Fara í efni

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar

3. fundur 25. ágúst 2022 kl. 17:00 í bæjarstjórnarsal
Nefndarmenn
  • Steinunn Ingibjörg Magnúsdóttir aðalmaður
  • Þórhildur Eyþórsdóttir aðalmaður
  • Ragnar Ingi Sigurðsson aðalmaður
  • Ragnheiður Harpa Sveinsdóttir aðalmaður
  • Haukur Garðarsson (HG) aðalmaður
  • Hrafnhildur Hallvarðsdóttir forseti
  • Heiðrún Höskuldsdóttir (HHÖ) varamaður
Starfsmenn
  • Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri
  • Jón Sindri Emilsson embættismaður
Fundargerð ritaði: Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson bæjarstjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Borin var upp tilaga um að eftirfarandi mál verði tekið inn á dagskrá fundarins með afbrigðum:

- 2205039 - Kjör nefnda í samræmi við samþykktir sameinaðs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar

Samþykkt samhljóða.

Er ofangreint mál sett inn sem mál nr. 9 á dagskrá fundarins.

1.Bæjarráð Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar - 2

Málsnúmer 2208003FVakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 2. fundar bæjarráðs Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar.
Fundargerð lögð fram til kynningar.


Bókun bæjarfulltrúa Í-lista:
1. Fundargerð 2. fundar bæjarráðs Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar
Í 33. gr. Samþykktar um stjórn Stykkishólmsbæjar um Heimild bæjarráðs til fullnaðarákvörðunar segir meðal annars:
Bæjarstjórn getur falið bæjarráði fullnaðarafgreiðslu mála, þegar bæjarstjórn er í sumarleyfi, sem ekki varða verulega fjárhag bæjarsjóðs eða stofnana hans, enda sé ekki ágreiningur milli eða við bæjarstjóra um slíka afgreiðslu.
Á 2. fundi Bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar 30.06.2022 var þessi heimild virkjuð og tekið fram að næsti Bæjarstjórnarfundur yrði fimmtudaginn 25. ágúst. Fyrir viku var haldinn bæjarráðsfundur eins og venja er viku fyrir bæjarstjórnarfundi og voru 31 mál á dagskrá. Það er ljóst á núverandi dagskrá fundar bæjarstjórnar að afgreiðsla bæjarráðs er metin sem fullnaðarafgreiðsla á þessum málum. Það kemur á óvart að þetta sé afgreitt á þennan hátt enda engin brýn þörf á fullnaðarafgreiðslu svona stuttu fyrir bæjarstjórnarfund.
Í 9. gr. Samþykktar um stjórn Stykkishólmsbæjar um Boðun bæjarstjórnarfunda er tekið fram að „Fundarboði skal fylgja dagskrá fundar og þau gögn sem eru nauðsynleg til að bæjarstjórnarmenn geti tekið upp[l]ýs[t]a afstöðu til mála sem þar eru tilgreind.“.
Við undirbúning fyrir þennan fund vildu bæjarfulltrúar kynna sér fullnaðarafgreiðslur bæjarráðs sem eðlilegt er, þá kom í ljós að aðeins þeir bæjarfulltrúar sem sitja í bæjarráði hafa beinan aðgang að öllum gögnum í fundargátt en aðrir bæjarfulltrúar verða að sætta sig við fundargerð á vef bæjarins. Þetta er með öllu óásættanlegt og verður að tryggja að allir bæjarfulltrúar hafi aðgang í fundargátt að öllum fundum nefnda og ráða sem og öllum gögnum sem þeim fylgja svo þeir hafi möguleika á að kynna sér mál til hlítar hvort sem þau eru til afgreiðslu eða kynningar.
Tekið skal fram að bæjarfulltrúi benti á þessa ágalla og óskaði eftir að fundi yrði frestað og tryggt yrði að öll gögn yrðu aðgengileg öllum bæjarfulltrúm en bæjarstjóri hafnaði því.

7. Bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga ? 2208002
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi bréf í júní um að rekstur Stykkishólmsbæjar árið 2021 hafi ekki staðist viðmið nefndarinnar.
Þar var tekið fram að „Sveitarstjórnum er heimilt að víkja frá skilyrðum um jafnvægisreglu og skuldareglu út árið 2025 vill EFS benda sveitarstjórn á að árið 2026 þarf að uppfylla framangreind skilyrði.“
Af þeim tveimur megin viðmiðum sem áhersla er lögð á stenst ársreikningurinn skuldaviðmið undir 150% en ekki jafnvægisreglu (rekstarniðurstaða síðustu 3ja ári skuli vera jákvæð). Nefndin leggur fram níu viðmið og af þeim stenst ársreikningurinn ekki fimm, þ.e. Framlegð sem hlutfall af tekjum, Veltufé frá rekstri á móti afborgunum lána og skuldbindinga, Ný lántaka/ fjárfesting sem hlutfall af skuldum, veltufjárhlutfall og jafnvægisregluna.
Ljóst er að við munum ekki heldur standast viðmið nefndarinnar á þessu rekstrarári. Stóra myndin er að sjálfsögðu sú að halda þarf vel á málum á næstu árum þannig að við stöndumst viðmið eftirlitsnefndar í lok kjörtímabils þegar ofangreind undanþága rennur út.

6 mánaða bráðabirgðauppgjör Stykkishólmsbæjar ? 2208015
Skv. bráðabirgðauppgjöri er rekstrarniðurstaða A og B hluta fyrstu 6 mánuðina neikvæð um 109,5 milljónir en áætlun gerði ráð fyrir 44,5 milljónum í hagnað og rekstrarniðurstaða því 154 milljónum slakari en áætlun gerði ráð fyrir sem skýrist af hækkun fjármagnsgjalda upp á 65,5 milljónir upp í ríflega 129 milljónir, lægri tekjur upp á 46,5 milljónir, þarf af lægri „Aðrar tekjur“ upp á tæpar 52 milljónir, og hærri rekstrargjöld upp á tæpar 42 milljónir. Handbært fé í júnílok er 99,5 milljónir en ekki kemur fram hvernig staða er á skammtíma yfirdrætti.
Ljóst er að staða reksturs er erfið og draga þarf verulega úr fjárfestingum á árinu enda var framkvæmdaáætlun sem lögð var fram á síðasta ári er ansi metnaðarfull og ein af helstu ástæðum þess að minnihluti samþykkti ekki fjárhagsáætlun ásamt því að veltufé frá rekstri dugar ekki fyrir afborgunum lána.

Íbúalistinn
Haukur Garðarsson
Ragnheiður Harpa Sveinsdóttir
Heiðrún Höskuldsdóttir


Bókun bæjarstjóra vegna bókunar bæjarfulltrúa Í-lista:
Bæjarstjóri bendir á að bæjarstjóri hafnaði ekki frestun á fundi bæjarstjórnar heldur benti bæjarstjóri í svarbréfi sínu til bæjarfulltrúa Í-listans að hann gæti ekki séð að fyrir hendi væru forsendur til þess að fallast mætti á frestun á einstaka dagskráliðum og hvað þá að fundinum í heild sinni yrði frestað. Þá voru veittar leiðbeiningar um fundarsköp bæjarstjórnar um heimild til að leggja fram á bæjarstjórnarfundi tillögu um frestun einstakra dagskrárliða. Vill bæjarstjóri benda á að það að fundargerð bæjarráðs sé lögð fram til kynningar með þeim dagskrárliðum sem þar voru til umfjöllunar er ekki loku fyrir það skotið bæjarfulltrúar geti kynnt sér betur einstaka mál síðar, óskað eftir upplýsingum og eftir atvikum óskað eftir að málið verði tekið fyrir á fundum síðar. Að öðru leyti vísar bæjarstjóri til svarbréfs sem vitnað var til og mun vera sett sem fylgiskjal við dagskrárlið þennan til nánari skýringa og upplýsinga.

Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson,
bæjarstjóri

2.Skipulagsnefnd - 2

Málsnúmer 2208001FVakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 2. fundar skipulagsnefndar.
Fundargerð lögð fram til kynningar.

3.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 2

Málsnúmer 2208002FVakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 2. afgreiðslufundar byggingarfulltrúa.
Fundargerð lögð fram til kynningar.

4.Atvinnu- og nýsköpunarnefnd (SH) - 1

Málsnúmer 2208005FVakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 1. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar. Dagskrárliðir 3,6,8 og 10 bíða umfjöllunar bæjarráðs en dagskrárliðir 4,5 og 7 eru á dagskrá þessa fundar.
Fundargerð lögð fram til kynningar.

5.Samþykkt um stjórn Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar

Málsnúmer 2208025Vakta málsnúmer

Lögð fram samþykkt um stjórn sameinaðs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar. Bæjarráð samþykkti á 2. fundi sínum fyrirliggjandi samþykkt og vísaði til síðari umræðu í bæjarstjórn
Bæjarstjórn samþykkir nýja samþykkt um stjórn sameinaðs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar.

6.Breiðafjarðarferjan Baldur

Málsnúmer 2011013Vakta málsnúmer

Lagðar fram fyrri ályktanir vegna Breiðafjarðarferjunnar Baldurs.

Á öðrum fundi bæjarráðs Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar lagði bæjarráð þunga áherslu á að annað skip hefji siglingar yfir Breiðafjörð fyrir næsta vetur, en að öðrum kosti að tryggður verði viðeigandi viðbúnaður í Stykkishólmi til þess að tryggja megi betur öryggi sjófarenda, t.d. dráttarbát staðsettan í Stykkishólmi. Þá lagði bæjarráð þunga áherslu á að tryggja þyrfti viðeigandi fjárheimildir í fjármálaáætlun 2022-2026 líkt og bent var á í fyrri ályktun sveitafélagsins og að fyrirliggjandi áætlanir endurspeglist í fimm ára samgönguáætlun. Bæjarráð vísaði að öðru leyti til fyrri bókuna bæjarráðs og bæjarstjórnar sameiginlegs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar vegna málsins í júní.

Bæjarráð óskaði jafnframt eftir skriflegum upplýsingum frá Vegagerðinni og Innviðaráðuneytinu um framgang málsins síðastliðna 12 mánuði, hver staða málsins væri nú, þ.m.t. með tilliti til viðeigandi fjárheimilda, og hver sé stefnan til lengri og skemmri tíma hvað varðar ferjusiglingar um Breiðafjörð.

Á 1. fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar vakti nefndin athygli á að eigi gamli Herjólfur að hefja ferjusiglingar um Breiðafjörð haustið 2023 þarf að breyta og breikka ferjuaðstöðuna í Stykkishólmi og Brjánslæk. Sú framkvæmd mun taka einhverja mánuði og líkur eru á að engar ferjusiglingar verði á milli þessara staða sumarið 2023. Stór hluti ferðaþjónustufyrirtækja í Stykkishólmi er háður ferjusiglingum yfir sumarmánuðina. Nauðsynlegt sé að huga að því strax hvernig eigi að mæta tímabundinni stöðvun ferjusiglinga næsta sumar.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd hvatti jafnframt bæjarstjórn sameiginlegs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar til að beita auknum þrýstingi á stjórnvöld að útvega nú þegar trausta ferju sem afkastar eigi minna en núverandi ferja jafnframt því að stjórnvöld hefji nú þegar undirbúning að framtíðarlausn ferjusiglinga yfir Breiðafjörð. Með tilliti til vaxandi sjóflutninga til og frá Vestfjörðum er mikil þörf á tíðari siglingum ferjunnar yfir vetrarmánuðina.
Bæjarstjórn tekur undir með atvinnu- og nýsköpunarnefnd og staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

7.Skógarstrandarvegur

Málsnúmer 1912009Vakta málsnúmer

Á 1. fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar gerði bæjarstjóri grein fyrir samskiptum sínum við innviðaráðherra, innviðaráðuneytið og forsvarsmenn Vegagerðarinnar varðandi flýtingu á uppbyggingu Skógarstrandarvegar sem var eitt af áhersluverkefnum Samstarfsnefndar um sameiningu Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd hvatti, á 1. fundi sínum, bæjarstjórn sameiginlegs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar að þrýsta á stjórnvöld að flýta uppbyggingu Skógarstrandarvegar með því að tryggja aukið fjármagn til framkvæmdarinnar í samgönguáætlun árin 2023 og 2024. Skógarstrandarvegur er stofnvegur samkvæmt skilgreiningu í samgönguáætlun og er hluti af grunnneti samgangna á Íslandi. Vegurinn á því að vera í forgangi við ráðstöfun fjármuna á samgönguáætlun. Ástand Skógarstrandarvegar hefur verið heftandi fyrir uppbyggingu búsetu og ferðaþjónustu á Skógarströnd. Án bættra samgangna um Skógarströnd er óraunhæft að ræða um sameiningu sveitarfélaga á Snæfellnesi og Dalabyggðar.
Bæjarstjórn tekur undir ályktun atvinnu- og nýsköpunarnefndar og vísar í fyrri bókanir og ályktanir fastanefnda og bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar vegna málsins sem liggja fyrir fundinum.

Bæjarstjórn tekur jafnframt undir áskorun sveitastjórnar Dalabyggðar til ríkisstjórnar um að ríkisvaldið líti á stöðu og ástand vegarins sem neyðarástand og veiti í því ljósi sérstöku fjármagni til þessa vegar þannig að á næstu tveimur árum verði lokið lagningu bundins slitlags á veg 54 um Skógarströnd.

Bæjarstjórn telur nauðsynlegt að leitað verði allra leiða til þess að tryggja megi að vegurinn verði fullbyggður á næstu tveimur árum.

8.Aukið raforkuöryggi

Málsnúmer 2208036Vakta málsnúmer

Á 1. fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar gerði bæjarstjóri grein fyrir áherslum sveitarfélaga á Snæfellsnesi og Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi til að styrkja flutningskerfi raforku og auka stöðugleika í afhendingu á svæðinu. Ný 132 kv. lína frá Vatnshömrum að Vogaskeiði og ný 132 kv. lína frá Vogaskeiði að Glerárskógum í Dalabyggð er forsenda fyrir framtíðarorkuskiptum í samgöngum á landi og haftengdri starfsemi.

Á 1. fundi sínum vakti avinnu- og nýsköpunarnefnd athygli á að skortur á raforkuöryggi stendur atvinnuuppbyggingu á svæðinu fyrir þrifum, en afhendingaröryggi raforku er ekki nægjanlegt til þeirra notenda sem fyrir eru. Miklu skiptir að lögð verði hið fyrsta 132 kv. lína frá Vogaskeiði að Glerárskógum í Dalabyggð.
Bæjarstjórn tekur undir ályktun atvinnu- og nýsköpunarnefndar og vísar í fyrri bókanir og ályktanir fastanefnda og bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar vegna málsins sem liggja fyrir fundinum.

Bæjarstjórn skorar á orkumálaráðherra og Landsnet að vinna hörðum höndum að því að tryggja svæðinu flutningsgetu og raforkuöryggi þannig að svæðið geti tekið þátt í nauðsynlegum orkuskiptum í samgöngum á landi og haftengdri starfsemi.

9.Kjör nefnda í samræmi við samþykktir sameinaðs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar

Málsnúmer 2205039Vakta málsnúmer

Á 2. fundi bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar var samþykkt að skipa í Landbúnaðarnefnd að lokinni breytingu á samþykkt um stjón sameinaðs sveitarfélags. Í ljósi afgreiðslu 5. liðar þessa fundar er lagt fyrir bæjarstjórn að ganga frá kjöri í Landbúnaðarnefnd, sbr. 48. gr. nýrrar samþykktar um stjón Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar.

Lagt er til að bæjarstjórn feli fulltrúum í Landbúnaðarnefnd umboð til þess að fara með fjallskil sveitarfélagsins þar til samþykktin tekur gildi.
Bæjarstjórn skipar eftirtalda í landbúnaðarnefnd sveitarfélagsins:
Guðrún Reynisdóttir, aðalmaður H-lista, sem jafnframt er formaður nefndarinnar.
Benjamín Ölversson, aðalmaður H-lista
Guðlaug Sigurðardóttir, aðalmaður Í-listi
Harpa Eiríksdóttir, varamaður H-listi
Eiríkur Helgason, varamaður H-listi
Kristján Hildibrandsson, varamaður Í-listi

Bæjarstjórn veitir formanni og öðrum nefndarmönnum umboð til þess að fara með fjallskilastjórn sveitarfélagsins, þ.m.t. að leggja á fjallskil og afla viðeigandi gagna, sbr. lög um afréttamálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986 og fjallskilasamþykkt nr. 791/2012, þar til samþykkt um stjórn sveitarfélagsins hefur tekið gildi.

10.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1808022Vakta málsnúmer

Lagðir fram minnispunktar bæjarstjóra.
Bæjarstjóri gerir grein fyrir minnispunktum sínum.

Fundi slitið.

Getum við bætt efni síðunnar?