki þátt og hlutist til um að útvega byggingarhæfar lóðir til samræmis við húsnæðisáætlanir.

H-listinn leggur áherslu á að Sveitarfélagið Stykkishólmur skili ekki auðu í þessu mikilvæga verkefni, sérstaklega þegar fyrir liggur að það er skortur er á framboði á byggingarhæfum lóðum í sveitarfélaginu vegna mikillar eftirspurnar síðustu ár. H-listinn telur mikilvægt að sveitarfélagið reyni að mæta þeirri þörf sem fyrst með uppbyggingu í Víkurhverfi á sama tíma og sveitarfélagið leggi sitt af mörkum við að auka framboð íbúða í samræmi við samkomlag milli ríkis og sveitarfélaga.

Bæjarfulltrúar H-listans:
Þórhildur Eyþórsdóttir
Hrafnhildur Hallvarðsddóttir
Ragnar Ingi Sigurðsson
Steinunn I. Magnúsdóttir

Bæjarráð - 12. fundur - 22.06.2023

Lögð fram auglýsing og niðurstaða útboðs vegna Víkurhverfis, ásamt öðrum gögnum.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við BB og syni og aðra aðila og leggja fram tillögu fyrir næsta bæjarstjórnarfund.

Samþykkt með tveimur atkvæðum H-lista. Ragnheiður Harpa greiddi atkvæði á móti.

Bæjarstjórn - 15. fundur - 29.06.2023

Lögð fram auglýsing og niðurstaða útboðs vegna Víkurhverfis, ásamt öðrum gögnum. Eitt tilboð barst frá BB og sonum um 30% hærra en kostnaðaráætlun. Bæjarráð fól bæjarstjóra, á 12. fundi sínum, að ræða við BB og syni og aðra verkkaupa og leggja fram tillögu um afgreiðslu málsins fyrir næsta bæjarstjórnarfund. Jafnframt lagt fram minnisblað Verkís, dags. 27. júní 2023.

Tillaga bæjarstjóra:
Fyrir bæjarstjórn er lagt fram minnisblað Verkís, dags. 27. júní 2023, þar sem fjallað er um endurskoðað tilboð BB og sona eftir yfirferð fyrra tilboðs. Endurskoðað tilboð er eftir breytingar 15,7% yfir kostnaðaráætlun. Eins og fram kemur í minnisblaðinu var farið var yfir stöðuna á fundi með öðrum verkkaupum þar sem að staðan var rædd og í ljósi aðstæðna á markaði og lækkunar tilboðs var niðurstaða að allra að ekki væri líklegt að fá hagstæðara tilboð og að ráðlegt væri að semja við bjóðanda á grundvelli hins lækkaða tilboðs. Á grunni fyrirliggjandi minnisblaðs og í ljósi þess að aðrir verkkaupar hafi þegar samþykkt að ganga að tilboðinu leggur bæjarstjóri til við bæjarstjórn að hún samþykki að ganga til samninga við bjóðanda og að bæjarráði verði veitt fullnaðarumboð til að ganga frá endanlegum samningi við bjóðanda á grundvelli hins nýja tilboðs og jafnframt að skoða möguleika þess að fella út einstaka verkþætti.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu bæjarstjóra með fjórum greiddum atkvæðum bæjarfulltrúa H-listans (Hrafnhildur, Steinunn Ingibjörg, Ragnar Ingi og Guðmundur Kolbeinn). Bæjarfulltrúar Í-lista (Ragnheiður Harpa, Erla og Kristján) greiða atkvæði á móti.


Bókun bæjarfulltrúa Í-listans:
Undirrituð telja ekki forsvaranlegt að fara í þessar framkvæmdir miðað við fjárhagstöðu bæjarins. Þá er gatnagerð í Víkurhverfi ekki skynsamleg framkvæmd að teknu tilliti til núverandi vaxta- og verðbólgustigs. Ennfremur hefur ríkisstjórinin og seðalbankastjóri ítrekað beðið um að dregið verði úr umsvifum til að takast á við hátt verðbólgustig.

Varðandi lóðir fyrir íbúafélagið Brák benda undirrituð á að skynsamlegt er að skoðaðir verði möguleikar á hagkvæmari lóðum fyrir Brák en lóðir í Víkurhverfi og jafnframt lóðir sem stuðla að þéttingu byggða. Þar má nefna lóðir sem lausar eru til úthlutunar við Laufásveg, Aðalgötu og mögulega fleiri lóðir í sveitarfélaginu. Gera þarf breytingar á deiliskipulagi í Víkurhverfi til að hægt verði að byggja íbúðirnar á því svæði. Mögulega þarf einnig að gera breytingar á deiliskipulagi til að byggja íbúðirnar á öðrum lóðum. Einnig má benda á að þetta eru tveggja hæða hús og forsendur skipulags í þessum hluta hverfisins voru hús á einni hæð.

Íbúalistinn,
Ragnheiður Harpa Sveinsdóttir
Kristján Hildibrandsson
Erla Friðriksdóttir


Bókun bæjarfulltrúa H-listans:
Fulltrúar H-listans fagna fyrirliggjandi og aðkallandi uppbyggingu í Víkurhverfinu. Við teljum, eins og áður hefur komið fram að brýn þörf sé á að auka lóðarframboð í sveitarfélaginu með uppbyggingu í Víkurhverfinu enda lóðarframboð mjög takmarkað sem stendur. Þá er nú ljóst að stefnt er að uppbyggingu 12 íbúða af Brák íbúðarfélagi, í samstarfi við sveitarfélag og ríki, en þau áform lágu m.a. til grundvallar þeirri ákvörðun H-listans síðasta haust, við vinnu fjárhagsáætlunar, að hefja uppbyggingu í Víkurhverfi.

Það er ánægjulegt að sjá stefnumörkun okkar frá haustinu 2021 raungerast í þessum uppbyggingaráformum sem nú eru að fara af stað, en unnið hefur verið markvisst á grunni þeirrar stefnumörkunar frá þeim tíma sem nú er að bera ávöxt.

Fulltrúar H-listans hafa ítrekað bent á að þeir vilji sækja fram af ábyrgð, fara í vel valdar fjárfestingar sem skapa svigrúm til eflingar samfélagsins á svæðinu og teljum við þessa uppbyggingu vera lið í því. Við teljum mikilvægt að ganga áfram á sömu braut til að tryggja að í Stykkishólmi og Helgafellssveit þróist enn öflugra og heilbrigðara samfélag, öllum til heilla.

Bæjarfulltrúar H-listans,
Ragnar Ingi Sigurðsson
Hrafnhildur Hallvarðsdóttir
Steinunn Ingibjörg Magnúsdóttir
Guðmundur Kolbeinn Björnsson

Bæjarráð - 13. fundur - 21.08.2023

Lögð fram drög að verksamningi vegna uppbyggingar Víkurhverfis.
Bæjarráð samþykkir með tveimur atkvæðum gegn einu drög að verksamningi og felur bæjararstjóra að ganga frá endanlegum samningi og undirrita hann fyrir hönd sveitarfélagsins.
Getum við bætt efni síðunnar?