Fara í efni

Hafnarstjórn (SH)

9. fundur 04. desember 2025 kl. 20:15 - 22:21 í fundarsal á 3. hæð
Nefndarmenn
  • Sigurður Páll Jónsson formaður
  • Unnur María Rafnsdóttir aðalmaður
  • Guðmundur Kolbeinn Björnsson varamaður
  • Arnar Geir Diego Ævarsson varamaður
  • Haukur Garðarsson
Starfsmenn
  • Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Siguður Páll Jónsson formaður
Dagskrá

1.Fundargerðir stjórnar Hafnarsambands Íslands

Málsnúmer 2003028Vakta málsnúmer

Lagðar fram nýjustu fundargerðir stjórnar Hafnasambands Íslands.
Lagt fram til kynningar.

2.Viti í Víkurhverfi

Málsnúmer 2401036Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga Gunnlaugs Lárussonar um endurbyggingu vita sem stóð ofan við Daddavík til þess að varðveita sögu hans og fólksins sem annaðist hann.
Hafnarstjórn þakkar fyrir áhugavert erindi og tekur undir með safna- og menningarmálanefnd að mikilvægt sé að varðveita sögu vitanna og þeirra sem sinntu þeim.

3.Fyrirhugaðar framkvæmdir og staða verkefna

Málsnúmer 2404025Vakta málsnúmer

Almenn yfirferð yfir framkvæmdir á hafnarsvæði og stöðu verkefna.
Hafnarvörður gerir grein fyrir viðhaldsframkvæmdum.

4.Sjávarútvegsstefna og skelbætur

Málsnúmer 2312008Vakta málsnúmer

Á 6. fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar ítrekaði nefndin fyrri afstöðu sína og bæjarstjórnar um að skelbætur séu ein af grunnstoðum atvinnulífs og byggðafestu í Stykkishólmi og verði áfram veittar fyrirtækjum við Breiðafjörð og að handhafar skelbóta fái í stað bótanna varanlegan nýtingarrétt í aflahlutdeild sem verði án framsalsréttar og krafa um veiðar og vinnslu bundin við þá staði við Breiðafjörð þar sem veiðarnar fóru fram á sínum tíma. Nefndin hafnaði alfarið öllum áformum um að skelbætur verði skertar eða lagðar niður, enda væri slíkt verulega skaðlegt fyrir atvinnulíf sveitarfélagsins, tekjur þess og samfélagið í heild.



Nefndin lýsti alvarlegum áhyggjum af því að reglugerð um skelbætur hefur enn ekki verið gefin út og telur óásættanlegt að málið hafi dregist svo lengi. Þá benti nefndin á að ráðherra hefur ekki átt samráð við sveitarfélagið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, þótt um sé að ræða eitt mikilvægasta byggðamál sem snertir sveitarfélagið, þar sem tugir starfa eru í húfi.



Nefndin áréttaði að þingmenn kjördæmisins, og sérstaklega ráðherra sem jafnframt er þingmaður Norðvesturkjördæmis, verði að standa vörð um hagsmuni samfélagsins í Stykkishólmi og láta sig málið varða. Ef ætlunin er, eins og framganga ríkisins gefur sterklega til kynna, að fella skelbæturnar niður, verður ráðherra að horfast í augu við alvarleika þeirrar ákvörðunar. Það er óhugsandi og í raun algjörlega óásættanlegt að slík aðgerð yrði framkvæmd á ráðherravakt þingmanns kjördæmisins.



Nefndin skoraði á innviðaráðherra, sem fer með málaflokkinn, og þingmenn kjördæmisins að bregðast tafarlaust við, tryggja útgáfu reglugerðar án frekari tafa og vinna að farsælli og sanngjarnri niðurstöðu sem tryggir að skelbætur haldist áfram í Stykkishólmi og rekstraröryggi fyrirtækja og samfélags verði ekki stefnt í hættu.



Bæjarstjórn tók á 42. fundi sínum undir með atvinnu- og nýsköpunarnefnd.



Lögð er nú fram ný reglugerð sem gefin var út 28. nóvember sl. ásamt tengdum gögnum.
Hafnarstjórn lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri miklu skerðingu skelbóta sem birtist í nýútgefinni reglugerð. Slík skerðing mun óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á landanir, umsvif og tekjur hafnarinnar og þar með á rekstur og þjónustu hafnarinnar til skemmri og lengri tíma. Hafnarstjórn áréttar mikilvægi skelbóta þannig að tryggja megi stöðugt rekstrarumhverfi fyrir útgerðir og vinnslu í Stykkishólmi og hvetur innviðaráðherra til að endurskoða reglugerðina með hagsmuni atvinnulífs, þ.m.t. starfsfólk, og hafnarinnar í Stykkishólmi að leiðarljósi í samræmi við ítrekaðar álytanir sveitarfélagsins.

5.Innviðagjald á skemmtiferðaskip

Málsnúmer 2411027Vakta málsnúmer

Undir lok síðasta árs voru samþykktar lagabreytingar á Alþingi sem gerir m.a. ráð fyrir að leggja 2.500 króna innviðagjald á hvern farþega skemmtiferðaskipa fyrir hvern sólarhring sem siglt er við Íslands strendur. Ljóst er að álagt innviðagjald hefur þegar leitt af sér færri komur skemmtiferðaskipa til landsins og þá sérstaklega minni skipanna, sem hafa sótt heim minni byggðir á borð við Stykkishólm. Komur skemmtiferðaskipa til Stykkishólms hafa hríðlækkar í kjölfar lagabreytingarinnar sem hefur sett sjálfbærni Stykkishólmshafnar í hættu sem er alvarleg staða fyrir atvinnulíf í Stykkishólmi.



Atvinnu- og nýsköpunarnefnd lagðist, á 4. fundi sínum, gegn þeim álögum sem boðuð eru í frumvarpinu, enda fyrirvarinn of skammur fyrir slíka gjaldtöku. Nefndin taldi að ef umrædd gjöld yrðu að veruleika væru verulegar líkur á stoðunum verði kippt undan lífæð Stykkishólmshafnar með tilheyrandi þjónustuskerðingu. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd taldi nauðsynlegt að slík gjöld skili sér til nærsamfélaganna, þ.e. sveitarfélaganna.



Atvinnu- og nýsköpunarnefnd tók málið til umræðu, á 6. fundi sínum, í ljósi nýrra gagna. Ljóst er að neikvæð áhrif innviðagjaldsins eru staðfest og umtalsverð. Nefndin kallaði eftir því að þingmenn axli pólitíska ábyrgð á málinu, bæði þeir sem stóðu að samþykkt gjaldsins og þeir sem hingað til hafa ekki náð fram nauðsynlegum breytingum á Alþingi. Ábyrgðin er mikil í ljósi þeirra alvarlegu áhrifa sem gjaldið hefur nú þegar haft á atvinnulíf í Stykkishólmi, líkt og nefndin varaði við á síðasta ári.



Atvinnu- og nýsköpunarnefnd staðfesti að öðru leyti fyrri afstöðu sína og afstöðu sveitarfélagsins um að innviðagjaldið hafi verulega neikvæð áhrif á komur skemmtiferðaskipa og þar með á sjálfbærni hafnarinnar og atvinnulíf í sveitarfélaginu. Nefndin krefst þess að gjaldið verði endurskoðað án tafar.



Nefndin taldi jafnframt að verði slík gjaldtaka áfram viðhöfð þá eigi hún að renna til viðkomandi sveitarfélaga en ekki ríkisins. Það eru íbúar og innviðir þeirra svæða sem skipin koma til sem bera hitann og þungann af umferð skemmtiferðaskipa og því er réttlátt að tekjur fylgi þeim skyldum og þeirri ábyrgð.
Hafnarstjórn Stykkishólms lýsir yfir þungum áhyggjum af áhrifum innviðagjalds á komur skemmtiferðaskipa til landsins og tekur undir að gjaldið hafi haft verulega neikvæð áhrif á starfsemi og sjálfbærni Stykkishólmshafnar, líkt og fækkun á komum skemmtiferðaskipa til Stykkshólms ber með sér.

Hafnarstjórn ítrekar fyrri áhyggjur sínar og áréttar að gjaldið hafi nú þegar haft neikvæð áhrif í för með sér sem hefur haft bein neikvæð áhrif á rekstur hafnarinnar og atvinnulíf í sveitarfélaginu.

Hafnarstjórn tekur að öðru leyti undir ályktun atvinnu- og nýsköpunarnefndar.

6.Gjaldtaka bílastæða á hafnarsvæði

Málsnúmer 1909018Vakta málsnúmer

Lögð er fram tillaga um heimild fyrir rekstraraðila á hafnarsvæðinu til að veita viðskiptavinum sínum gjaldfrjáls bílastæði á P1 út árið 2025 í gegnum útfærslu Parka ehf. Meginmarkmiðið er að styðja ferðaþjónustu á hafnarsvæðinu, efla þjónustu og bæta aðgengi gestum og viðskiptavinum.



Bæjarráð samþykkti, á 35. fundi sínum, að styðja við ferðaþjónustu á hafnarsvæðinu með því að veita ferðaþjónustuaðilum í veitingarekstri og hafsækinni upplifunarþjónustu heimild til þess að veita viðskiptavinum sínum gjaldfrjáls bílastæði á P1 út árið 2025 með útfærslu sem er í boði í gegnum Parka Lausnir ehf.



Bæjarráð vísaði að öðru leyti áframhaldandi gjaldtöku og fyrirkomulagi hennar til umfjöllunar hjá atvinnu- og nýsköpunarnefnd. Í framhaldi af þeim fundi verði haldinn sameiginlegum fundur fulltrúa sveitarfélagsins með ferðaþjónustuaðilum, FAS og öðrum hagsmunaraðilum varðandi útfærslu á gjaldtöku.



Atvinnu- og nýsköpunarnefnd tók, á 6. fundi sínum, framlagða tillögu til umræðu. Nefndin tók undir að gjaldtakan á hafnarsvæðinu sé mikilvægur þáttur í uppbyggingu og viðhaldi þeirra innviða sem þjónusta ferðamenn. Nefndin samþykkir fyrirliggjandi tillögu um að styðja við heimild rekstraraðila til að veita viðskiptavinum sínum gjaldfrjáls bílastæði, enda sé slíkt úrræði skynsamleg leið til að styðja við ferðaþjónustu á hafnarsvæðinu í ljósi gjaldtökunnar.



Atvinnu- og nýsköpunarnefnd tók jafnframt undir að nauðsynlegt sé að boða til sameiginlegs fundar með ferðaþjónustuaðilum, FAS og öðrum hagsmunaaðilum til að móta framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku á hafnarsvæðinu.
Hafnarstjórn tekur undir bókun atvinnu- og nýsköpunarnefndar.

7.Hreinsun og fegrun umhverfis í Skipavík

Málsnúmer 2005059Vakta málsnúmer

Sveitarfélagið Stykkishólmur leggur ríka áherslu á að bæjarumhverfi sé snyrtilegt, öruggt og vel við haldið. Slíkt umhverfi styrkir ímynd og aðdráttarafl bæjarins, stuðlar að jákvæðri upplifun íbúa og gesta og endurspeglar virðingu fyrir náttúru og samfélagi. Regluleg umhirða og ábyrg umgengni við opin svæði eru jafnframt lykilþættir í markmiðum sveitarfélagsins í þessum efnum.



Hafnarstjórn hefur á undanförnum árum lagt ríka áherslu á að ráðist verði í átak til fegrunar og snyrtingar á hafnarsvæðinu við Skipavíkurhöfn, einkum með tilliti til báta og vagna sem hafa staðið óhreyfðir um lengri tíma og jafnvel legið undir skemmdum.



Á 53. fundi umhverfis- og náttúruverndarnefndar var fjallað um sama málefni. Nefndin taldi skynsamlegt að hvetja fyrirtæki og einstaklinga til ábyrgðar og góðrar umhirðu í sínu nærumhverfi, auk þess sem bent var á heimildir heilbrigðisnefndar til að hlutast til um fjarlægingu lausafjármuna, þar á meðal númeralausra bifreiða og bílflaka.



Í framhaldi af þessu samþykkti hafnarstjórn á 5. fundi sínum að leita formlegs samstarfs við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands um hreinsun hafnarsvæðisins við Skipavík, í samræmi við framangreindar tillögur, og að unnið verði að því að fjarlægja báta, tæki og önnur farartæki sem ekki eru í notkun.



Sveitarfélagið hefur unnið í samræmi við þessar áherslur síðustu ár, en ljóst er að þörf er á frekari eftirfylgni og aðgerðum til að ná fram markvissum og varanlegum árangri. Sveitarfélagið vill ganga á undan með góðu fordæmi og tryggja að hafnarsvæðið, sem og önnur svæði í eigu þess, séu snyrtileg, örugg og vel við haldið. Snyrtilegt og vel skipulagt umhverfi stuðlar að jákvæðri ásýnd bæjarins, bætir öryggi og hvetur íbúa, fyrirtæki og gesti til að sýna sama metnað í umgengni og umhverfisvernd.



Á 37. fundi bæjarráðs var lögð tillaga um að bæjarráð veitti starfsmönnum sveitarfélagsins auknar heimildir til ákvarðanatöku um fjarlægingu lausafjármuna af svæðum í eigu eða umsjón sveitarfélagsins. Bæjarráð samþykkti á fundinum að veita starfsmönnum sveitarfélagsins, sem starfa á eignasjóði, þjónustumiðstöð og hafnarsjóði, auknar heimildir til ákvarðanatöku um að fjarlægja lausafjármuni og annað óæskulegt af opnum svæðum og svæðum í eigu eða umsjón sveitarfélagsins, í því skyni að tryggja heilnæmt, snyrtilegt og öruggt umhverfi í sveitarfélaginu.



Í kjölfar fyrri afgreiðslna hafnarstjórnar, bæjarráðs og bæjarstjórnar hefur sveitarfélagið á síðustu mánuðum, undir forystu hafnarvarðar, ráðist í umfangsmikla tiltekt á svæðinu. Með þessum aðgerðum hefur ásýnd og öryggi svæðisins stórbatnað og er verkefnið í samræmi við áherslur sveitarfélagsins um snyrtilegt bæjarumhverfi.



Hafnarstjóri og hafnarvörður gera grein fyrir stöðu máls.
Hafnarstjórn fagnar þeim sýnilega árangri sem náðst hefur í tiltekt og fegrun hafnarsvæðisins við Skipavíkurhöfn á undanförnum mánuðum. Hafnarstjórn leggur áherslu á áfram verði haldið á þessari braut og þannig tryggt að hafnarsvæðið haldist áfram snyrtilegt.

Hafnarstjórn hvetur til þess að leitað verði samstarfs milli sveitarfélagsins, Íslenska gámafélagsins og lóðarhafa um tiltekt á atvinnulóðum á svæðinu.

8.Gjaldskrár 2026

Málsnúmer 2510019Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að gjaldskrám sveitarfélagsins fyrir árið 2026. Bæjarráð samþykki gjaldskrár, á 37. fundi sínum, og vísaði þeim til fyrri umræðu í bæjarstjórn.



Á 41 fundi sínum samþykkti bæjarstjórn gjaldskrár fyrir Sveitarfélagið Stykkishólm fyrir árið 2026 og vísaði þeim til frekari umfjöllunar í bæjarráði, umsagnar í fastanefndum og til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Hafnarstjórn samþykkir að bæta við gjaldflokk í bryggjugjaldi þar sem gjald verði tekið 5 kr. pt. BT af öllum skipum á ankeri sem nota flotbryggjur. Hafnarstjórn samþykkir janframt að breyta gjaldtöku á rafmagnsölu þannig að það sé selt með 15% álagi skv. taxta raf- og dreifiveitna. Þá samþykkir hafnarstjórn að hækka rafmagnstengigjald í kr. 6.000.

Hafnarstjórn samþykkir gjaldskrá Stykkishólmshafnar, með áorðnum breytingum, og leggur til við bæjarstjórn að samþykkja hana.

Hafnarstjórn gerir ekki athugasemd að öðru leyti við fyrirliggjandi gjaldskrár.

9.Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Stykkishólms 2026-2029

Málsnúmer 2510020Vakta málsnúmer

Fjárhagsáætlun 2026-2029 lögð fram. Bæjarráð samþykkti fjárhagsáætlun 2026-2029, á 37. fundi sínum, og vísaði henni til fyrri umræðu í bæjarstjórn.



Á 41. fundi sínum samþykkti bæjarstjórn fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Stykkishólms fyrir árin 2026-2029 og vísaði henni til frekari umfjöllunar í bæjarráði, umsagnar í fastanefndum og til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Hafnarstjórn vekur athygli á þeirri neikvæðu þróun sem orðið hefur í umhverfi og rekstri hafnarinnar á síðustu árum. Sú þróun hefur leitt til skerðingar á þjónustu í kringum höfnina og dregið úr fjölbreytni í atvinnustarfsemi í tengslum við höfnina, sem setur sjálfbærni rekstrar hafnarinnar í hættu. Hafnarstjórn telur brýnt að sporna gegn þessari þróun og sækja fram á grunni svæðisbundinna styrkleika svæðisins. Þau liggja ekki síst í heita vatninu og í hafnsækinni atvinnustarfsemi, hvort sem það sé þangvinnsla, fiskveiðar eða hafsækin ferðaþjónusta.

Varðandi framkvæmdaverkefni sveitarfélagsins hvetur hafnarstjórn til þess að skoðaður verði möguleiki á því að því að settur verði gulur skeljasandur í víkinni milli Hundagjá og Skammvíkur við Búðarnes (fyrir neðan friðuðu menningarminjarnar).

Hafnarstjórn gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi fjárhagsáætlun.

Fundi slitið - kl. 22:21.

Getum við bætt efni síðunnar?