Fara í efni

Bæjarstjórn

43. fundur 11. desember 2025 kl. 17:00 í bæjarstjórnarsal
Nefndarmenn
  • Steinunn Ingibjörg Magnúsdóttir aðalmaður
  • Þórhildur Eyþórsdóttir aðalmaður
  • Ragnar Ingi Sigurðsson aðalmaður
  • Ragnar Már Ragnarsson aðalmaður
  • Haukur Garðarsson (HG) aðalmaður
  • Hrafnhildur Hallvarðsdóttir Forseti
  • Heiðrún Höskuldsdóttir (HHÖ) aðalmaður
Starfsmenn
  • Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri
  • Jón Sindri Emilsson starfsmaður tæknisviðs
  • Gyða Steinsdóttir bæjarritari
Fundargerð ritaði: Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson bæjarstjóri
Dagskrá

1.Umhverfis- og náttúruverndarnefnd - 6

Málsnúmer 2511012FVakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 6. fundar umhverfis- og náttúruverndarnefndar.
Lagt fram til kynningar.

2.Atvinnu- og nýsköpunarnefnd (SH) - 6

Málsnúmer 2511009FVakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 6. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar.
Lagt fram til kynningar.
Til máls tók RMR

3.Safna- og menningarmálanefnd - 6

Málsnúmer 2511008FVakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 6. fundar safna- og menningarmálanefndar.
Lagt fram til kynningar.

4.Æskulýðs- og íþróttanefnd (SH) - 5

Málsnúmer 2511007FVakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 5. fundar æskulýðs- og íþróttanefndar.
Lagt fram til kynningar.

5.Skóla- og fræðslunefnd - 23

Málsnúmer 2511004FVakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 23. fundar skóla- og fræðslunefndar.
Lagt fram til kynningar.

6.Skipulagsnefnd - 37

Málsnúmer 2511014FVakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 37. fundar skipulagsnefndar.
Lagt fram til kynningar.
Til máls tóku: RMR JBSJ

7.Bæjarráð - 39

Málsnúmer 2512001FVakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 39. fundar bæjarráðs.
Lagt fram til kynningar.

8.Hafnarstjórn (SH) - 9

Málsnúmer 2511005FVakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 9. fundar hafnarstjórnar.
Lagt fram til kynningar.

9.Öldungaráð - 8

Málsnúmer 2511010FVakta málsnúmer

Lögð fram 8. fundargerð öldungaráðs.
Lagt fram til kynningar.

10.Hreinsun og fegrun umhverfis í Skipavík

Málsnúmer 2005059Vakta málsnúmer

Sveitarfélagið Stykkishólmur leggur ríka áherslu á að bæjarumhverfi sé snyrtilegt, öruggt og vel við haldið. Slíkt umhverfi styrkir ímynd og aðdráttarafl bæjarins, stuðlar að jákvæðri upplifun íbúa og gesta og endurspeglar virðingu fyrir náttúru og samfélagi. Regluleg umhirða og ábyrg umgengni við opin svæði eru jafnframt lykilþættir í markmiðum sveitarfélagsins í þessum efnum.



Hafnarstjórn hefur á undanförnum árum lagt ríka áherslu á að ráðist verði í átak til fegrunar og snyrtingar á hafnarsvæðinu við Skipavíkurhöfn, einkum með tilliti til báta og vagna sem hafa staðið óhreyfðir um lengri tíma og jafnvel legið undir skemmdum.



Á 53. fundi umhverfis- og náttúruverndarnefndar var fjallað um sama málefni. Nefndin taldi skynsamlegt að hvetja fyrirtæki og einstaklinga til ábyrgðar og góðrar umhirðu í sínu nærumhverfi, auk þess sem bent var á heimildir heilbrigðisnefndar til að hlutast til um fjarlægingu lausafjármuna, þar á meðal númeralausra bifreiða og bílflaka.



Í framhaldi af þessu samþykkti hafnarstjórn á 5. fundi sínum að leita formlegs samstarfs við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands um hreinsun hafnarsvæðisins við Skipavík, í samræmi við framangreindar tillögur, og að unnið verði að því að fjarlægja báta, tæki og önnur farartæki sem ekki eru í notkun.



Sveitarfélagið hefur unnið í samræmi við þessar áherslur síðustu ár, en ljóst er að þörf er á frekari eftirfylgni og aðgerðum til að ná fram markvissum og varanlegum árangri. Sveitarfélagið vill ganga á undan með góðu fordæmi og tryggja að hafnarsvæðið, sem og önnur svæði í eigu þess, séu snyrtileg, örugg og vel við haldið. Snyrtilegt og vel skipulagt umhverfi stuðlar að jákvæðri ásýnd bæjarins, bætir öryggi og hvetur íbúa, fyrirtæki og gesti til að sýna sama metnað í umgengni og umhverfisvernd.



Á 37. fundi bæjarráðs var lögð tillaga um að bæjarráð veitti starfsmönnum sveitarfélagsins auknar heimildir til ákvarðanatöku um fjarlægingu lausafjármuna af svæðum í eigu eða umsjón sveitarfélagsins. Bæjarráð samþykkti á fundinum að veita starfsmönnum sveitarfélagsins, sem starfa á eignasjóði, þjónustumiðstöð og hafnarsjóði, auknar heimildir til ákvarðanatöku um að fjarlægja lausafjármuni og annað óæskulegt af opnum svæðum og svæðum í eigu eða umsjón sveitarfélagsins, í því skyni að tryggja heilnæmt, snyrtilegt og öruggt umhverfi í sveitarfélaginu.



Í kjölfar fyrri afgreiðslna hafnarstjórnar, bæjarráðs og bæjarstjórnar hefur sveitarfélagið á síðustu mánuðum, undir forystu hafnarvarðar, ráðist í umfangsmikla tiltekt á svæðinu. Með þessum aðgerðum hefur ásýnd og öryggi svæðisins stórbatnað og er verkefnið í samræmi við áherslur sveitarfélagsins um snyrtilegt bæjarumhverfi.



Á 9. fundi sínum fagnaði hafnarstjórn þeim sýnilega árangri sem náðst hefur í tiltekt og fegrun hafnarsvæðisins við Skipavíkurhöfn á undanförnum mánuðum. Hafnarstjórn lagði áherslu á áfram verði haldið á þessari braut og þannig tryggt að hafnarsvæðið haldist áfram snyrtilegt. Hafnarstjórn hvatti til þess að leitað verði samstarfs milli sveitarfélagsins, Íslenska gámafélagsins og lóðarhafa um tiltekt á atvinnulóðum á svæðinu.
Bæjarstjórn tekur undir með hafnarstjórn og þakkar starfsfólki fyrir þann árangur sem náðst hefur í tiltekt og fegrun hafnarsvæðisins við Skipavíkurhöfn á undanförnum mánuðum og misserum.
Samþykkt samhljóða.
Til máls tók: ÞE

11.Reglubundið eftirlit Umhverfis- og orkustofnunar

Málsnúmer 2511011Vakta málsnúmer

Lögð fram bréf og skýrsla úr reglubundnu eftirliti Umhverfis- og orkustofnunar á urðunarstað sveitarfélags Stykkishólms við Ögur, sem fram fór þann 29. ágúst 2025.
Lagt fram til kynningar.

12.Norska húsið - Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla

Málsnúmer 2511014Vakta málsnúmer

Lögð fram ársskýrsla 2024 fyrir Norska húsið - Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla.
Lagt fram til kynningar.

13.Vitar í Víkurhverfi og fleiri stöðum

Málsnúmer 2401036Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga Gunnlaugs Lárussonar um endurbyggingu vita sem stóð ofan við Daddavík til þess að varðveita sögu hans og fólksins sem annaðist hann.



Safna- og menningarmálanefnd þakkaði á 6. fundi sínum fyrir ítarlegt og áhugavert erindi og tók undir mikilvægi þess að varðveita sögu vitans og þeirra sem sinntu honum.



Umhverfis- og náttúruverndarnefnd þakkaði einnig á 6. fundi sínum fyrir framlagða tillögu og tók undir með safna- og menningarmálanefnd. Nefndin lýsti yfir áhuga á að verkefnið verði tekið til frekari skoðunar, meðal annars með tilliti til menningarsögulegs gildis, mögulegra



Æskulýðs- og íþróttanefnd lýsti, á 5. fundi sínum, yfir jákvæðni í garð verkefnisins og hvatti til þess að sett verði upp fræðsluskilti við gönguleiðir þar sem umræddir vitar voru staðsettir.



Bæjarráð staðfesti, á 39. fundi sínum, afgreiðslur umhverfis- og náttúruverndarnefndar, safna- og menningarmálanefndar og æskulýðs- og íþróttanefndar.



Hafnarstjórn þakkaði, á 9. fundi sínum, fyrir áhugavert erindi og tók undir með safna- og menningarmálanefnd að mikilvægt sé að varðveita sögu vitanna og þeirra sem sinntu þeim.
Lagt fram til kynningar.

14.Ársskýrsla Amtsbókasafnsins í Stykkishólmi 2023

Málsnúmer 2411012Vakta málsnúmer

Ársskýrsla Amtsbókasafnsins lögð fram til kynningar.
Lagt fram til kynningar.

15.Bygging á félagsaðstöðu við Fákaborg 1

Málsnúmer 2511010Vakta málsnúmer

Lagt fram á ný erindi frá Hesteigendafélagi Stykkishólms. Bæjarráð óskaði á 38. fundi sínum eftir að fá fulltrúa HEFST á fund ráðsins til að ræða fyrirliggjandi hugmyndir.



Bæjarráð þakkaði á 39. fundi sínum fulltrúum Hesteigendafélags Stykkishólms fyrir upplýsandi og góða kynningu á fyrirhugaðri uppbyggingu félagsaðstöðu við Fákaborg 1. Bæjarráð tók jákvætt í framtíðarsýn félagsins og undir þær metnaðarfullu hugmyndir sem fram komu um eflingu aðstöðu fyrir hestaíþróttir í sveitarfélaginu.



Bæjarráð hrósaði félaginu fyrir vandaðan undirbúning málsins, en fyrir liggja ítarleg gögn sem meðal annars fela í sér greinargerð um starfsemi og fjárhag félagsins, kostnaðaráætlun verkefnisins og drög að teikningum. Gögnin gefa greinargóða mynd af verkefninu, markmiðum þess og mögulegum samfélagsávinningi.



Bæjarráð lýsti yfir vilja til að eiga áframhaldandi samtal við félagið um mögulegt samstarf og fól bæjarstjóra að funda með félaginu um næstu skref. Bæjarstjóra var jafnframt falið að leggja fram drög að mögulegu samkomulagi og/eða valkostum í framhaldi af þeim viðræðum, til frekari umfjöllunar í bæjarráði.



Bæjarráð vísaði málinu jafnframt til vinnu við fjárhagsáætlun 2026 eða til vinnu við fyrsta viðauka á næsta ári, eftir því sem við á.



Afgreiðsla bæjarráðs er lögð fram til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

Samþykkt með 6 atkvæðum.

Ragnar Már situr hjá.

16.Sjálfbærnistefna Snæfellsness

Málsnúmer 2402022Vakta málsnúmer

Lögð fram til samþykktar sjálfbærnistefna Snæfellsness ásamt aðgerðaráætlun og tengdum gögnum.



Umhverfis- og náttúruverndarnefnd tók framlagða sjálfbærnistefnu Snæfellsness og aðgerðaráætlun til umfjöllunar á 6. fundi sínum og lagði til við bæjarstjórn að samþykkja sjálfbærnistefnuna og eðli aðgerðanna.



Bæjarráð samþykkti, á 39. fundi sínum, sjálfbærnistefnuna og eðli aðgerðanna og vísaði málinu til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

17.Ágangur búfjár - Kljá

Málsnúmer 2408009Vakta málsnúmer

Málefni ágangsbúfjár í sveitarfélaginu voru tekin til umræðu á ný á 39. fundi bæjarráðs.



Bæjarráð staðfesti, á 25. fundi sínum, málsmeðferð og viðbrögð sveitarfélagsins vegna málsins og frestaði afgreiðslu þar sem umbeðnar upplýsingar láu ekki fyrir.



Bæjarráð samþykkir tillögu að svari, á 39. fundi sínum, og vísaði afgreiðslu sinni til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

18.Ágangur búfjár - Hrísakot og Hrísafell

Málsnúmer 2408007Vakta málsnúmer

Málefni ágangsbúfjár í sveitarfélaginu voru tekin til umræðu á ný á 39. fundi bæjarráðs.



Bæjarráð staðfesti, á 25. fundi sínum, málsmeðferð og viðbrögð sveitarfélagsins vegna málsins og frestaði afgreiðslu þar sem umbeðnar upplýsingar láu ekki fyrir.



Bæjarráð samþykkir tillögu að svari, á 39. fundi sínum, og vísaði afgreiðslu sinni til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða

19.Daddavík 3

Málsnúmer 2502026Vakta málsnúmer

Lagður fram lóðarleigusamningur, ásamt lóðarblaði, fyrir Daddavík 3.



Bæjarráð samþykkti samninginn, á 39. fundi sínum, og vísaði honum til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

20.Bauluvík 1

Málsnúmer 2511012Vakta málsnúmer

Lagður fram lóðarleigusamningur, ásamt lóðarblaði, fyrir Bauluvík 1.



Bæjarráð samþykkti samninginn, á 39. fundi sínum, með fyrirvara um að skilyrði fyrir undirritun séu uppfyllt og vísaði honum til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tók: RMR

21.Sjávarútvegsstefna og skelbætur

Málsnúmer 2312008Vakta málsnúmer

Á 6. fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar ítrekaði nefndin fyrri afstöðu sína og bæjarstjórnar um að skelbætur séu ein af grunnstoðum atvinnulífs og byggðafestu í Stykkishólmi og verði áfram veittar fyrirtækjum við Breiðafjörð og að handhafar skelbóta fái í stað bótanna varanlegan nýtingarrétt í aflahlutdeild sem verði án framsalsréttar og krafa um veiðar og vinnslu bundin við þá staði við Breiðafjörð þar sem veiðarnar fóru fram á sínum tíma. Nefndin hafnaði alfarið öllum áformum um að skelbætur verði skertar eða lagðar niður, enda væri slíkt verulega skaðlegt fyrir atvinnulíf sveitarfélagsins, tekjur þess og samfélagið í heild.



Nefndin lýsti alvarlegum áhyggjum af því að reglugerð um skelbætur hafði enn ekki verið gefin út og taldi óásættanlegt að málið hafi dregist svo lengi. Þá benti nefndin á að ráðherra hafi ekki átt samráð við sveitarfélagið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, þótt um sé að ræða eitt mikilvægasta byggðamál sem snertir sveitarfélagið, þar sem tugir starfa eru í húfi.



Nefndin áréttaði að þingmenn kjördæmisins, og sérstaklega ráðherra sem jafnframt er þingmaður Norðvesturkjördæmis, verði að standa vörð um hagsmuni samfélagsins í Stykkishólmi og láta sig málið varða. Ef ætlunin er, eins og framganga ríkisins gefur sterklega til kynna, að fella skelbæturnar niður, verður ráðherra að horfast í augu við alvarleika þeirrar ákvörðunar. Það er óhugsandi og í raun algjörlega óásættanlegt að slík aðgerð yrði framkvæmd á ráðherravakt þingmanns kjördæmisins.



Nefndin skoraði á innviðaráðherra, sem fer með málaflokkinn, og þingmenn kjördæmisins að bregðast tafarlaust við, tryggja útgáfu reglugerðar án frekari tafa og vinna að farsælli og sanngjarnri niðurstöðu sem tryggir að skelbætur haldist áfram í Stykkishólmi og rekstraröryggi fyrirtækja og samfélags verði ekki stefnt í hættu.



Bæjarstjórn tók á 42. fundi sínum undir með atvinnu- og nýsköpunarnefnd.



Lögð er nú fram ný reglugerð sem gefin var út 28. nóvember sl. ásamt tengdum gögnum.



Hafnarstjórn lýsti, á 9. fundi sínum, yfir þungum áhyggjum af þeirri miklu skerðingu skelbóta sem birtist í nýútgefinni reglugerð. Slík skerðing mun óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á landanir, umsvif og tekjur hafnarinnar og þar með á rekstur og þjónustu hafnarinnar til skemmri og lengri tíma. Hafnarstjórn áréttaði mikilvægi skelbóta þannig að tryggja megi stöðugt rekstrarumhverfi fyrir útgerðir og vinnslu í Stykkishólmi og hvatti innviðaráðherra til að endurskoða reglugerðina með hagsmuni atvinnulífs, þ.m.t. starfsfólk, og hafnarinnar í Stykkishólmi að leiðarljósi í samræmi við ítrekaðar álytanir sveitarfélagsins.



Bæjarráð samþykkti, á 39. fundi sínum, fyrirliggjandi ályktun varðandi skelbætur og vísaði henni til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn Stykkishólms lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri ákvörðun sem birtist í nýrri reglugerð um ráðstöfun afla í byggðakerfinu, dags. 28. nóvember 2025, þar sem skelbætur hafa verið skertar verulega frá fyrri árum. Um er að ræða ákvörðun sem gengur þvert á ítrekaðar ályktanir og bókanir atvinnu- og nýsköpunarnefndar og bæjarstjórnar Stykkishólms, þar sem bent hefur verið á að skelbætur séu og hafi um langa hríð verið ein af grunnstoðum atvinnulífs og byggðafestu í Stykkishólmi.

Bæjarstjórn bendir á að ljóst sé að ákvörðunin muni hafa víðtæk neikvæð áhrif á sjávarútveg, fiskvinnslu og afleidd störf í samfélaginu. Bæjarstjórn áréttar að ákvarðanir sem eru til þess fallnar að hafa mjög mikil og alvarleg áhrif á rekstrargrundvöll þeirra fyrirtækja sem reiða sig á skelbætur og þar með þau störf sem þar eru unnin, hafi í framhaldinu óhjákvæmilega neikvæð áhrif á tekjur sveitarfélagsins og þar með þjónustustig og búsetuskilyrði í sveitarfélaginu.

Bæjarstjórn harmar jafnframt að ekkert samráð hafi átt sér stað við sveitarfélagið áður en ákvörðun um skerðingu var tekin, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, og það þrátt fyrir að um sé að ræða eitt mikilvægasta byggðamál sveitarfélagsins þar sem tugir starfa eru í húfi.

Bæjarstjórn skorar á innviðaráðherra, sem jafnframt er þingmaður Norðvesturkjördæmis og ber ábyrgð á málaflokknum, að bregðast þegar í stað við og draga ákvörðunina til baka, enda verður vart gert ráð fyrir því að markmið hans sé að veikja samfélagið hér við Breiðafjörðinn.

Bæjarstjórn óskar enn og aftur eftir formlegum viðræðum við innviðaráðherra og jafnframt við þingmenn kjördæmisins hið allra fyrsta, enda óhugsandi að jafn viðamikil og samfélagslega þýðingarmikil ákvörðun verði látin standa án frekari umfjöllunar og umræðu um mögulegar mótvægisaðgerðir.

Samþykkt samhljóða.

22.Stefnumörkun opinna grænna svæða innan bæjarmarka í Stykkishólmi

Málsnúmer 2110019Vakta málsnúmer

Lagt fram erindisbréf starfshóps um stefnumörkun opinna grænna svæða innan bæjarmarka í Stykkishólmi.



Bæjarstjórn samþykkti á 30. fundi sínum að fela umhverfis- og nátturuverndarnefnd að halda áfram vinnu starfshópsins í samræmi við fyrirliggjandi erindisbréf.



Skipulagsnefnd gerði, á 26. fundi sínum, fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við fyrirliggjandi vinnu og lýsti yfir vilja til þess að fá til skoðunar hugmyndir til umsangar á síðari stígum. Skipulagsnend lagði áherslu á að leitað verði umsagnar Rarik áður en farið verði í gróðursetningar á svæðum þar sem finna má lagnaleiðir.



Bæjarráð staðfesti, á 29. fundi sínum, afgreiðslu skipulagsnefndar og vakti athygli umhverfis- og náttúruverndarnefnd á afgreiðslu skipulagsnefndar.



Málefnið var tekið til umfjöllunar á 5. fundi umhverfis- og náttúruverndarnefndar, og lagaðar fram tillögur að áningarstöðum.



Umhverfis- og náttúruverndarnefnd samþykkti á 5. fundi sínum fyrirliggjandi staðsetningar áningastaða og fangar þeim áformum sem liggja fyrir. Umhverfis- og náttúruverndarnefnd lagði jafnframt til á 5. fundi sínum að farið verði í vinnu við að móta heilstæða tillögu að staðsetningu bekkja annars vegar í bæjarlandi og hins vegar innan þéttbýlis. Umhverfis- og náttúruverndarnefnd vísar að öðru leyti málinu til frekari vinnslu í nefndinni.



Bæjarráð staðfesti á 32. fundi sínum afgreiðslu umhverfis- og náttúruverndarnefndar.



Bæjarstjórn staðfesti á 35. undi sínum jafnframt afgreiðslur umhverfis- og náttúruverndarnefndar og bæjarráðs.



Málið var tekið fyrir að nýju í umhverfis- og náttúruverndarnefnd á 6. fundi nefndarinnar.



Umhverfis- og náttúruverndarnefnd ítrekaði þá fyrri ákvarðanir sínar og samþykktir varðandi staðsetningu áningastaða og vinnu við heildstæða tillögu um staðsetningu bekkja í sveitarfélaginu.



Nefndin fagnaði þeim gróðursetningum sem farið hafa fram á undanförnum árum í Stykkishólmi og taldi þær mikilvægt framlag til að styrkja græn svæði sveitarfélagsins. Gróðursetningin mun til framtíðar hafa jákvæð áhrif, meðal annars mun hún koma til með að skapa skjólgott og vistvænt umhverfi, sem eykur gæði útivistar og samveru í Stykkishólmi.



Umhverfis- og náttúruverndarnefnd lagði jafnframt ríka áherslu á að verkefni er lúta að gróðursetningu og umhirðu trjábeða verði skýrlega skilgreind í verkefnum áhaldahúss yfir sumartímann. Er það mat nefndarinnar að mikilvægt sé að ábyrgð á þessari vinnu verði sett á einn tilgreindan starfsmann til að tryggja samræmda framkvæmd og góða umhirðu þeirrar verulegu fjárfestingar sem sveitarfélagið hefur lagt í síðustu ár.



Bæjarráð staðfesti, á 39. fundi sínum, afgreiðslu umhverfis- og náttúruverndarnefndar og tók undir mikilvægi þess að vinna áfram að stefnumörkun opinna grænna svæða, þar með talið staðsetningu áningastaða og mótun tillögu um staðsetningu bekkja. Bæjarráð tók jafnframt undir áherslur nefndarinnar um að skilgreina ábyrgð á gróðursetningu og umhirðu innan áhaldahúss og fól bæjarstjóra að vinna að því verkefni í samvinnu við verkstjóra áhaldahúss.



Afgreiðsla bæjarráðs er lögð fram til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

23.Gönguleiðir og forgangsröðun göngustíga

Málsnúmer 1904037Vakta málsnúmer

Lagðar fram tillögur að göngustígatengingum innanbæjar og göngustígum í bæjarlandinu í samræmi við fyrri umræður þar um ásamt vinnugögnum vegna hönnunar á gönguleiðum í sveitarfélaginu.



Við gerð fjárhagsáætlunar haustið 2024 vegna áætlunar 2025 lagði umhverfis- og náttúruverndarnefnd árherslu á áframhaldandi uppbyggingu á göngustígum. Nefndin lagði sérstaka áherslu á göngutengingu við strandlengju Kirkjustígs og Daddavíkur áfram að Grensás, tengingu Sundabakka við Reitarveg og áfram holtið og tengingu í enda Hjallatanga niður að reiðveg.



Umhverfis- og náttúruverndarnefnd fagnaði, á 5. fundi sínum, þeim tillögum sem liggja fyrir og samþykkti þær.



Bæjarráð staðfesti, á 32. fundi sínum, afgreiðslu umhverfis- og náttúruverndarnefndar og fól skipulagsfulltrúa að vinna að tillögu að mótun stefnu um staðsetningu bekkja í sveitarfélaginu í heild sinni annars vegar og hinsvegar í þéttbýlinu.



Bæjarstjórn staðfesti á 35. fundi sínum afgreiðslur umhverfis- og náttúruverndarnefndar og bæjarráðs.



Málið tekið fyrir að nýju á 6. fundi umhverfis- og náttúruverndarnefndar. Á fundinum ítrekaði nefndin fyrri afgreiðslur sínar um forgangsröðun og uppbyggingu göngustíga og fagnaði þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað í sveitarfélaginu á síðustu árum. Nefndin styður áframhaldandi uppbyggingu göngustíga í þéttbýli og í bæjarlandinu.



Umhverfis- og náttúrverndarnefnd benti jafnframt á mikilvægi þess að koma upp góðri lýsingu frá Stykkishólmsvegi að skógræktinni í Grensás.



Bæjarráð staðfesti, á 39. fundi sínum, afgreiðslu umhverfis- og náttúruverndarnefndar um forgangsröðun og áframhaldandi uppbyggingu göngustíga í sveitarfélaginu. Bæjarráð tók undir mikilvægi helstu tenginga og áréttar sérstaklega þörf fyrir bætta lýsingu við skógræktina í Grensás.



Afgreiðsla bæjarráðs er lögð fram til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

24.Sögu og menningararfur í Stykkishólmi - Menningartengd ferðaþjónusta

Málsnúmer 1905057Vakta málsnúmer

Lögð fram gögn um forsögu verkefnisins og hugmyndir um eflingu átthagafræðslu, sýnileika sögunnar og menningartengdrar ferðaþjónustu í Stykkishólmi, sem hafa verið til umfjöllunar í safna- og menningarmálanefnd frá árinu 2019. Á þeim tíma hefur verið lögð áhersla á merkingar, fræðsluefni, söguskilti, gönguleiðir og samstarf við Minjastofnun, auk þess að virkja íbúa, félagasamtök og fyrirtæki til þátttöku.



Í kjölfarið hlaut sveitarfélagið styrk á árunum 2021-2023 til heildarhönnunar gönguleiða og áningastaða á Búðanesi og Hjalltanga, þar sem unnið er með menningarminjar svæðisins og sögu upphafs verslunar í Stykkishólmi. Verkefnið hefur verið þróað í nánu samstarfi við Minjastofnun Íslands.



Fyrir 6. fund safna- og menningarmálanefndar voru lögð fram endanleg gögn varðandi hönnun söguleiðar og áningastaða á Búðanesi og Hjalltanga, auk hugmynda um frekari fræðslu, skiltagerð og uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.



Safna- og menningarmálanefnd þakkaði á 6. fundi sínum fyrir framlagðar upplýsingar og kynningu á hönnun söguleiðar og áningastaða á Búðanesi og Hjalltanga. Nefndin tók jákvætt í framvindu verkefnisins og telur það mikilvægt framlag til eflingar átthagafræðslu, sýnileika sögunnar og menningartengdrar ferðaþjónustu í sveitarfélaginu. Nefndin óskaði eftir að unnið verði áfram að verkefninu í samræmi við framlagðar hugmyndir í nánu samstarfi við Minjastofnun. Þá óskaði nefndin eftir að lagðar verði fram frekari upplýsingar um áætlaðan kostnað og framkvæmdaáætlun við áframhaldandi uppbyggingu.



Í ljósi mikilvægi verkefnisins fyrir menningarsögulegar minjar taldi nefndin jafnframt mikilvægt að næsti áfangi, þ.e. uppbygging söguleiðar og áningastaða, verði settur á verkefnaáætlun Landsáætlunar um vernd og uppbyggingu innviða fyrir náttúru og menningarsögulegar minjar.



Umhverfis- og náttúruverndarnefnd tók, á 6. fundi sínum, undir með safna- og menningarmálanefnd. Umhverfis- og náttúruverndarnefnd þakkaði jafnframt fyrir framlagða kynningu á hönnun söguleiðar og áningastaða á Búðanesi og Hjalltanga. Nefndin tók jákvætt í framvindu verkefnisins og taldi það mikilvægt framlag til eflingar átthagafræðslu og sýnileika sögunnar.



Bæjarráð staðfesti, á 39. fundi sínum, afgreiðslur safna- og menningarmálanefndar og umhverfis- og náttúruverndarnefndar og tók undir mikilvægi verkefnisins um söguleið og áningastaði á Búðanesi og Hjallatanga.



Afgreiðsla bæjarráðs er lögð fram til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

25.Innleiðing á skráningu á grunnfærni nemenda

Málsnúmer 2509027Vakta málsnúmer

Tillögur starfshóps um fyrirkomulag úthlutunar stoðþjónustulagðar lagðar fram til formlegrar afgreiðslu.



Skóla- og fræðslunefnd samþykkir, á 23. fundi sínum, áframhaldandi vinnu og tillögur um fyrirkomulag úthlutunar á stoðþjónustu til barna í sveitarfélaginu.



Bæjarráð samþykkti, á 39. fundi sínum, tillögur Ásgarðs og starfshópsins um fyrirkomulag úthlutunar stoðþjónustu, þ.m.t. verklag og öll fylgigögn, og vísaði málinu til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

26.Laxártorg við Aðalgötu

Málsnúmer 2509009Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að hönnun Laxártorgs við Aðalgötu í Stykkishólmi. Bæjarráð tók jákvætt í framlagða hugmynd á 26. fundi sínum og vísaði málinu til umsagnar skipulagsnefndar.



Skipulagsnefnd fjallaði um tillöguna á 34. fundi sínum, tók jákvætt í hana og lagði áherslu á að frágangi torgsins yrði sinnt á vandaðan og snyrtilegan hátt.



Safna- og menningarmálanefnd tók, á 6. fundi sínum, jákvætt í fyrirliggjandi hugmyndir um Laxártorg við Aðalgötu. Nefndin lagði áherslu á að frágangur torgsins endurspegli sögulegt yfirbragð miðbæjar Stykkishólms. Í því samhengi taldi nefndin æskilegt að gert verði ráð fyrir grjóthleðslu í hefðbundnum stíl með grasi á toppnum, líkt og einkennt hefur manngerðar hleðslur í elsta hluta bæjarins. Slík nálgun stuðlar að því að torgið verði bæði snyrtilega útfært og í sátt við menningararf og sögu Stykkishólms.



Bæjarráð vísaði málinu á 37. fundi sínum til frekari vinnslu í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins.



Bæjarráð tók, á 39. fundi sínum, undir áherslur nefnda um að frágangur svæðisins endurspegli sögulegt yfirbragð miðbæjar Stykkishólms.



Bæjarráð fól bæjarstjóra í samvinnu við skipulagsfulltrúa að vinna áfram að málinu í samræmi við fyrirliggjandi tillögur og þær ábendingar sem fram komu á fundum nefndanna, þar á meðal varðandi grjóthleðslu í hefðbundnum stíl. Tímasetningu á framkvæmdum var vísað til við vinnu við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.



Afgreiðsla bæjarráðs er lögð fram til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

27.Samkomuhúsið í Stykkishólmi við Aðalgötu 6

Málsnúmer 2006020Vakta málsnúmer

Málefni samkomuhússins við Aðalgötu 6 tekin voru tekin til umræðu á 6. fundi safna- og menningarmálanefndar.



Safna- og menningarmálanefnd þakkaði fyrir framlagðar upplýsingar, þar á meðal endurgerðaráætlun Glámu-Kím frá 2014 og minnisblað bæjarstjóra um stöðu, ástand og mögulegar leiðir varðandi framtíð Samkomuhússins við Aðalgötu 6.



Nefndin tók undir þau sjónarmið sem fram koma í báðum gögnum um að húsnæðið sé mikilvægar menningarminjar, lykilhluti bæjarmyndarinnar og hafi ríka sögulega og félagslega þýðingu fyrir Hólmara. Nefndin taldi jafnframt ljóst af framlögðum gögnum að húsið þarfnist gagngerra endurbóta á næstu árum til að tryggja varðveislu þess og möguleika á áframhaldandi notkun.



Nefndin lagði áherslu á að unnið verði áfram að undirbúningi styrkumsókna til húsafriðunarsjóðs og annarra viðeigandi sjóða, í samræmi við hvatningu Minjastofnunar, og að uppfærðar kostnaðaráætlanir og fjármögnunarleiðir verði unnin á grundvelli fyrirliggjandi teikninga og ástandsgreininga.



Með vísan til þeirra valkosta sem raktir eru í fyrirliggjandi gögnum taldi nefndin jafnframt mikilvægt að opnað verði á þann möguleika að selja eða framselja húsið, verði ekki unnt að tryggja fullnægjandi fjármögnun til endurbóta á næstu árum. Slíkur valkostur kæmi þó einungis til greina með þeim skilyrðum og/eða kvöðum að endurgerð fari fram í samræmi við fyrirliggjandi hönnunargögn og að allar helstu breytingar verði háðar samþykki sveitarfélagsins. Þá taldi nefndin jafnframt mikilvægt að framtíðarnotkun hússins verði höfð að leiðarljósi við sölu húsnæðisins þannig að tryggt verði, eftir atvikum með kvöðum, að húsnæðið geti áfram nýst að einhverju marki undir menningarstarfsemi. Í þessu sambandi er mikilvægt að horfa til annarra sambærilegra fordæma sem liggja fyrir annars staðar á landinu þar sem tekist hefur vel til.



Safna- og menningarmálanefnd felur formanni nefndarinnar umboð að afla framangreindra gagna, kostnaðaráætlana, sambærilegra fordæma og mat á valkostum fyrir áframhaldandi umræðu nefndarinnar um málið. Í framhaldinu væri mikilvægt að ræða mögulega valkosti á opnum íbúafundi. Stefnt verði að fundi í nefndinni fyrir lok febrúar til þess að ræða næstu skref.



Bæjarráð þakkaði safna- og menningarmálanefnd, á 39. fundi sínum, fyrir yfirgripsmikla umfjöllun um framtíð Samkomuhússins við Aðalgötu 6. Bæjarráð tók undir að húsið sé mikilvægar menningarminjar og hluti af bæjarmynd og sögu Stykkishólms og að fyrirliggjandi gögn sýni að endurbætur á húsinæðinu séu nauðsynlegar á næstu árum.



Bæjarráð staðfesti að öðru leyti afgreiðslu nefndarinnar.
Bæjarstjórn Stykkishólms þakkar fyrir ítarlega umfjöllun um Samkomuhúsið við Aðalgötu 6 og leggur áherslu á að húsið sé mikilvægar menningarminjar, hluti af bæjarmynd og sögu Stykkishólms.

Bæjarstjórn telur jafnframt mikilvægt að ráðist verði í viðhald og endurbætur á húsnæðinu þannig að koma megi því í samfélagslega notkun sem fyrst.

Bæjarstjórn staðfestir að öðru leyti afgreiðslu bæjarráðs og safna- og menningarmálanefndar.
Samþykkt samhljóða.

28.Framtíðaráform Vatnasafns

Málsnúmer 2010035Vakta málsnúmer

Lögð fram gögn varðandi framtíðarform og þróun Vatnasafns. Jafnframt er lagt fram minnisblað bæjarstjóra, unnið að beiðni formanns nefndarinnar, um fund bæjarstjóra og forsætisráðherra vegna málsins, ásamt öðrum minnisblöðum og gögnum sem tengjast málinu.



Safna- og menningarmálanefnd lýsti, á 4. fundi sínum, skýrum vilja til að ná samningi um framtíð Vatnasafns í Stykkishólmi. Í því samhengi lagði nefndin ríka áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélagið fái viðeigandi stuðning til uppbyggingar menningarinnviða í samræmi við fyrirliggjandi gögn, enda sé slíkur stuðningur lykilatriði í ljósi umfangsmikilla og langtímasamninga sem nú liggja fyrir um rekstur safnsins.



Nefndin tók jafnframt undir efni minnisblaðs bæjarstjóra, minnisblað verkefnastjóra menningarmála á Vesturlandi og fundargerð vinnuhóps um framtíðarfyrirkomulag safnsins.



Bæjarráð samþykkti á 24. fundi sínum afgreiðslu nefndarinnar og vísaði málinu áfram til frekari vinnu í vinnuhópi um framtíð Vatnasafns.



Safna- og menningarmálanefnd þakkaði, á 6. fundi sínum, fyrir framlagðar upplýsingar, þar á meðal minnisblað bæjarstjóra, drög að nýjum samningi um Vatnasafnið og minnisblað verkefnastjóra menningarmála á Vesturlandi. Nefndin taldi að framangreind gögn varpi skýru ljósi á bæði menningarlegt gildi Vatnasafnsins og þau umfangsmiklu fjárhagslegu og rekstrarlegu verkefni sem tengjast framtíð safnsins.



Nefndin ítrekaði fyrri afstöðu sína, líkt og fram kom á 4. fundi nefndarinnar, um að mikilvægt sé að ná samningi um framtíð Vatnasafnsins í Stykkishólmi. Í því samhengi lagði nefndin þunga áherslu á að sveitarfélagið fái viðeigandi stuðning til uppbyggingar menningarinnviða og til að mæta þeim langtímasamningsskuldbindingum sem fram koma í nýjum samningsdrögum.



Nefndin tók undir þau sjónarmið sem fram koma í minnisblaði bæjarstjóra um að utanaðkomandi fjármögnun sé nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að gera bindandi samning til lengri tíma. Nefndin tók jafnframt undir að tækifæri til að efla menningartengda ferðaþjónustu og samfélagslega virkni safnsins séu veruleg og vægi þess innan samtímalistar er ómetanlegt, en að viðhaldsþörf húseignarinnar og listaverksins kalli á aðkomu ríkisins, líkt og rakið er í framlögðum gögnum.



Safna- og menningarmálanefnd hvatti til þess að vinnuhópur um framtíð Vatnasafns fundi með annars vegar fulltrúum ríkisins og hins vegar fulltrúum listamannsins til að fara yfir stöðu málsins. Með vísan til framangreinds samþykkir nefndin að vísa málinu áfram til frekari vinnu í vinnuhópi um framtíð Vatnasafns og óskaði eftir að næstu skref í samningsgerð verði lögð fyrir nefndina þegar þau liggja fyrir.



Bæjarráð þakkaði, á 39. fundi sínum, fyrir framlagðar upplýsingar og ítarlega umfjöllun safna- og menningarmálanefndar um framtíðaráform Vatnasafnsins. Bæjarráð tók undir afstöðu nefndarinnar um að utanaðkomandi fjármögnun sé lykilforsenda þess að unnt sé að gera langtímasamning um rekstur safnsins. Bæjarráð staðfesti að öðru leyti afgreiðslu nefndarinnar.



Bæjarráð samþykki að vísa málinu áfram til áframhaldandi vinnu starfshóps um framtíð Vatnasafnsins og fól bæjarstjóra jafnframt að fylgja málinu eftir gagnvart ríkinu. Bæjarráð óskaði einnig eftir að starfshópurinn leggi fram tillögur um næstu skref í samningsgerð og aðkomu ríkisins þegar þær liggja fyrir.



Afgreiðslu málsins er vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs og safna- og menningarmálanefndar.

Samþykkt samhljóða.

29.Samgönguáætlun - Skógarstrandavegur og Stykkishólmsvegur

Málsnúmer 2306027Vakta málsnúmer

Í drögum að samgönguáætlun 2024-2038 og fimm ára aðgerðaáætlun 2024-2028 var gert ráð fyrir lagfæringum á tilteknum köflum Snæfellsnesvegar 54 um Skógarströnd. Uppfærð drög að samgönguáætlun eru væntanleg á haustþingi 2025 og brýnt að áætlunin endurspegli raunverulegan forgang vegarins.



Skógarstrandarvegur er stofnvegur samkvæmt skilgreiningu samgönguáætlunar og hluti grunnnets samgöngukerfis landsins. Vegurinn tengir Snæfellsnes við Dalabyggð og áfram við Vestfirði og Norðurland og skiptir lykilmáli fyrir búsetu, atvinnulíf, þjónustu og ferðaþjónustu á svæðinu. Núverandi ástand vegarins, sem er enn að stórum hluta malarvegur á láglendi, hamlar verulega framþróun og samræmist ekki markmiðum samgönguáætlunar um forgang grunnnetsins.



Bæjarstjórn Stykkishólms, ásamt fastanefndum sveitarfélagsins, hefur ítrekað áréttað mikilvægi Skógarstrandarvegar, líkt og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og nágrannasveitarfélög. Sveitarfélagið fagnar því að formlegur undirbúningur að þverun Álftafjarðar hafi hafist á árinu 2023 og leggur áherslu á faglegar rannsóknir á umhverfisáhrifum valkosta. Jafnframt hefur verið kallað eftir umferðarteljurum á svæðinu til að styðja við þjónustu- og forgangsröðun á grunni raunumferðar.



Með hliðsjón af framangreindu er brýnt að ný samgönguáætlun endurspegli mikilvægi vegarins: að færa skuli framkvæmdir á vegi 54 um Skógarströnd framar í áætlun, tryggja fullfjármögnun, þar á meðal fyrir þverun Álftafjarðar, og hraða framkvæmdum í samræmi við markmið um uppbyggingu grunnnets samgangna.



Lagðar er fram hugmyndir að veglínu og þverun Álftafjarðar, dags. 5. febrúar 2024, ásamt öðrum gögnum.



Skipulagsnefnd tók á 34. fundi sínum undir fyrri ályktanir sveitarfélagsins, bæjarstjórnar og bæjarráðs um mikilvægi áframhaldandi uppbyggingar Snæfellsnesvegar 54 um Skógarströnd og lagði áherslu á að vegurinn sé í forgangi við ráðstöfun fjármuna á samgönguáætlun. Skipulagsnefnd lagði áherslu á að umferðaröryggi verði haft að leiðarljósi við endanlega ákvörðun um legu vegarins, ný veglína verði samþætt aðalskipulagi sveitarfélaganna og unnin í nánu samráði við Vegagerðina og nærliggjandi sveitarfélög og að verkefninu verði tryggt fjármagn til undirbúnings og framkvæmdar. Skipulagsnefnd hvatti Dalabyggð og Vegagerðina til þess að skoða færslu á veglínu austan Álftafjarðar þannig að hún fari með ströndinni og þveri ósa Langadalsár og Setbergsár, en með því væri vegurinn með beinni veglínu, snjóléttari og einungis þyrfti að byggja eina brú í stað tveggja ef halda ætti núverandi veglínu.



Bæjarráð óskaði, á 37. fundi sínum, eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um þær tillögur sem liggja nú fyrir varðandi þverun Álftafjarðar. Bæjarráð staðfesti að öðru leyti afgreiðslu skipulagsnefndar og lagði til að bæjarstjórn samþykki fyrirliggjandi ályktun varðandi Skógarstrandarveg.



Bæjarstjórn Stykkishólms ítrekaði, á 41. fundi sínum, mikilvægi þess að uppbygging Snæfellsnesvegar 54 um Skógarströnd verði sett í forgang í nýrri samgönguáætlun. Skógarstrandarvegur er stofnvegur samkvæmt skilgreiningu samgönguáætlunar og hluti grunnnets samgöngukerfis landsins. Vegurinn tengir Snæfellsnes við Dalabyggð og áfram við Vestfirði og Norðurland og er lykilþáttur í samgöngum, búsetu, þjónustu, atvinnulífi og ferðaþjónustu á svæðinu. Núverandi ástand vegarins, sem er enn að stórum hluta malarvegur á láglendi, er óviðunandi og hamlar verulega framþróun svæðisins, auk þess sem það samræmist ekki markmiðum samgönguáætlunar um forgang grunnnetsins hvað varðar uppbyggingu og fjármögnun.



Bæjarstjórn tók undir fyrirliggjandi afgreiðslu 34. fundar skipulagsnefndar og styður þá áherslu að umferðaröryggi verði haft að leiðarljósi við endanlega ákvörðun um legu vegarins og að ný veglína verði samþætt endurskoðuðu aðalskipulagi sveitarfélagsins í nánu samráði við Vegagerðina og nærliggjandi sveitarfélög.



Með hliðsjón af framangreindu krafðist bæjarstjórn þess að framkvæmdir á Skógarstrandarvegi, þar á meðal þverun Álftafjarðar, verði fullfjármögnuð í samgönguáætlun. Tryggja þarf fjármagn bæði til undirbúnings og framkvæmdar og hraða uppbyggingu vegarins í samræmi við markmið samgönguáætlunar um uppbyggingu grunnnets samgangna á Íslandi. Bæjarstjórn lagði jafnframt áherslu á að ljúka uppbyggingu og lagningu bundins slitlags á veginum eigi síðar en árið 2029, að undanskildri veglínu sem snýr að þverun og/eða brú yfir Álftafjörð, og að framkvæmdum við þverun eða brú yfir Álftafjörð verði lokið fyrir árið 2032. Í því sambandi þarf að ljúka uppbyggingu og lagningu bundins slitlags frá Stykkishólmsvegi a.m.k. að Svelgsá á árinu 2026 eða að þeim kafla sem ný veglína tekur við. Minnt er á að uppbygging á umræddum kafla innan sveitarfélagsins var áherslumál í sameiningu Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar á árinu 2022.



Bæjarstjórn fól bæjarstjóra að koma ályktun þessari á framfæri við innviðaráðherra, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, Vegagerðina, þingmenn Norðvesturkjördæmis, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Dalabyggð og fylgja málinu eftir fyrir hönd sveitarfélagsins.



Atvinnu- og nýsköpunarnefnd tók undir fyrri ályktanir skipulagsnefndar, bæjarráðs og bæjarstjórnar. Þá ítrekaði nefndin enn og aftur fyrri ályktanir nefndarinnar um mikilvægi þess að framkvæmdir við Snæfellsnesveg 54 um Skógarströnd verði settar í forgang í nýrri samgönguáætlun og leggur í þeim efnum áherslu á að tryggt verði fjármagn til undirbúnings og framkvæmda, þ.m.t. þverunar Álftafjarðar, að hraðað verði uppbyggingu bundins slitlags og að endanleg veglína verði samþætt aðalskipulagi og unnin í nánu samráði við Vegagerðina og Dalabyggð. Áherslur þessar þurfa að endurspeglast í nýrri samgönguáætlun sem stefnt er að komi til afgreiðslu Alþingis á árinu 2026.



Atvinnu- og nýsköpunarnefnd lagði jafnframt þunga áherslu á, þar sem afgreiðslu samgönguáætlunar hefur verið frestað til ársins 2026, að Alþingi samþykki fjárheimildir fyrir lok árs 2025 til handa Vegagerðinni vegna Skógarstrandarvegar. Slíkt er nauðsynlegt til þess að unnt verði að hefja áframhaldandi framkvæmdir við Skógarstrandarveg á árinu 2026, með sérstakri áherslu á uppbyggingu vegarins innan sveitarfélagsins í samræmi við fyrirliggjandi áform.



Bæjarráð staðfesti, á 39. fundi sínum, afgreiðslu Atvinnu- og nýsköpunarnefndar og vísaði málinu til bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn Stykkishólms fagnar því að uppbygging Snæfellsnesvegar 54 um Skógarströnd og endurbætur á Stykkishólmsvegi hafi nú verið settar í forgang í fyrirliggjandi samgönguáætlun. Bæjarstjórn ítrekar þó mikilvægi vegarins enda hefur ástand lengi verið óviðunandi og haft veruleg neikvæð áhrif á umferðaröryggi, atvinnulíf, þjónustu og byggðafestu á svæðinu.

Bæjarstjórn leggur sérstaka áherslu á að niðurstaða um veglínu og þverun Álftafjarðar liggi fyrir sem allra fyrst og að umhverfismati og valkostagreiningu verði hraðað, svo framkvæmdin tefjist ekki fram yfir seinni hluta tímabils samgönguáætlunar.

Bæjarstjórn tekur undir með atvinnu- og nýsköpunarnenfnd um nauðsyn þess, þar sem afgreiðslu samgönguáætlunar hefur verið frestað til ársins 2026, að Alþingi samþykki fjárheimildir til handa Vegagerðinni vegna framkvæmda við Skógarstrandarveg og Stykkishólmsveg á árinu 2026.

Samþykkt samhljóða.

30.Innviðagjald á skemmtiferðaskip

Málsnúmer 2411027Vakta málsnúmer

Undir lok síðasta árs voru samþykktar lagabreytingar á Alþingi sem gerir m.a. ráð fyrir að leggja 2.500 króna innviðagjald á hvern farþega skemmtiferðaskipa fyrir hvern sólarhring sem siglt er við Íslands strendur. Ljóst er að álagt innviðagjald hefur þegar leitt af sér færri komur skemmtiferðaskipa til landsins og þá sérstaklega minni skipanna, sem hafa sótt heim minni byggðir á borð við Stykkishólm. Komur skemmtiferðaskipa til Stykkishólms hafa hríðlækkar í kjölfar lagabreytingarinnar sem hefur sett sjálfbærni Stykkishólmshafnar í hættu sem er alvarleg staða fyrir atvinnulíf í Stykkishólmi.



Atvinnu- og nýsköpunarnefnd lagðist, á 4. fundi sínum, gegn þeim álögum sem boðuð eru í frumvarpinu, enda fyrirvarinn of skammur fyrir slíka gjaldtöku. Nefndin taldi að ef umrædd gjöld yrðu að veruleika væru verulegar líkur á stoðunum verði kippt undan lífæð Stykkishólmshafnar með tilheyrandi þjónustuskerðingu. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd taldi nauðsynlegt að slík gjöld skili sér til nærsamfélaganna, þ.e. sveitarfélaganna.



Málið tekið til umræðu að nýju í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir varðandi komur skemmtiferðaskipa í kjölfar lögfestingar innviðagajalds á skemmtiferðarskipum.



Atvinnu- og nýsköpunarnefnd tók málið til umræðu, á 6. fundi sínum, í ljósi nýrra gagna. Ljóst er að neikvæð áhrif innviðagjaldsins eru staðfest og umtalsverð. Nefndin kallaði eftir því að þingmenn axli pólitíska ábyrgð á málinu, bæði þeir sem stóðu að samþykkt gjaldsins og þeir sem hingað til hafa ekki náð fram nauðsynlegum breytingum á Alþingi. Ábyrgðin er mikil í ljósi þeirra alvarlegu áhrifa sem gjaldið hefur nú þegar haft á atvinnulíf í Stykkishólmi, líkt og nefndin varaði við á síðasta ári.



Atvinnu- og nýsköpunarnefnd staðfesti að öðru leyti fyrri afstöðu sína og afstöðu sveitarfélagsins um að innviðagjaldið hafi verulega neikvæð áhrif á komur skemmtiferðaskipa og þar með á sjálfbærni hafnarinnar og atvinnulíf í sveitarfélaginu. Nefndin krefst þess að gjaldið verði endurskoðað án tafar.



Nefndin taldi jafnframt að verði slík gjaldtaka áfram viðhöfð þá eigi hún að renna til viðkomandi sveitarfélaga en ekki ríkisins. Það eru íbúar og innviðir þeirra svæða sem skipin koma til sem bera hitann og þungann af umferð skemmtiferðaskipa og því er réttlátt að tekjur fylgi þeim skyldum og þeirri ábyrgð.



Bæjarráð staðfesti, á 39. fundi sínum, afgreiðslu nefndarinnar.



Hafnarstjórn Stykkishólms lýsti, á 9. fundi sínum, yfir þungum áhyggjum af áhrifum innviðagjalds á komur skemmtiferðaskipa til landsins og tók undir að gjaldið hafi haft verulega neikvæð áhrif á starfsemi og sjálfbærni Stykkishólmshafnar, líkt og fækkun á komum skemmtiferðaskipa til Stykkshólms ber með sér.



Hafnarstjórn ítrekaði fyrri áhyggjur sínar og áréttaði að gjaldið hafi nú þegar haft neikvæð áhrif í för með sér sem hefur haft bein neikvæð áhrif á rekstur hafnarinnar og atvinnulíf í sveitarfélaginu.



Hafnarstjórn tók að öðru leyti undir ályktun atvinnu- og nýsköpunarnefndar.
Bæjarstjórn Stykkishólms fagnar því að meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggi til lækkun innviðagjalds á hvern farþega skemmtiferðaskipa úr 2.500 kr. í 1.600 kr. Bæjarstjórn lítur á lækkunina sem viðurkenningu á þeim alvarlegu neikvæðu áhrifum sem gjaldið hefur haft á komur skemmtiferðaskipa til landsins, ekki síst til minni hafna á borð við Stykkishólm.

Bæjarstjórn áréttar þó að jafnvel með fyrirhugaðri lækkun sé enn um verulega íþyngjandi gjald að ræða fyrir grein sem þegar hefur orðið fyrir miklum samdrætti í kjölfar gjaldtökunnar.

Samþykkt samþhljóða.

31.Barnvæn Sveitarfélög

Málsnúmer 2510023Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá UNICEF á Íslandi sem hefur nú opnað fyrir umsóknir um þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög.



Bæjarráð vísaði erindinu, á 37. fundi sínum, til umsagnar í æskulýðs- og íþróttanefnd og ungmennaráði.



Æskulýðs- og íþróttanefnd tók, á 5. fundi sínum, jákvætt í erindið, en taldi að farsælast yrði ef sveitarfélögin á Snæfellnsesi myndu vinna saman að þessu verkefni og í því sambandi gæti verið skynsamlegt að tengja það við farsæld barna.



Bæjarráð staðfesti, á 39. fundi sínum, afgreiðslu æskulýðs- og íþróttanefndar.
Bæjarstjórn tekur undir með æskulýðs- og íþróttanefnd og staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.
Samþykkt samhljóða.

32.Kallhamar og Hamraendar - Skipulagsáætlanir (ASK)

Málsnúmer 2206035Vakta málsnúmer

Lögð fram samantekt umsagna og athugasemda sem bárust á auglýsingatíma, ásamt tillögu að svörum nefndarinnar. Bæjarstjórn samþykkti á 35. fundi sínum þann 28. apríl 2025 að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Stykkishólms 2002-2022 í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2012. Tillagan var auglýst frá 24. september til og með 5. nóvember 2025. Opið hús var haldið í Ráðhúsinu þann 21. október 2025. Á 35. fundi skipulagsnefndar var farið var yfir þær umsagnir og athugasemdir sem bárust við auglýsingu aðalskipulagsbreytingarinnar.



Á 37. fundi skipulagsnefndar var lögð fram samantekt umsagna og athugasemda sem bárust á auglýsingatíma í samræmi við 31. gr. skipulagslaga. Einnig eru lögð fram uppfærð skipulagsgögn þar sem brugðist er við athugasemdum sem bárust á auglýsingatíma.



Skipulagsnefnd samþykkti tillögu að svörum við umsögnum og endanlegri tillögu að aðalskipulagsbreytingu.



Skipulagsnefnd lagði til við bæjarstjórn að samþykkja aðalskipulagsbreytinguna og að bæjarstjórn mælist til þess við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að svör við umsagnir og athugasemdir verði staðfest.



Bæjarráð staðfesti, á 39. fundi sínum, afgreiðslu skipulagsnefndar og vísaði málinu til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi breytingu á Aðalskipulagi Stykkishólms 2002-2022 og tengd skipulagsgögn og mælist til þess við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt staðfestir bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar og svör við umsögnum og athugasemdum.

Samþykkt samhljóða.

33.Kallhamar og Hamraendar - Skipulagsáætlanir (DSK)

Málsnúmer 2206035Vakta málsnúmer

Lögð fram samantekt umsagna og athugasemda sem bárust á auglýsingatíma deiliskipulagstillögunnar, ásamt tillögu að svörum nefndarinnar. Bæjarstjórn samþykkti á 35. fundi sínum þnn 28. apríl 2025 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi annars vegar Kallhamar og hins vegar Hamraenda, í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2012.



Tillögurnar voru auglýstar frá 24. september til og með 5. nóvember 2025. Opið hús var haldið í Ráðhúsinu þann 21. október 2025.



Á 35. fundi skipulagsnefndar var farið var yfir þær umsagnir og athugasemdir sem bárust við auglýsingu deiliskipulagstillögurnar. Skipulagsnefnd fól skipulagsfulltrúa og formanni skipulagsnefndar að boða til fundar með fulltrúum Hamraenda 3 og eftir tilvikum öðrum lóðarhöfum til að fara yfir fyrirliggjandi athugasemdir.



Á 37. fundi skipulagsnefnar var lögð fram samantekt umsagna og athugasemda sem bárust á auglýsingatíma í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Einnig eru lögð fram uppfærð skipulagsgögn þar sem brugðist er við athugasemdum sem bárust á auglýsingatíma. Skipulagsnefnd samþykkti tillögu að svörum við umsögnum og athugasemdir ásamt uppfærðum skipulagsgögnum.



Skipulagsnefnd samþykkti endanlega deiliskipulagstillögu og lagði til við bæjarstjórn að samþykkja deiliskipulagið og að það taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt lagði skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að svör við umsagnir og athugasemdir verði staðfest.



Bæjarráð staðfesti, á 39. fundi sínum, afgreiðslu skipulagsnefndar með þeirri viðbót að settir verði skilmálar við lóðir við flugvallaendann í samræmi við svar Isavia ohf. og vísaði málinu til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn samþykkir endanlegar deiliskipulagstillögur fyrir Hamraenda og Kallhamar og tengd skipulagsgögn og að það taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt staðfestir bæjarstjórn afgreiðslu bæjarráðs og skipulagsnefndar og svör við umsögnum og athugasemdum.

Samþykkt samhljóða.

34.Agustsonreitur - skipulagsbreyting

Málsnúmer 2302009Vakta málsnúmer

Lögð fram samantekt umsagna og athugasemda sem bárust á auglýsingatíma, ásamt tillögum að svörum nefndarinnar. Bæjarstjórn samþykkti 8. maí 2025 að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Stykkishólms 2002-2022 í samræmi við 31. gr. skipulagslaga og að auglýsa tillögu að deiliskipulagi í samræmi við 41. gr. skipulagslaga.

Tillögurnar voru auglýstar frá 24. september til og með 5. nóvember 2025. Opið hús var haldið í Ráðhúsinu þann 21. október 2025.



Á 35. fundi skipulagsnefndar mættu íbúar nærliggjandi lóða og sögðu nánar frá athugasemdum sínum og á 36. fundi nefndarinnar mætti Davíð Pitt, hönnuður skipulagsins, og kynnti fyrir nefndinni uppfærslur og breytingar til að koma til móts við íbúa.



Á 37. fundi skipulagsnefnar var lögð fram samantekt umsagna og athugasemda sem bárust á auglýsingatíma í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Einnig voru lögð fram uppfærð skipulagsgögn þar sem brugðist er við athugasemdum sem bárust á auglýsingatíma. Gerð var breyting á deiliskipulagi Agustsonreitar til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar sem bárust á auglýsingatíma. Vísast til fyrirliggjandi ganga í því sambandi.



Skipulagsnefnd samþykkti tillögu að svörum við athugasemdum og umsögnum ásamt uppfærðum og endanlegum skipulagsgögnum aðalskipulagsbreytingar og deiliskipulags.



Skipulagsnefnd lagði til við bæjarstjórn að samþykkja aðalskipulagsbreytinguna og að bæjarstjórn mælist til þess við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ennfremur lagði skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að samþykkja deiliskipulag Agustsonreitar með þeim breytingum sem gerðar hafa verið og að það taki gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.



Jafnframt lagði skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að svör við umsagnir og athugasemdir verði staðfest.



Bæjarráð staðfesti, á 39. fundi sínum, afgreiðslu skipulagsnefndar og vísaði málinu til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi aðalskipulagsbreytingar á aðalskipulagsi Stykkishólms 2002-2022 og tengd skipulagsgögn og mælist til þess við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn endanlegt deiliskipulag Agustsonreitar og tengd skipulagsgögn og að það taki gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt staðfestir bæjarstjórn afgreiðslu bæjarráðs og skipulagsnefndar og svör við umsögnum og athugasemdum.

Samþykkt samhljóða.

35.Gjaldskrár 2026

Málsnúmer 2510019Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að gjaldskrám sveitarfélagsins fyrir árið 2026.



Bæjarráð samþykki gjaldskrár, á 37. fundi sínum, og vísaði þeim til fyrri umræðu í bæjarstjórn.



Bæjarstjórn samþykkti, á 41. fundi sínum, gjaldskrár fyrir Sveitarfélagið Stykkishólm fyrir árið 2026 og vísaði þeim til frekari umfjöllunar í bæjarráði, umsagnar í fastanefndum og til síðari umræðu í bæjarstjórn.



Bæjarráð vísaði, á 38. fundi sínum, málinu til frekari vinnslu í bæjarráði.



Bæjarráð samþykkti, á 39. fundi sínum, gjaldskrár og vísaði þeim til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Lagðar eru fyrir bæjarstjórn til síðari umræðu gjaldskrár sveitarfélagsins 2026, en gjaldskrár hafa verið til umfjöllunar í fastanefndum bæjarins undanfarnar vikur.

Bæjarráð samþykkti á síðasta fundi sínum gjaldskrár Sveitarfélagsins Stykkishólms fyrir árið 2026 og vísaði þeim til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Álagningarstuðull fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði lækkar og verður 0,38% á árinu 2026. Álagningarprósenta lóðarleigu íbúðarhúsnæðis lækkar jafnframt og verður 0,95%. Álagningarprósenta holræsagjalds húseigna í A-flokki (íbúaðarhúnsæði) lækkar jafnframt og verður 0,15%.

Álagningastuðull fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði lækkar og verður 1,50%. Álagningarprósenta lóðarleigu atvinnuhúsnæðis lækkar jafnframt og verður 1,99%. Álagningarprósenta holræsagjalds húseigna í C-flokki (atvinnuhúsnæði) lækkar einnig og verður 0,15%.

Álagningarhlutfall úrsvars er 14,97% 2026 og er því óbreytt.

---

Forseti bæjarstjórnar ber upp eftirfarandi tillögu um fasteignaskatta,lóðarleigu,holræsagjald og úrgangshirðugjöld:

Fasteignaskattur A-flokkur 0,38%. Fasteignaskattur B-flokkur 1,32%. Fasteignaskattur C-flokkur 1,50%.

Lóðaleiga íbúðarhúsnæðis 0,95%. Lóðarleiga atvinnuhúsnæðis 1,99%.Lóðarleiga ræktunarland 6,00%.

Fráveitugjald íbúðarhúsnæði 0,15%. Fráveitugjald atvinnuhúsnæði 0,18%.

Úrgangshirðugjald pr. íbúð 81.120 kr. (fjórartunnur) 89.440 (þrjár tunnur ein tvískipt) Úrgangshirðugjald sumarhús 40.560. Gjalddagar fasteignagjalda verði 9 frá 1. febrúar til og með 1. október.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu um fasteignagjöld og aðrar álögur.
Samþykkt samhljóða.


Forseti bæjarstjórnar ber upp tillögu að afslátt vegna fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði í samræmi við fyrirliggjandi gögn sem felur í sér að elli- og örorkulífeyrisþegar fá aukna lækkun á fasteignaskatti miðað við tekjur á skattframtali. Afslátturinn fer eftir tekjuupphæð og gildir vegna eigin húsnæði sem viðkomandi býr í.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu um afslátt vegna afsláttar af fasteignaskatti.



Forseti bæjarstjórnar ber gjaldskrá Stykkishólmshafnar fyrir árið 2026 upp til atkvæða.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða gjaldskrá Stykkishólmshafnar fyrir árið 2026.


Forseti bæjarstjórnar ber gjaldskrá fyrir garðslátt fyriraldraðra og öryrkja árið 2026 upp til atkvæða.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða gjaldskrá fyrir garðslátt árið 2026.


Forseti bæjarstjórnar ber gjaldskrá fyrir slökkvilið fyrir árið 2026 upp til atkvæða.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða gjaldskrá fyrir slökkvilið árið 2026.



Forseti bæjarstjórnar ber gjaldskrá fyrir fráveitu og rotþróargjald fyrir árið 2026 upp til atkvæða.

Bæjarstjórn samþykkir gjaldskrá fyrir fráveitu árið 2026.
Samþykkt samhljóða.


Forseti bæjarstjórnar ber gjaldskrá fyrir hunda- og kattahald fyrir árið 2026 upp til atkvæða.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða gjaldskrá fyrir hunda- og kattahald árið 2026.


Forseti bæjarstjórnar ber gjaldskrá fyrir úrgangshirðu fyrir árið 2026 upp til atkvæða.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða gjaldskrá fyrir úrgangshirðu árið 2026.


Forseti bæjarstjórnar ber aðrar fyrirliggjandi gjaldskrár Sveitarfélagsins Stykkishólms fyrir árið 2026 upp til atkvæða, með áorðnum breytingum, að utanteknum þeim öðrum gjaldskrám sem þegar hafa verið samþykktar.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða aðrar gjaldskrár sveitarfélagsins.

Til máls tók: JBSJ

36.Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Stykkishólms 2026-2029

Málsnúmer 2510020Vakta málsnúmer

Fjárhagsáætlun 2026-2029 lögð fram til síðari umræðu.



Bæjarráð samþykkti fjárhagsáætlun 2026-2029, á 37. fundi sínum, og vísaði henni til fyrri umræðu í bæjarstjórn.



Bæjarstjórn samþykkir að útsvar hjá Sveitarfélaginu Stykkishólmi verði 14,97% á árinu 2026.



Bæjarstjórn samþykkti, á 41. fundi sínum, fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Stykkishólms fyrir árin 2026-2029 og vísaði henni til frekari umfjöllunar í bæjarráði, umsagnar í fastanefndum og til síðari umræðu í bæjarstjórn.



Bæjarráð vísar málinu, á 38. fundi sínum, til frekari vinnslu í bæjarráði.



Bæjarráð samþykkti, á 39. fundi sínum, fjárhagsáætlun 2026-2029 og vísaði þeim til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Greinargerð bæjarstjóra vegna fjárhagsáætlunar 2026-2029:

Fyrir bæjarstjórn eru lögð fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Stykkishólms fyrir árið 2026 og þriggja ára fjárhagsáætlun 2027-2029, ásamt gjaldskrám Sveitarfélagsins Stykkishólms fyrir 2026. Þá eru lagðar fram umsagnir fastanefnda um fjárhagsáætlun og gjaldskrár sveitarfélagsins ásamt samantekt sem byggð er á fjárhagsáætlun 2026-2029.

Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2026 og þriggja ára fjárhagsáætlun 2027-2029 er unnin út frá forsendum og markmiðum sem bæjarstjórn setti sér og hefur þeim, með áorðnum breytingum, verið fylgt við vinnu við gerð fjárhagsáætlunar.

Í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er lögð áhersla á ábyrga fjármálastjórnun þar sem gætt er aðhalds og ábyrgðar í rekstri bæjarins á sama tíma og þjónusta við bæjarbúa verði eins og best verður á kosið.
Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 133,5 milljónir króna á árinu 2026 og að áætlað veltufé frá rekstri lækki um 9 milljónir króna úr 304,0 milljónum 2025 í 295,0 milljónir árið 2026.

Markmið fjárhagsáætlunar 2026-2029 eru að tryggja jafnvægi í rekstri á tímabilinu, þ.e. að heildarútgjöld til rekstrar vegna A og B hluta séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum, framlegðarhlutfall verði um 15%, að veltufjárhlutfall nálgist 0,7, handbært fé verði á bilinu 85 - 120 millj. í árslok 2026 og að rekstur skili nægjanlegum fjármunum til að standa undir afborgunum langtímalána.

Fjárfestingaáætlun gerir ráð fyrir að heildarfjárfesting tímabilsins 2026-2029 nemi 400 millj. kr., lántaka nemi 400 millj. kr. og afborganir nemi 1.003,5 millj. kr. Gangi áætlanir eftir mun skuldahlutfall og skuldaviðmið sveitarfélagsins lækka og gera áætlanir ráð fyrir að skuldaviðmið verði í kringum 99,7% strax í lok árs 2026 og 83,1% í árslok 2029, en í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum.

Í forsendum er gert ráð fyrir 3,5% verðbólgu yfir árið 2026, 3,2% árið 2027, 2,5% 2028 og 2,5% árið 2029, í samræmi við þjóðhagsspá sem gefin er út af Hagstofu Íslands. Gert er ráð fyrir því að meðalraunvextir lána verði um 2,6% á árunum 2026- 2029. Auk framangreinds gera forsendur ráð fyrir því að gjaldskrár sveitarfélagsins muni almennt hækka um 4% á ári á árunum 2026-2029.

Í fyrirliggjandi áætlun um fjárfestingarliði vegna ársins 2026 verður lögð áhersla á fjárfestingu í mikilvægum innviðum og bættri þjónustu við íbúa. Í fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun fyrir árið 2026 ber hæst að stefnt er að því á næsta ári að mæta nauðsynlegri fjárfestingu í tækjabúnaði íþróttamiðstöð og sundlaug, halda áfram endurbótum á Höfðaborg í samræmi við styrk frá framkvæmdarsjóði aldraðra, viðhald á skólamannvirkjum, áframhaldandi fjárfestingu í umferðaröryggismálum, uppbyggingu göngustíga og umhverfisverkefni og endurbætur á leikvöllum. Í áætlunum er reynt að lágmarka nýjar lántökur á næstu fjórum árum, en gert er ráð fyrir 400 milljónum kr. í lántökum á árunum 2026 til 2029. Umræddar fjárfestingarnar á næstu árum verða jafnframt fjármagnaðar á bilinu 295,0 til 307,1 milljónum með veltufé frá rekstri á árunum 2026-2029 og handbæru eigin fé sveitarfélagsins, en áætlanir gera jafnframt ráð fyrir fjármagna framkvæmdir að hluta með sölu eigna og greiðslu gatnagerðargjalda.

Helstu fjárfestingar á árinu 2026 eru:
- Höfðaborg
->Endurbætur á 1. hæð - eldhús o.fl.
- Íþróttahús - ýmis verkefni
-> Gervigras
-> Hússtjórnarkerfi og lýsinga
->Loftræsting og rakastýring
->Fjölnota klefi
- Sundlaug
->Iðnstýring fyrir sundlaug
->Nýr dúkur á jöfnunartank
- Tónlistaskóli
->Þak og dren
- Ráðhús
->Dren og þak
- Gatnagerð og umferðaröryggi
- Skjöldur - tilfallandi
- Leikvellir
- Tjaldsvæði
- Tæki fyrir Áhaldahús
- Höfðaborg - Ýmsar breytingar
- Stígagerð og umhverfisverkefni
- Áframhaldandi uppbygging í Skógræktinni og Grensás, ásamt öðrum verkefnum.
- LED-væðing ljósastaura og stofnana
- Fráveita
->Sundabakki
- Uppbygging í Stykkishólmshöfn
->Rafmagn á hafskipabryggju
->Lýsing
->Öryggismyndavélar
->Innsiglingaljós
->Hafnarskúr
->Hafskipaskúr
- Nýtt húsnæði fyrir Áhaldahús
- Eignasala
->Skúlagötu 9 - Tvær íbúðir
->Flugstöð
->Áhaldahús


Helstu lykiltölur fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins 2026-2029 eru eftirtaldar:

Fjárhagsáætlun aðalsjóðs sveitarfélagsins A-hluti 2026:
Tekjur alls: 2.675.190.000 kr.
Gjöld alls fyrir afskriftir og fjármagnsliði: 2.379.531.000 kr.
Rekstrarniðurstaða, jákvæð: 51.526.000 kr.
Veltufé frá rekstri: 221.741.000 kr.
Afborganir langtímalána: 241.789.000 kr.
Handbært fé í árslok: 58.762.000 kr.

Fjárhagsáætlun B-hluta sveitarfélagsins 2026:
Rekstrarniðurstaða Hafnarsjóðs, hagnaður: 11.271.000 kr.
Rekstrarniðurstaða Fráveitu, hagnaður: 11.909.000 kr.
Rekstrarniðurstaða Félagslegra íbúða: 54.887.000 kr.
Rekstrarniðurstaða Búseturéttaríbúða: 3.046.000 kr.
Rekstarniðurstaða Náttúrustofu Vesturlands: 844.000 kr.
Veltufé frá rekstri: 73.295.000 kr.
Afborganir langtímalána: 24.984.000 kr.

Fjárhagsáætlun samstæðu sveitarfélagsins A-B hluti 2026:
Tekjur alls: 2.959.027.000 kr.
Gjöld alls fyrir afskriftir og fjármagnsliði: 2.527.746.000 kr.
Fjármagnsgjöld alls: 169.267.000 kr.
Rekstrarniðurstaða, jákvæð: 133.483.000 kr.
Veltufé frá rekstri: 295.035.000 kr.
Afborganir langtímalána: 266.773.000 kr.
Handbært fé í árslok: 85.959.000 kr.

Fjárhagsáætlunin var unnin í mikilli og góðri samvinnu bæjarfulltrúa og um hana hefur myndaðist góð almenn samstaða. Vil ég þakka bæjarfulltrúum fyrir gott samstarf og þá vil ég þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum sveitarfélagsins sem lögðu sín lóð á vogaskálarnar í þessari vinnu.


------

Fyrir bæjarstjórn er lögð fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Stykkishólms 2026 ásamt þriggja ára fjárhagsáætlun 2027-2029 eftir að hafa fengið umfjöllun í fastanefndum sveitarfélagsins.

Bæjarráð samþykkti að vísa fjárhagsáætlun sveitarfélagsins til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Forseti bæjarstjórnar ber Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins Stykkishólms 2026 og þriggja ára fjárhagsáætlun 2027-2029 upp til atkvæða.

Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun með fjórum atkvæðum fulltrúa H-lista. Fulltrúar Í-lista sitja hjá.

Til máls tóku: HG, ÞE, JBSJ, RMR, SIM


Bókun Í lista:

Undanfarin ár hafa bæjarfulltrúar Íbúalistans bent á að styrkja þurfi rekstur sveitarfélagsins til að tryggja störf og þjónustu og hafa lagt til að besti kosturinn væri að fjárfesta hóflega og lækka skuldir á meðan fjárframlaga vegna sameiningar nyti við. Sú tillaga hlaut ekki undirtektir og var farið í miklar fjárfestingar með tilheyrandi lántökum og staðan í dag er að reksturinn er ekki sjálfbær og þarf að koma til sölu eigna til að halda honum réttu megin við núllið.
Ef sala eigna upp á um 125 milljónir og framlag vegna sameiningar sem lækkar í 50 milljónir á næsta ári, er dregið frá rekstrarhagnaði í núverandi áætlun, yrði rekstrarniðurstaða A-hluta um 125 milljóna tap og A- og B-hluta 25 milljóna tap, gefið að áætlun standist sem hefur reyndar ekki verið undanfarin ár og má draga þá ályktun af því að áætlanir séu ekki nógu varfærnar. Á næsta ári verður Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga aftur virk og verðum við því að ná þeim viðmiðum sem þar eru sett. Að auki er í gangi frumvarp sem nýbúið er í samráðsgátt en í því var lagt til að lækka heildarskuldir og skuldbindingar sem hlutfall af tekjum í A-hluta úr 150% í 110% sem og að Jafnvægisregla, þ.e. samanlagður rekstrarhagnaður síðustu þriggja ára, verði að vera hærri en núll. Verði af þessu setur þetta enn meiri pressu á reksturinn hjá okkur.
Hvað núverandi áætlun varðar þá er það jákvætt að stefnt er að hóflegri lántöku næstu ár eða um 100 milljónir ári, sem er mjög jákvætt skref og í reynd nauðsynlegt til að ná tökum á rekstrinum. Einnig er búið að taka út stórar eignasölur í framtíðinni sem gáfu verulega skakka mynda af því sem koma skyldi og er þessi áætlun því nær raunveruleikanum.
Í forsendum fyrir áætlanagerð var sett fram að handbært fé ætti að vera 120-130 milljónir. Núverandi áætlun gerir aðeins ráð fyrir 86 milljónum og vantar því 35-45 milljónir upp á þar, háð því að útkomuspá fyrir 2025 standist. Undanfarin ár höfum við alltaf gengið út frá að hafa 120-130 milljónir til að þurfa ekki að taka dýr yfirdráttarlán til halda góðu sjóðstreymi. Þetta leiðir til þess að taka þarf lán strax í janúar á næsta ári til rétta af handbæra féð sem tryggir tímabilið þangað til þarf að borga fyrir framkvæmdir ársins. Hér þarf að halda vel á spilunum í rekstrinum og tryggja að ekki sé farið fram úr áætlun því það er mjög óráðlegt að fara í frekari lántöku.
Hvað varðar framkvæmdaáætlun ársins þá er hún nú, eins og síðustu ár, skot yfir markið að okkar mati. Áætlun gerir ráð fyrir gatnagerðargjöldum upp á 25 milljónir og sölu fjögurra eigna upp á 125,5 milljónir sem er óljóst hvort verði af.
Á móti er áætlað að framkvæma fyrir 258,5 milljónir. Þó er nú sú breyting á að búið er að forgangsraða verkefnum upp á 116 milljónir sem lántaka á að standa undir og þar á eftir er búið að forgangsraða verkefnum upp á 54-64 milljónir sem eru háð sölu eigna og gatnagerðagjöldum. Þá eru eftir um 79-89 milljónir af verkefnum sem við teljum að væri betra að hafa ekki á framkvæmdaáætluninni til að tryggja að ef sala eigna gengur eftir, þá fari það fyrir bæjarráð og bæjarstjórn - og þá verði tekin formleg ákvörðun um hvort eigi að bæta við framkvæmdum eða auka handbært fé. Eins og þetta er núna er í raun búið að heimila þessar framkvæmdir og ekkert því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir sem ekki eru í forgangsröðun áður en sala eigna hefur átt sér stað.
Móta þarf stefnu til næstu ára til að styrkja reksturinn og gera hann sjálfbæran og líklega er óráðlegt að selja of mikið af eignum of snemma í ferlinu þar sem það gæti komið okkur illa ef við verðum uppiskroppa með eignir áður en sjálfbærni er náð.
Að lokum þakka undirrituð nefndarfólki, starfsfólki, bæjarfulltrúum og endurskoðendum sveitarfélagsins fyrir sitt framlag við gerð fjárhagsáætlunarinnar.
Undrrituð munu sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunnar.

Íbúalistinn,
Haukur Garðarsson
Ragnar Már Ragnarsson
Heiðrún Höskuldsdóttir

Bókun H lista:
Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029 er afrakstur faglegrar og vandaðrar vinnu í góðri samvinnu bæjarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins, þó ekki hafi tekist að ná þverpólitískri samstöðu.

Áætlunin endurspeglar ábyrga fjármálastjórn, áframhaldandi jákvæða rekstrarniðurstöðu, sterkt veltufé frá rekstri og markvissa lækkun skuldaviðmiðs á næstu árum, samhliða áframhaldandi eflingu grunnþjónustu og nauðsynlegri uppbyggingu innviða sem byggja undir þarfir stofnana og íbúa án þess að stefna fjárhag sveitarfélagsins í hættu. Áætlunin er í samræmi við ársreikning 2024, sem staðfestur hefur verið af endurskoðanda sveitarfélagsins, og útgönguspá 2025, sem saman sýna að rekstur sveitarfélagsins hefur náð jafnvægi eftir krefjandi ytri aðstæður, svo sem verðbólgu og tekjusveiflur eftir faraldurinn. Á sama tíma hefur skuldaviðmið verið langt undir lögbundnu hámarki og haldið áfram að lækka, en samkvæmt fyrirliggjandi áætlun verður skuldaviðmið komið niður í 99,7% árið 2026 og 83% árið 2029.

H-listinn hefur lagt áherslu á að mæta þeirri miklu og jákvæðu fólksfjölgun sem hefur verið í sveitarfélaginu undanfarin 10 ár, annars vegar með arðbærum fjárfestingum, eins og t.d. Víkurhverfi, til að mæta þeirri augljósu eftirspurn sem hefur verið fyrir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, og hins vegar innviðafjárfestingu hjá grunnstofnunum sveitarfélagsins, hvort sem það er að mæta húsnæðisþörfum skólastofnana eins og með viðbyggingu við grunnskóla og tómstundastarf barna í sumar. Þar til viðbótar hefur t.d. verið byggð upp í áföngum öldrunarþjónusta á Höfðaborg, nýtt parket sett í íþróttahúsið, farið í nauðsynlegar endurbætur á sundaðstöðu sem gerðar höfðu verið athugasemdir við af eftirlitsaðilum og ráðist í nauðsynlegar fráveitu- og gatnagerðarframkvæmdir.

Nauðsynlegar fjárfestingar hafa verið fjármagnaðar annars vegar af eigin fé og hins vegar með lántökum. H-listinn telur að það sé ekki trúverðug eða ábyrg afstaða að styðja sumar framkvæmdir í orði, en hafna fjármögnun þeirra í verki eða gagnrýna leiðir H-listans án þess að leggja fram aðra valkosti. Slík framganga skapar þá ímynd að hægt sé að byggja upp innviði án þess að fjármagna slíka uppbyggingu, sem er óraunhæft og villandi gagnvart íbúum.

H-listinn telur að uppbyggingar síðustu ára og bættir innviðir hafi gert Sveitarfélagið Stykkishólm að eftirsóknarverðara sveitarfélagi, mætt nauðsynlegum þörfum stofnana vegna fjölgunar íbúa, skilað sér í stöðugri fólksfjölgun sem og auknum tekjustofnum sveitarfélagsins og þar með styrkari rekstri sveitarfélagsins sem bætir lífsgæði og þjónustu við íbúa.

Bæjarfulltrúar H-listans vilja að lokum lýsa því yfir að þeir séu stoltir yfir því hvernig til hefur tekist á síðustu árum hjá sveitarfélaginu, þrátt fyrir krefjandi aðstæður, og lýsa ánægju sinni yfir þeim ábyrga rekstri sem endurspeglast í þessari síðustu fjárhagsáætlun kjörtímabilsins. Með fyrirliggjandi áætlun og áætlunum síðustu ára teljum við okkur vera að vinna að því þjónustustigi sem við höfum stefnt að fyrir íbúa bæjarins, en H-listinn leggur áherslu á að draga ekki úr mikilvægri grunnþjónustu, standa vörð um fjölskyldur og fyrirtæki, sækja af ábyrgð fram með mikilvægum fjárfestingum innviða á sama tíma og stefnt er að því að tryggja að skuldaviðmið og skuldahlutföll séu að lækka á tímabilinu.

Bæjarfulltrúar H-listans vísa að öðru leyti til fyrirliggjandi fjárhagsáætlunar, greinargerðar bæjarstjóra með henni og samantektar fjárfestingaráætlunar 2026-2029.

Undir þetta rita bæjarfulltrúar H-listans:
Hrafnhildur Hallvarðsdóttir
Steinunn Ingibjörg Magnúsdóttir
Ragnar Ingi Sigurðsson
Þórhildur Eyþórsdóttir

37.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1808022Vakta málsnúmer

Lagðir fram minnispunktar bæjarstjóra.
Bæjarstjóri gerir grein fyrir minnispunktum sínum.

Fundi slitið.

Getum við bætt efni síðunnar?