Fara í efni

Ægisgata 1 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Málsnúmer 2006015

Vakta málsnúmer

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 2. fundur - 24.06.2020

Sótt er um breytingar utanhúss frá áður samþykktu byggingarleyfi, en í breytingunni felst að klæða húsið með áli í stað múrkerfis.
Skv. kafla 2.3 um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir í byggingarreglugerð nr. 112/2012, segir m.a. í grein 2.3.4:
Breyting er varðar útlit eða form mannvirkis. Varði breyting á mannvirki útlit þess og form skal leita samþykkis hlutaðeigandi skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi er veitt enda liggi ekki fyrir samþykkt deiliskipulag sem heimilar breytinguna. Ekki þarf að leita slíks samþykkis sé breytingin óveruleg. Til að breyting á mannvirki geti talist óveruleg má hún ekki skerða hagsmuni nágranna, t.d. hvað varðar útsýni, skuggavarp eða innsýn, ekki breyta eða hafa áhrif á götumynd.

Skv. c-lið, greinar 2.3.5. í byggingarreglugerð segir að minniháttar framkvæmdir, svo sem endurnýjun veggklæðninga utanhúss (viðhald), þegar notað sé eins eða sambærilegt efni og fyrir var, einnig nýklæðning þegar byggðra bygginga, séu undanþegnar byggingarleyfi, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag.

Skv. aðalskipulagi Stykkishólms 2002-2022 er fjallað um götumyndir, ásýndir húsa og efnisval.

Í ljósi þess að ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir Ægisgötu, er erindinu vísað til umsagnar skipulagsnefndar.

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 3. fundur - 10.07.2020

Tekið er fyrir að nýju umsókn Guðbrandar Björgvinssonar um breytingar á kæðningu Ægisgötu 1 frá áður samþykktu byggingarleyfi, sbr. teikningu dags. 26.06.2020

Í ljósi þess að ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir Ægisgötu, var erindinu vísað til umsagnar skipulagsnefndar sem samþykkti erindið.
Byggingarfulltrúi samþykkir beðni um breytingar á klæðningu á Ægisgötu 1.

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 6. fundur - 11.09.2020

Erindi frá Sigurbjarti Loftssyni aðalhönnuði f.h. Guðbrands Björgvinssonar vegna Ægisgötu 1 í Stykkishólmi.
Um er að ræða færslu og breytingu á staðsetningu stoðveggja á lóð Ægisgötu 1, auk uppsetningu glerhandriða.

Óskað er eftir niðurrifi og færslu á stoðveggjum sem þegar hafa verið steyptir á móts við Ægisgötu 3. Nýir stoðveggir verða steyptir innan lóðar Ægisgötu 1.
Þá er sótt um glerveggi, um 90 cm á hæð, sem verða handrið á stoðveggjum að norðanverðu á móts við Austurgötu 12.
Forsaga málsins er sú að í lok árs 2019 voru steyptir stoðveggir á lóð Ægisgötu 1 á móts við lóðarmörk lóðanna Austurgötu 12 (lóð Skelverksmiðjunnar), Ægisgötu 3, og á móts við Ægisgötu 5 þar sem sveitarfélagið á aðliggjandi land. Veggirnir voru steyptir í tengslum við byggingu nýs íbúðarhúss á lóðinni.
Í ljós kom að stoðveggirnir voru ekki staðsettir eins og til stóð sbr. uppdrætti og voru þeir m.a. inn fyrir lóðarmörk Ægisgötu 3.
Með bréfi byggingarfulltrúa dags. 20.01.2020 voru allar frekari framkvæmir við stoðveggina stöðvaðar á meðan málið væri til frekari skoðunar hjá sveitarfélaginu sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Þar sem ekki er samþykki fyrir stoðvegg á lóðarmörkum á móts við Ægisgötu 3, þarf hann að færast innar í lóð, eða hæð sína frá lóðarmörkum.
Með erindinu fylgja uppdrættir dags. 26.06.2020 með síðari breytingum, sem sýna hæð og staðsetningu nýrra stoðveggja og fjarlægð þeirra frá lóðarmörkum.

Skv. byggingarreglugerð gilda m.a. eftirfarandi reglur um stoðveggi á lóðum og lóðarmörkum:

Skv. f lið greinar 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eru girðingar, allt að 1,8 m á hæð og sem eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m, undanþegnar byggingarleyfi.

Samkvæmt sömu grein 2.3.5 í byggingarreglugerð, má reisa girðingar í sömu fjarlægð frá lóðarmörkum og hæð þeirra er, allt að 1,8 m.

Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingu eða skjólvegg allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina.

Ef girðingar og skjólveggir falla ekki undir f lið greinar 2.3.5 í byggingarreglugerð, skal sækja um byggingarleyfi fyrir þeim, en skv. þessari grein er átt við að sækja þurfi um byggingarleyfi fyrir girðingum og skjólveggjum, hærri en 1,8m á hæð.

Allar girðingar og skjólveggir á lóðarmörkum, eru háðar samþykki beggja lóðarhafa, óháð hæð skv. grein 7.2.3.

Í ljósi rangrar staðsetningar á stoðvegg Ægisgötu 1, sem snýr að lóð Ægisgötu 3 og sem steyptur var í lok árs 2019, hefur hönnuður f.h. eiganda, lagt fram nýjan uppdrátt sem sýnir breytta staðsetningu stoðveggjar og sem fellur að ákvæðum byggingarreglugerðar.
Skv. uppdrættinum verður eldri stoðveggur fjarlægður, nýr steyptur á móts við Ægisgötu 3, auk þess sem setja á fallvörn á hluta stoðveggja (á móts við Austurgötu 12), vegna fallhættu.

Rétt er að mati byggingarfulltrúa að kynna framkvæmdina fyrir lóðarhöfum aðliggjandi lóðar.
Glerveggir/handrið ofaná steypta lóðarveggi á móts við Austurgötu 12, eru byggingarleyfisskyld framkvæmd sbr. grein 2.3.5 í byggingarreglugerð.

Í ljósi þess að ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir Ægisgötu, er erindinu vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 10. fundur - 15.12.2020

Tekið er fyrir erindi frá Sigurbjarti Loftssyni aðalhönnuði f.h. Guðbrands Björgvinssonar vegna Ægisgötu 1 í Stykkishólmi.
Um er að ræða færslu og breytingu á staðsetningu lóðarveggja á lóð Ægisgötu 1 og tilheyrandi lóðarfrágangi, auk uppsetningu glerhandriða.
Óskað er eftir niðurrifi og færslu á lóðarveggjum sem þegar hafa verið steyptir á móts við Ægisgötu 3. Nýir lóðarveggir verða steyptir innan lóðar Ægisgötu 1.
Þá er sótt um glerveggi, um 90 cm á hæð, sem verða handrið á lóðarveggjum að norðanverðu á móts við Austurgötu 12, til að tryggja öryggi og koma í veg fyrir fall.

Rétt þótti að mati byggingarfulltrúa að kynna framkvæmdina fyrir lóðarhöfum aðliggjandi lóðar. Glerveggir/handrið ofaná steypta lóðarveggi á móts við Austurgötu 12, eru byggingarleyfisskyld framkvæmd sbr. grein 2.3.5 í byggingarreglugerð. Í ljósi þess að ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir Ægisgötu, var erindinu vísað til skipulagsnefndar.

Erindi var grenndarkynnt frá 18. september til og með 16. október 2020. Athugasemdarbréf barst frá hagsmunaaðilum dagsett 8. október 2020.

Skipulags- og byggingarnefnd fjallaði um málið á fundi sínum þann 19. október sl., og samþykkti nefndin umsögn Landslaga um málið og vísaði erindinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Fyrir liggur að grenndarkynning vegna málsins hefur farið fram og skipulags- og byggingarnefnd hefur ekki gert athugasemd við málið sbr. afreiðslu nefndarinnar þann 19. október sl.
Fyrir liggur einnig að staðsetning núverandi lóðarveggs á móts við Austurgötu 12, sem steyptur var í lok árs 2019, var skv. samþykki lóðarhafa Austurgötu 12, að staðsetning lóðarveggjar á móts við Ægisgötu 5, var skv. samþykki sveitarfélagsins/aðliggjandi lóðarhafa, en hinsvegar var lóðarveggur á móts við Ægisgötu 3 ekki staðsettur í samræmi við samþykki aðliggjandi lóðarhafa, Ægisgötu 3.
Byggingarfulltrúi stöðvaði því framkvæmdir við umræddan lóðarvegg með bréfi til lóðarhafa dags. 20.01.2020, í kjölfar þess að í ljós kom að hann var ranglega staðsettur.
Skv. umsókninni nú er því sótt um færslu lóðarveggja á móts við Ægisgötu 3 og þeir staðsettir þannig, innan lóðar Ægisgötu 1, að verði a.m.k. hæð sína frá lóðarmörkum við Ægisgötu 3.

Byggingarfulltrúi samþykkir leyfi fyrir niðurrifi lóðarveggja á móts við lóð Ægisgötu 3 og leyfi fyrir byggingu nýrra lóðarveggja skv. framlögðum uppdráttum. Leyfið er þó með þeim áskilnaði að lóðarveggir sem fyrir eru og fjarlægja ber, verði fyrst fjarlægðir áður en hafist verður handa við annað svo sem við uppbyggingu nýrra lóðarveggja.
Byggingarfulltrúi samþykkir einnig leyfi fyrir tilheyrandi lóðarfrágangi vegna lóðarveggjanna, bæði hinna nýju og hinna sem eldri eru, en lóðarfrágangi var ekki lokið þegar framkvæmdir voru stöðvaðar í janúar 2020.

Byggingarfulltrúi samþykkir leyfi fyrir uppsetningu glerveggja (handriða) ofaná steypta lóðarveggi á móts við Austurgötu 12, enda telur byggingarfulltrúi að um sé að ræða öryggismál sökum fallhættu og að slík glerhandrið valdi óverulegum grenndaráhrifum eða óþægindum umfram stoðvegginn sjálfan enda er húsið á lóðinni nr. 12 atvinnuhúsnæði. Byggingarfulltrúi telur því að ekki sé þörf á samþykki lóðarhafa á lóðinni nr. 12 vegna þessa enda hafi hann fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri sbr. grenndarkynningu.

Þegar gefið hefur verið út byggingarleyfi fyrir framangreindum framkvæmdum fellur úr gildi stöðvun framkvæmda við lóðarveggi á lóð Ægisgötu 1 skv. bréfi byggingarfulltrúa dags. 20.01.2020. Áréttað er að sá hluti veggjanna sem ber að fjarlægja verði fjarlægður áður en hafist verður handa um gerð nýrra veggja.

Bæjarráð - 625. fundur - 18.03.2021

Lagt fram bréf Lagavörðunnar sem sent var f.h. lóðahafa Austurgötu 12 og Ægisgötu 3, dags. 17. febrúar 2021, sem er svarbréf við bréfi byggingarfulltrúa, dags. 5. febrúar 2020, vegna framkvæmda við lóð nr. 1 við Ægisgötu í Stykkishólmi. Þá er jafnframt lagt fram erindi sama aðila, dags. 26. febrúar 2021, þar sem gerðar eru athugasemdir við framkvæmdir á lóð nr. 1 við Ægisgötu í Stykkishólmi, ásamt svarbréfi bæjarstjóra.
Bæjarráð tekur undir svarbréf bæjarstjóra og áréttar að ráðið beri fullt traust til byggingafulltrúa og hans starfa.

Bæjarstjórn - 397. fundur - 29.03.2021

Lagt fram bréf Lagavörðunnar sem sent var f.h. lóðahafa Austurgötu 12 og Ægisgötu 3, dags. 17. febrúar 2021, sem er svarbréf við bréfi byggingarfulltrúa, dags. 5. febrúar 2020, vegna framkvæmda við lóð nr. 1 við Ægisgötu í Stykkishólmi. Þá er jafnframt lagt fram erindi sama aðila, dags. 26. febrúar 2021, þar sem gerðar eru athugasemdir við framkvæmdir á lóð nr. 1 við Ægisgötu í Stykkishólmi, ásamt svarbréfi bæjarstjóra.

Bæjarráð tók undir svarbréf bæjarstjóra á síðasta fundi sínum og áréttar að ráðið beri fullt traust til byggingafulltrúa og hans starfa.
Bæjarstjórn tekur undir afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarstjórn - 398. fundur - 29.04.2021

Lögð fram tilkynning um stjórnsýslukæru í tengslum við framkvæmdir á lóðinni nr. 1 við Ægisgötu í Stykkishólmi, dags. 30. mars 2021, þar sem Lagavarðan ehf., f.h. lóðarhafa að Ægisgötu 3 og Austurgötu 12, krefst þess að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan unnið er á lagfæringum á lóðinni o.fl. Jafnframt er lögð fram greinargerð Stykkishólmsbæjar þar sem hafnað er kröfu um stöðvun framkvæmda og jafnframt bent á að kærufrestur kunni að vera liðinn og því beri að vísa málinu frá, ásamt öðrum gögnum málsins.
Lagt fram til kynningar.

Bæjarráð - 634. fundur - 02.12.2021

Lögð fram stefna Rakelar Olens og Agustson ehf. sem höfða mál fyrir Héraðsdómi Vesturlands vegna málefna Ægisgötu 1 þar sem aðallega eru gerðar dómkröfur á hendur stefnda, Guðbrandi Björgvinssyni, en til vara á hendur stefndu, Guðbrandi Björgvinssyni og Stykkishólmsbæ. Málið verður þingfest á næsta reglulega dómþingi Héraðsdóms Vesturlands sem verður haldið þriðjudaginn 7. desember 2021, en þar munu stefndu verða veitt frestir til að taka afstöðu til krafna stefnenda og halda uppi vörnum í málinu með því að leggja fram skriflega greinargerð um þær við lok frests sem veittur verður.
Lagt fram til kynningar.

Skipulags- og bygginganefnd - 256. fundur - 18.01.2022

Lögð fram stefna Rakelar Olens og Agustson ehf. sem höfða mál fyrir Héraðsdómi Vesturlands vegna málefna Ægisgötu 1 þar sem aðallega eru gerðar dómkröfur á hendur stefnda, Guðbrandi Björgvinssyni, en til vara á hendur stefndu, Guðbrandi Björgvinssyni og Stykkishólmsbæ. Málið var þingfest á seinasta reglulega dómþingi Héraðsdóms Vesturlands sem haldið var þriðjudaginn 7. desember 2021, en þar var þeim stefndu veittur frestur til að taka afstöðu til krafna stefnenda og halda uppi vörnum í málinu með því að leggja fram skriflega greinargerð um þær við lok þess frests sem veittur var.
Lagt fram til kynningar.

Bæjarráð - 636. fundur - 21.02.2022

Lögð fram greinargerð Stykkishólmsbæjar vegna stefnu Rakelar Olsen og Agustson ehf. sem höfða mál fyrir Héraðsdómi Vesturlands vegna málefna Ægisgötu 1 þar sem aðallega eru gerðar dómkröfur á hendur stefnda, Guðbrandi Björgvinssyni, en til vara á hendur stefndu, Guðbrandi Björgvinssyni og Stykkishólmsbæ.
Framlagt til kynningar.

Bæjarstjórn - 408. fundur - 24.02.2022

Lögð fram greinargerð Stykkishólmsbæjar vegna stefnu Rakelar Olsen og Agustson ehf. sem höfða mál fyrir Héraðsdómi Vesturlands vegna málefna Ægisgötu 1 þar sem aðallega eru gerðar dómkröfur á hendur stefnda, Guðbrandi Björgvinssyni, en til vara á hendur stefndu, Guðbrandi Björgvinssyni og Stykkishólmsbæ.
Framlagt til kynningar.
Getum við bætt efni síðunnar?