Fara í efni

Bæjarstjórn

411. fundur 28. apríl 2022 kl. 17:00 í bæjarstjórnarsal
Nefndarmenn
  • Gunnlaugur Smárason aðalmaður
  • Steinunn Ingibjörg Magnúsdóttir aðalmaður
  • Haukur Garðarsson aðalmaður
  • Guðmundur Kolbeinn Björnsson varamaður
  • Erla Friðriksdóttir aðalmaður
  • Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri
  • Hrafnhildur Hallvarðsdóttir (HH) forseti
  • Lárus Ástmar Hannesson aðalmaður
Starfsmenn
  • Þór Örn Jónsson fundarritari
  • Jón Sindri Emilsson embættismaður
Fundargerð ritaði: Þór Örn Jónsson bæjarritari
Dagskrá

1.Æskulýðs- og íþróttanefnd - 83

Málsnúmer 2204003FVakta málsnúmer

Lögð fram 83. fundargerð æskulýðs- og íþróttanefndar.
Lagt fram til kynningar.

2.Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 2112008Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 908. fundar sambands íslenskra sveitarfélaga.
Lagt fram til kynningar.

3.Fundargerðir stjórnar Sorpurðunar Vesturlands hf.

Málsnúmer 1906039Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð aðalfundar Sorpurðunar Vesturlands sem haldinn var 16. mars sl.
Lagt fram til kynningar.

4.Færsla hjúkrunarheimilis og staða framkvæmda við HVE Stykkishólmi

Málsnúmer 1909042Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 22. fundar stýrihóps vegna framkvæmda á HVE í Stykkishólmi.
Fundargerð framlögð til kynningar.

5.Almennt eftirlit með fjármálum sveitarfélaga á árinu 2022

Málsnúmer 2203028Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) til allra sveitarfélaga varðandi almennt eftirlit með fjármálum sveitarfélaga á árinu 2022. Bréfið upplýsir sveitarfélög um áhersluatriðið EFS fyrir árið 2022
Lagt fram til kynningar.

6.Endurskipulagning sýslumannsembætta

Málsnúmer 2203030Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá dómsmálaráðuneytinu varðandi endurskipulagningu á sýslumannsembættum.
Lagt fram til kynningar.

7.Fundargerðir Breiðafjarðarnefndar

Málsnúmer 2005070Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 200. fundar Breiðafjarðarnefndar.
Lagt fram til kynningar.
Fylgiskjöl:

8.Skýrsla um Svæðisgarðinn Snæfellsnes

Málsnúmer 2204002Vakta málsnúmer

Lögð fram skýrsla um Svæðisgarðinn Snæfellsnes þar sem farið er yfir stofnun Svæðisgarðsins, uppbygingu og þróun, verkefni og strafsemi og áhersluverkefni 2022.
Lagt fram til kynningar.

9.Kjör í yfirkjörstjórn

Málsnúmer 2112004Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar og sveitarstjórn Helgafellssveitar kjósa sameiginlega þrjá fulltrúa í yfirkjörstjórn og þrjá til vara. Kjörstjórnir þær sem kosnar voru í upphafi yfirstandandi kjörtímabils, skv. 14. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórnar, skulu vera undirkjörstjórnir í hvoru sveitarfélagi fyrir sig við sveitarstjórnarkosningar. Forseti bæjarstjórnar leggur til þær breytingar á skipun yfirkjörstjórnar að Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson taki sæti sem aðalmaður í yfirkjörstjórn og Björn Sverrisson verði varamaður í yfirkjörstjórn.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu forseta bæjarstjórnar og er því yfirkjörstjórn skipuð með eftirfarandi hætti:

Aðalmenn:
Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson
Kristín Benediktsdóttir
Jóhannes Eyberg Ragnarsson

Varamenn:
Björn Sverrisson
Guðbjörg Egilsdóttir
Sæmundur Runólfsson

10.Kennslukvóti fyrir skólaárið 2022-2023

Málsnúmer 2203035Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn Grunnskólans í Stykkishólmi um kennslukvóta fyrir skólaárið 2022-2023. Bæjarráð samþykkti, á 639. fundi sínum, að kennslukvóti við Grunnskólann skólaárið 2022-2023 verði 462 kennslustundir.
Bæjarstjórn samþykkir að kennslukvóti Grunnskólans verði 462 kennslustundir skólaárið 2022-2023.

11.Húsa- og byggðakönnun Stykkishólmi

Málsnúmer 2203029Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá forstöðumanni Minjastofnunar Íslands sem greinir frá ákörðun um styrkúthlutun úr húsafriðunarsjóði 2022. Ákveðið hefur verið að veita styrk að upphæð kr. 1.600.000,- til húsa- og byggðakönnunar í Stykkishólmi. Einnig er lagður fram samningur um styk úr húsafriðunarsjóði.

Bæjarráð fól bæjarstjóra, á 639. fundi sínum, að undirbúa verkefnið og koma í framkvæmd.

Lagt fram til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir ákvörðun bæjarráðs.

12.Súgandiseyjarviti - Endurgerð ljóshúss

Málsnúmer 2203027Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá forstöðumanni Minjastofnunar Íslands sem greinir frá ákörðun um styrkúthlutun úr húsafriðunarsjóði 2022. Ákveðið hefur verið að veita styrk að upphæð kr. 2.000.000,- til endurgerðar ljóshúss Súgandiseyjarvita. Einnig er lagður fram samningur um styk úr húsafriðunarsjóði.

Bæjarráð fól bæjarstjóra, á 639. fundi sínum, að undirbúa verkefnið í samráði við byggingafulltrúa og visa til viðauka.

Lagt fram til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir ákvörðun bæjarráðs.

13.Styrkumsóknir

Málsnúmer 2111009Vakta málsnúmer

Auglýst var eftir styrkumsóknum frá einstaklingum og fyrirtækjum í samræmi við reglur Stykkishólmsbæjar um styrkveitingar frá 25. febrúar til 21. mars sl. Alls bárust 2 umsóknir.

Bæjarrráð samþykkti, á 639. fundi sínum, að styrka Félag atvinnulífs í Stykkishólmi um 400.000 kr. og Norska húsið um 150.000 vegna 190 ára afmælis Norska hússins.

Lagt fram til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

14.Endurskoðun forvarnarstefnu Stykkishólmsbæjar

Málsnúmer 1812022Vakta málsnúmer

Lögð fram endurskoðuð forvarnarstefna Stykkishólmbæjar.

Bæjarráð samþykkti, á 639. fundi sínum, forvarnarstefnu Stykkishólmsbæjar og lagði til við bæjarstjórn að samþykkja hana.
Bæjarstjórn samþykkir forvarnarstefnu Stykkishólmsbæjar.

15.Beiðni um tilnefningu fulltrúa í samráðshóp um forsendugreiningu fyrir verndun Breiðafjarðar

Málsnúmer 2204012Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Sigríði Finsen, formanni stýrihóps um greiningu fyrir verndun Breiðafjarðar og tengsl við byggðaþróun. Í erindi Sigríðar er óskað eftir tilnefningu sveitarfélagsins í samráðshóp um forsendugreiningu fyrir verndun Breiðafjarðar.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa tilnefningu til næsta bæjarstjórnarfundar.

16.Staða hafnarvarðar

Málsnúmer 2203022Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað og tillaga bæjarstjóra til bæjarstjórnar um ráðningu hafnarvarðar.
Bæjarstjórn staðfestir ráðningu Kjartans Jóhannesar Karvelssonar í starf hafnarvarðar skv. auglýsingu um starfið frá 18. mars 2022, í samræmi við tillögu bæjarstjóra.

17.Jafnlaunastefna Stykkishólmsbæjar

Málsnúmer 1911016Vakta málsnúmer

Lögð fram uppfærð jafnlaunastefna Stykkishólmsbæjar til samþykktar.
Bæjarstjórn samþykkir jafnlaunastefnu Stykkishólmsbæjar.

18.Gervigrasvöllur við Íþróttahús

Málsnúmer 2104021Vakta málsnúmer

Íþrótta- og æskulýðsnefnd leggur til að Knattspyrnudeild Snæfells verði boðin fjáröflun með allsherjar endurbætur á gervigrasvellingum og tilraun gerð til þess að þrífa völlinn og mála grindverkið. Ef þrif á velli ganga ekki upp leggur nefndin til þess að skipt verði um gervigras. Einnig leggur nefndin til að hækka gaflana báðu megin.

Bæjarstjóri leggur til að bæjarstjóra verði falið að ganga til samninga við Snæfell um verkefnið.
Bæjarstjórn samþykkir að bæjarstjóri gangi til samninga við Snæfell um verkefnið.

Til máls tóku:HH,GS og LÁH

19.Íþróttastefna Stykkishólmsbæjar

Málsnúmer 1905025Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar lagði til á 608. fundi bæjarráðs að unnin verði Íþróttastefna Stykkishólmsbæjar eða eftir atvikum verði leitað samstarfs við HSH og sveitarfélaganna á Snæfellsnesi um sameiginlega stefnu í þessum efnum.

Bæjarráð vísaði tillögunni til umfjöllunar og umsagnar í æskulýðs- og íþróttanefnd sem lagði til á 78. fundi sínum að leitað yrði eftir samstarfi við HSH og sveitafélögin á Snæfellsnesi um sameiginlega íþróttastefnu. Með sameiginlegri íþróttastefnu, hvort sem hún verði sameiginleg stefna sveitarfélaga á Snæfellsnesi eða sameiginleg stefna með íþróttahreyfingunni á Snæfellsnesi, er m.a. verið að stefna að því vinna í samræmi við markmið og aðgerðir sem fram koma í stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytisins í íþróttmálum 2019-2030, en með sameiginlegri stefnu er jafnframt tilgangurinn að auka samvinnu og samstarf á sviði íþróttamála á Snæfellsnesi.

Bæjarráð fól bæjarstjóra og tómstunda- og æskulýðsfulltrúa Stykkishólmsbæjar að kanna áhuga sveitarfélaga á Snæfellsnesi og HSH um sameiginlega íþróttastefnu Snæfellinga.

Lögð eru fram svarbréf vegna erindisins. Grundafjarðarbær lýsir yfir áhuga sínum á sameiginlegri íþróttastefnu á Snæfellsnesi en Snæfellsbær taldi ekki þörf fyrir sameiginlegri íþróttastefnu Snæfellinga.

Æskulýðs- og íþróttanefnd lagði til, á 83. fundi sínum, að hafist verði handa við að vinna að íþrótta- og tómstundastefnu með aðgerðaráætlun. Æskulýðs- og tómstundafulltrúi muni gera drög að íþrótta- og tómstundastefnu í samstarfi við nefndina. Hugmyndin er að styðjast við stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum.
Bæjarstjórn samþykkir að æskulýðs- og tómstundafulltrúi vinna íþróttastefnu Stykkishólmsbæjar í samvinnu við æskulýðs- og íþróttanefnd.

20.Viljayfirlýsing um landeldi og sjálfbæra framleiðslu matvæla á grunni grænna iðngarða

Málsnúmer 2204017Vakta málsnúmer

Lögð fram viljayfirlýsing um landeldi og sjálfbæra framleiðslu matvæla á grunni grænna iðngarða.
Bæjarstjórn staðfestir viljayfirlýsing um landeldi og sjálfbæra framleiðslu matvæla á grunni grænna iðngarða og vísar vinnu að samkomulagi við félagið í samræmi við viljayfirlýsingu til bæjarráðs.

Til máls tóku:HH,LÁH og EFBókun O-lista

Undirrituð fagna því að áhugi sé á nýsköpun í matvælaiðnaði í sveitarfélaginu. Steinbítur er náttúruleg tegund á svæðinu og ætti eldi sem þetta ekki að valda miklum skaða á náttúrunni. Þátttaka Matís í verkefninu er styrkur og telja undirrituð að Matís ætti að vera þriðji aðilinn í umræddu samkomulagi.

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að Stykkishólmur útvegi landsvæði án endurgjalds til tímabundinna afnota og aðstoði við undirbúning svæðisins.

Í samkomulaginu þarf að liggja fyrir um hvaða landsvæði er að ræða, hversu stórt það er og hvar það er staðsett. Einnig þarf að ákvarða til hversu langs tíma samkomulagið gildir. Ennfremur þarf að taka það fram hvaða kostnað sveitarfélagið komi til með að bera.

Í samkomulaginu þarf einnig að koma fram að Hólmurinn ehf. skuldbindi sig til þess að bera ábyrgð og kostnað af því að fjarlægja kvíar og annan búnað og ganga frá svæðinu með ásættanlegum hætti að tilraun lokinni ef ákveðið verður að binda endi á hana og ekki fara í frekari uppbyggingu.

Okkar Stykkishólmur

Haukur Garðarsson

Erla Friðriksdóttir

21.Ársreikningur Stykkishólmsbæjar - Síðari umræða

Málsnúmer 2204003Vakta málsnúmer

Á 639. fundi bæjarráðs var lagður fram ársreikningur Stykkishólmsbæjar til fyrri umræðu. Á fundinum samþykkti bæjarráð að vísa ársreikningi til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Haraldur Örn Reynisson, endurskoðandi, mætti á 411. fund bæjarstjórnar og gerði grein fyrir ársreikningi Stykkishólmsbæjar fyrir árið 2021. Bæjarstjóri gerði einnig grein fyrir helstu áhrifum ársins 2021 á fjárhag bæjarins og helstu lykiltölum.

Bæjarstjórn samþykkti á 411. fundi sínum, að vísa ársreikningi Stykkishólmsbæjar til seinni umræðu í bæjarstjórn.
Lagður fram til síðari umræðu ársreikningur Stykkishólmsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2021 ásamt lokaeintaki endurskoðunarskýrslu. Ársreikningur Stykkishólmsbæjar er gerður í samræmi við sveitarstjórnarlög, lög um ársreikninga og reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga og auglýsingar ráðuneytis sveitarstjórnarmála um reikningsskil sveitarfélaga. Vísað er til yfirferðar endurskoðenda við fyrri umræðu þann 20. apríl síðastliðinn. Engar breytingar hafa orðið á ársreikningnum frá fyrri umræðu. Endurskoðandi Stykkishólmsbæjar mun árita ársreikninginn með fyrirvaralausri áritun.

Bæjarstjóri gerir grein fyrir helstu atriði ársreiknings Stykkishólmsbæjar fyrir árið 2021:

---
Rekstrartekjur samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta námu 1.910,9 millj. kr. á árinu en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.507,2 millj. kr. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var neikvæð um 87,8 millj. kr. en fjárhagsáætlun með viðaukum hafði gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 58,9 millj. kr. Rekstrartekjur A og B hluta voru í samræmi við áætlun ársins 2021 og jukust um 12,5% milli ára. Rekstrargjöld jukust um 12,5% milli ára og eru 3,7% umfram áætlun með viðaukum. Frávik frá fjárhagsáætlun með viðaukum má helst rekja til verulegrar hækkunar lífeyrisskuldbindingar umfram það sem væntingar stóðu til og nam frávikið 72,6millj. kr. en laun og launatengd gjöld voru 1,9% umfram fjárhagsáætlun.

Hefði fyrrgreind hækkun lífeyrisskuldbindingar ekki komið til af þeim þunga sem raunin varð hefði Stykkishólmsbær náð þeim markmiðum sem sett höfðu verið í fjárhagsáætlun ársins varðandi rekstrarniðurstöðu fyrir afskriftir.

Veltufé frá rekstri nam á árinu 2021 178,2 millj. kr. samanborið við 99,2 millj. kr. árið áður. Veltufé frá rekstri var 43,5 millj. kr. umfram fjárhagsáætlun með viðaukum sem gert hafði ráð fyrir að veltufé frá rekstri næmi 134,8 millj. kr. Handbært fé í árslok nam 101,6 millj. kr. og jókst um 4,6 millj. kr. á árinu.

Heildarfjárfesting A og B hluta á árinu 2021 nam 190 millj. kr. en áætlanir með viðaukum höfðu gert ráð fyrir 170 millj. kr. fjárfestingu árið 2021. Lántökur námu 195 millj. kr. og afborganir langtímalána námu 190,3 millj. kr.

Skuldaviðmið A og B hluta Stykkishólmsbæjar í árslok 2021 er 118% en rekstrarjöfnuður síðastliðinna þriggja ára er neikvæður um 81,9 millj. kr.

Að baki er krefjandi ár í rekstri Stykkishólmsbæjar líkt og annarra félaga á þessum tímum. Bæjarstjóri og bæjarstjórn vill nota tækifærið og þakka starfsmönnum Stykkishólmsbæjar og íbúum þolgæði og þrautseigju á liðnu ári.

----

Ársreikningur 2021 var borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hefur á fundi sínum í dag 28. apríl 2022 afgreitt ársreikning fyrir bæjarsjóð og B-hluta fyrirtæki bæjarins vegna ársins 2021 að loknum tveimur umræðum í bæjarstjórn og umfjöllun í bæjarráði. Löggiltur endurskoðandi bæjarins hefur kynnt athugun sína á fjárreiðum bæjarins og sett fram ábendingar og lagt mat á reikninginn í endurskoðunarskýrslu sem liggur fyrir sem fylgiskjal með ársreikningnum. Um einstaka liði í ársreikningi er vísað til skýrslu endurskoðanda og skýringar við ársreikninginn sem verður birtur á heimasíðu bæjarins.

Bæjarfulltrúar og bæjarstjóri árituðu síðan ársreikninginn.

Til máls tóku:HH,JBJ,LÁH,HG og SIM


Bókun bæjarfulltrúa 0- og L-lista:
Undanfarin ár hefur veltufjárhlutfall verið í kringum 0,5 en þarf að vera 1 eða hærra til að hægt sé að greiða afborganir lána án nýrrar lántöku. Skuldaaukningin, með tilheyrandi fjármagnskostnaði hefur verið mikil og hafa skuldir og skuldbindingar undanfarin 7 ár farið úr 1.387 milljónum kr. í 2.753 milljónir kr. sem er hækkun upp á 1.366 milljónir kr. eða 98%. Verðtrygging og vextir yfir sama tímabil voru 678,8 milljónir. Frá upphafi ársins 2018 er skuldaaukningin 615,8 milljónir kr. og miðað við núverandi verðbólgu má búast við að verðtrygging og vextir fari nokkuð yfir 200 milljónir í ár.

Þegar dvalarheimilið fer úr rekstri sveitarfélagsins lækka tekjur bæjarins um 320 milljónir, það mun hafa töluverð áhrif til hækkunar á skuldahlutfalli og skuldaviðmiði sveitarfélagsins sem þarf að taka tillit til áður en reglur um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga taka gildi aftur.

Það er ljóst að það þarf að bretta upp ermar og takast á við þær fjárhagslegu áskoranir sem eru framundan. Þær felast í fyrsta lagi í því að hækka veltufé frá rekstri, til að standa undir afborgunum skulda og að rekstur standi undir hluta framkvæmda. Í öðru lagi þarf að lækka skuldir til að lækka fjármagnskostnað sem og minnka sveiflur og óvissu vegna verðbólgu.

Haukur Garðarsson, Okkar Stykkishólmur
Erla Friðriksdóttir, Okkar Stykkishólmur
Lárus Ástmar Hannesson, L-listi


Bókun bæjarfulltrúa H-listans:
Bæjarfulltrúar H-listans fagna þeim viðsnúningi sem er að verða á rekstri bæjarins og endurspeglast í fyrirliggjandi ársreikningi 2021, enda var högg faraldursins einna þyngst efnahagslega á ferðaþjónustuna og tengdar greinar, sem er stór þáttur í atvinnulífi okkar hér í Stykkishólmi. Niðurstaða ársreiknings sýnir að útsvarstekjur aukast verulega á milli ára eða úr kr. 631.904.732 í kr. 700.890.651, skuldahlutfall og skuldaviðmið eru að lækka, framlegðarhlutfall hækkar umtalsvert milli ára og veltufé frá rekstri hækkaði um 80% milli ára eða úr 99.203 í kr. 178.242 milljónir.

Þessi niðurstaða sýnir mun hraðari viðsnúning í rekstri en reiknað hafði verið með og staðfestir ábyrga fjármálastjórn en á sama tíma er mikilvægt að halda rétt á spilunum áfram. Við erum að ná stöðuleika í rekstri sveitarfélagsins eftir faraldurinn. Við erum á réttri leið og mikilvægt að halda áfram á braut ábyrgs rekstrar.Stykkishólmsbær byggir á traustum grunni og samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er áfram horft til þess að fjárfesta til framtíðar og munu þeir innviðir leggja grunn að enn betri þjónustu í sveitarfélaginu til framtíðar.

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir
Gunnlaugur Smárason
Guðmundur Kolbeinn Björnsson
Steinunn Ingibjörg Magnúsdóttir

22.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1808022Vakta málsnúmer

Lagðir fram minnispunktar bæjarstjóra.
Bæjarstjóri gerði grein fyrir minnispunktum sínum.

Til máls tóku:HH,JBJ,HG,GS og LÁH

Fundi slitið.

Getum við bætt efni síðunnar?