Fara í efni

Súgandisey

Súgandisey er órjúfanlegur partur af ásýnd hafnarsvæðisins og er án efa eitt af þekktustu kennileitum Stykkishólms. Árið 1989 var eyjan tengd landi með landfyllingu þegar ný hafnaraðstaða var útbúin fyrir Breiðafjarðarferjuna Baldur. Mjög vinsælt er að ganga upp á eyjuna til að njóta náttúru, fuglalífs og útsýnis yfir bæinn sem og matarkistuna Breiðafjörð.

Þrep frá höfninni leiða gesti upp á eyjuna og þegar þangað er komið er hægt að þræða göngustíga bæði til austurs og vesturs. Ef farið er til austurs er genginn smá spölur upp að dvalarsvæði þar sem útsýni er til suðurs í átt að bænum. Þaðan er hægt að taka lykkju á leið sína og ganga upp að vitanum. Vitinn var reistur árið 1897 á Gróttu á Seltjarnarnesi og fluttur á Súgandisey árið 1942.

Út af göngustígnum er klettatangi einn á norðausturhorni Súgandiseyjar sem laðar sérstaklega að sér ferðamenn til útsýnisupplifunar. Með það markmið að tryggja öryggi og bæta aðgengi ört vaxandi gestafjölda á eyjunni var haldin samkeppni um útsýnisstað og varð tillagan Fjöregg hlutskörpust. Fjöreggið er útsýnisskúlptúr, útsýnispallur, upplifunar- og áningarstaður allt í senn. Fjöreggið verður sýnilegt frá bænum og því forvitnilegt aðdráttarafl fyrir gesti og gangandi.

Getum við bætt efni síðunnar?