Fréttir
Nýir göngustígar við Grensás
Mikill kraftur hefur verið í Skógræktarfélagi Stykkishólms undanfarið en nú í sumar hefur göngustígakerfi í Nýræktinni vaxið mikið. Sveitarfélagið hefur síðastliðin ár unnið með félaginu að uppbyggingu á skógræktarsvæðinu við Grensás með það að markmiði að auka útivistarmöguleika í og við Stykkishólm. Í sumar tók til hendinni sjálfboðaliðahópur frá Skógræktarfélagi Íslands auk þess sem samfélagsflokkurinn lét til sín taka á svæðinu. Samfélagsflokkurinn samanstóð af nokkrum kraftmiklum og hraustum ungmennum úr eldri bekkjum grunnskólans og flokkstjóra þeirra, Páli Margeiri Sveinssyni. Að sögn drengjanna var vinnan við göngustígagerðina erfið en gefandi. Þá höfðu þeir orð á því að í skóginum væri alltaf skjól og gott veður og útiveran afar skemmtileg.
11.09.2024