Fréttir
Pistill bæjarstjóra vegna COVID-19 - 23. mars 2020
Kæru Hólmarar og nærsveitungar. Hertar takmarkanir á samkomum taka gildi á miðnætti, mörkin eru nú sett við 20 manns. Þessar hertu reglur koma til með að hafa áhrif á okkur Hólmara eins og aðra íslendinga og ber þá helst að nefna að íþróttamiðstöð, sundlaug og söfnum bæjarins lokar, þar að auki hættir heilsuefling eldri borgara tímabundið. Skólastarf er undanskilið þessum aðgerðum en þó má gera ráð fyrir frekari tíðindum hvað það varðar á næstu dögum.
Til að byrja með vil ég skila þakklæti til starfsmanna Stykkishólmsbæjar sem unnið hafa þrekvirki við að endurskoða og finna nýjar útfærslur á öllu okkar starfi í kjölfar neyðarástandsins sem nú ríkir, einnig vil ég þakka íbúum bæjarins og foreldrum leik- og grunnskólabarna sem tekið hafa aðstæðum af miklu æðruleysi. Okkar samheldna samfélag hefur unnið sem eitt í aðgerðum sínum við að hefta útbreiðslu veirunnar, við höfum aðlagað okkur að nýjum aðstæðum með bros á vör og sýnt hvert öðru skilning, samhug og stuðning. Við megum öll vera stolt af því að vera Hólmarar í dag.
23.03.2020